Frítekjumark atvinnutekna verði hálf milljón á mánuði

„Eldri borgarar geta ekki beðið lengur eftir réttlæti,“ segir í kosningastefnu Miðflokksins um málefni eldra fólks. Flokkurinn hyggst afnema núverandi skerðingar og koma á sanngjörnu kerfi í staðinn þar sem ævistarf fólks sé virt.

Flokkurinn segist ætla að hækka frítekjumark atvinnutekna í 500.000 kr. á mánuði. Frítekjumark greiðslna úr lífeyrissjóði verður 125.000 kr. á mánuði komist flokkurinn til valda. „Með því hvetur kerfið til sparnaðar og verðmætasköpunar.“

Þá vill Miðflokkurinn að núverandi hindranir á atvinnu eldra fólks verða afnumdar. Þeir sem kjósi að vinna lengur en núverandi lög um starfslok geri ráð fyrir eigi að hafa rétt til þess. „Það er réttlátt og hagkvæmt fyrir ríkissjóð, lífeyriskerfið og samfélagið allt.“

„Eldri borgarar munu greiða skatt á sama hátt og aðrir,“ segir einnig í kosningastefnu Miðflokksins. „Sá hluti lífeyrisgreiðslna sem er fjármagnstekjur verður skattlagður sem slíkur. Lífeyrir og aðrar hliðstæðar bætur frá Tryggingastofnun verða miðaðar við umsamin lágmarkslaun og hækka í takti við launavísitölu.“ Þannig segist flokkurinn að sé komið í veg fyrir mismunun gagnvart eldri borgurum og tækifæri þeirra aukin. „Aukið vinnuframlag þeirra sem hafa vilja og getu til eykur þjóðarframleiðslu og skatttekjur en bætir einnig fjárhag lífeyrissjóða.“

Einnig segist Miðflokkurinn vilja endurreisa heilbrigðiskerfið. „Með því að eyða biðlistum, fjölga hjúkrunar- og þjónusturýmum og efla heimaþjónustu má draga úr óþarfa kostnaði í heilbrigðiskerfinu og bæta líf sjúklinga og eldri borgara á Íslandi.“

Þá segir að ríkinu beri skylda til að veita öldruðu og veikburða fólki viðunandi búsetuúrræði. Regluverk um réttindi öryrkja og eldri borgara verði einfaldað og málaflokkarnir aðskildir í lögum.

Miðflokkurinn ljær einnig máls á hugmynd um umboðsmann eldri borgara sem muni gæta réttinda þeirra. Segir flokkurinn að starfsemi hans verði fjármögnuð með tvöfalt meiri sparnaði annars staðar í ríkiskerfinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins og skipar fyrsta sætið í Norðausturkjördæmi. Listabókstafur Miðflokksins er M. Nálgast má stefnu flokksins í málefnum eldri borgara með því að smella hér.

Ritstjórn september 22, 2021 11:00