Sumarið er senn á enda, skólarnir fara að byrja og fólk er farið að huga að dagskrá vetrarins. Eldra fólk sem er hætt að vinna hefur úr mörgu að velja, þegar farið er að huga að því sem hægt er að gera í vetur. Eitt af því sem stendur til boða einu sinni í mánuði á Listasafni Íslands eru svokallaðar Gæðastundir. Þær eru fyrst og fremst ætlaðar eldri borgurum. Fyrsta Gæðastundin verður núna á miðvikudaginn klukkan 14:00.
Leiðsögn um sýningar og innra starf safnsins
Eldra fólki fer fjölgandi á Íslandi rétt eins og gerst hefur í öðrum Evrópulöndum. Í söfnum í nágrannalöndunum er víða heilmikið prógramm ætlað eldri borgurum og Listasafn Íslands hefur boðið uppá Gæðastundirnar frá vorinu 2018. Ragnheiður Vignisdóttir sem hefur umsjón með þessum lið í starfsemi safnsins segir að fólk fái á Gæðastundunum leiðsögn um sýningar sem standa yfir í safninu og einnig sé boðið uppá spjall við sérfræðingana sem starfa þar um myndlist, yfirstandandi sýningar og starfsemina almennt. „Við fáum stundum sérfræðinga, til dæmis forverði, ljósmyndara, útgáfustjóra og fleiri til að segja frá því sem þeir eru að fást við í sínum störfum á safninu og það hefur sannarlega verið áhugi fyrir þessu hjá gestunum“, segir hún. Punkturinn yfir i-ið á Gæðastundinni er svo kaffi og með því, í boði bakarísins Brauð og co. Þar er boðið uppá ilmandi bakkelsið beint úr ofninum, gestum að kostnaðarlausu. Ragnheiður segir að það skapist oft skemmtilegar umræður yfir kaffinu „ Og það er yfirleitt enginn að flýta sér til að komast á næsta fund“, segir hún og brosir.
Safnið gæti vel þjónað þessum aldurshópi
Ragnheiður segir að fyrir sig persónulega hafi amma hennar og afi líka verið kveikjan að Gæðastundunum. „Árið 2017 þegar við á safninu vorum að leggja drögin að þessari dagskrá þá bjó ég í sama húsi og amma mín og afi . „Þau eru svo vinamörg og bæði mikið að njóta lífsins í félagsskap hvors annars og góðra vina. Ég sá að safnið gæti vel þjónað þessum aldurshópi“, segir hún.
Vatn í ýmsum myndum í verkum Sigtryggs Bjarna á fyrstu Gæðastundinni
Sigtryggur Bjarni Baldvinsson mun á fyrstu Gæðastundinni ganga með gestum um sýningu sína Fram fjörðinn seint um haust, sem nú stendur yfir í Listasafninu. Vatn í ýmsum myndum hefur verið Sigtryggi Bjarna hugleikið í listinni og á sýningunni eru athyglisverðar myndir af bleikjum í vatni en einnig af gróðri í snjó. Verkin voru máluð á síðustu tveimur árum og viðfangsefnið er lífríki Héðinsfjarðar að hausti til. Afar fínleg og falleg verk.
Þessi fyrsta Gæðastund er eins og áður sagði á miðvikudaginn 16.ágúst klukkan 14:00. Næsta Gæðastund verður svo miðvikudaginn 20.september á sama tíma. Þá verður fjallað um verkið Glerregn eftir Rúrí. Eftir það verða Gæðastundir mánaðarlega.
Aðgangseyrir að Gæðastundinni er sá sami og aðgangseyrir af safninu sjálfu fyrir eldri borgara, eða 1.100 krónur fyrir manninn. Kaupi fólk hins vegar árskort í safnið, fær það sjálfkrafa aðgang að öllum Gæðastundunum ásamt kaffi og meðlæti. Árskort fyrir eldri borgara í Listasafninu kostar 3.300 krónur.