Annars flokks „útileguborgarar“ í eigin landi?

Þráinn Þorvaldsson

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

Við hjónin höfum stundað útilegur og göngur í meira en 50 ár. Síðan Skaftafell varð aðgengilegt höfum við við sótt þangað nær árlega. Svæðið er yndislegt bæði til gönguferða og myndatöku. Á nýlegri hringferð okkar hjóna um landið settum við okkur niður í Skaftafelli enda góð veðurspá. Við ókum inn á svæðið eins og  við erum vön frá fyrri tíð, byrjuðum á að kanna fyrst hvort laust svæði væri fyrir hendi, þar sem  reglan hefur verið, fyrstir koma fyrstir fá. Slíkt tíðkast á flestum tjaldsvæðum. Greiða síðan gjaldið þegar landverðir ganga á milli og rukka að kvöldi. Við fundum endurbætta flöt sem okkur leist vel á en þar var möl og gras til skiptist eins og á alvöru tjaldsvæðum. Við settum vagninn þar upp. Um kvöldið var rukkað en um leið var okkur tilkynnt að við yrðum að flytja okkur af svæðinu næsta dag því það væri frátekið fyrir hóp sem kæmi milli kl. 5 og 6 daginn eftir. Ég kvartaði yfir því að ekki hefði verið gefið til kynna að svæðið yrði frátekið. Mér var þá sagt að ég hefði átt að  ræða við hliðvörð áður en við fórum inn á svæðið. Morguninn eftir fluttum við okkur á annað svæði handan limgerðis sem okkur var vísað á. Ég fylgdist með frátekna svæðinu um kvöldið, þar komu fáir og var svæðið nánast autt.

Eftir hádegi næsta dag þegar við komum úr gönguferð var einnig svæðið sem við höfðum flutt okkur á afgirt með spjöldum um að það væri frátekið. Seinni hluta dags kom landvörður og tilkynnti okkur að þetta svæði væri frátekið og við yrðum að flytja okkur. Ég sagði að nú væri mér nóg boðið en okkur hefði verið vísað af öðru svæði á þetta, deginum áður. Landvörðurinn sagði það hafa verið misskilning og að við mættum vera þar áfram. Við fórum. Ég vil taka það fram að svæði hafa áður verið frátekin þegar við höfum verið í Skaftafelli en aldrei fyrr hefur svo stór hluti svæðisins verið frátekinn og okkur verið vísað af svæðum og það tvisvar.

Þegar við ferðumst um landið leitum við eftir fallegum stöðum og ef nægilegt landrými er fyrir hendi, viljum við ekki vera ofan í næsta vagni ef mögulegt er. Á þeim fjórum svæðum sem voru fyrir vagnafólk í Skaftafelli voru tvö tekin frá, ekki hluti flatanna heldur flatirnar allar. Þeir sem komu á svæðið þurftu að setja sig niður á þéttsetnum svæðum hver við hliðina á öðrum. Við skrif þessarar greinar hringdi ég í skrifstofu Vatnajökulsþjóðgarðs í leit að upplýsingum um hvaða möguleika ég hefði sjálfur til þess að geta látið taka frá svæði fyrir mig og mína. Einnig hvort greitt væri fyrir frátekið svæði ef viðkomandi hópur skilar sér ekki. Íslendingar njóta dagsins alls á svæðinu meðan erlendir ferðahópar koma að kvöldi og eru flestir farnir snemma að morgni. Starfsmaður sem ég ræddi við í síma sýndi mér mikla hluttekningu en gat ekki gefið skýringar.

Við Íslendingar getum öll glaðst yfir því að fá erlenda ferðamenn í auknum mæli til landsins en þegar tilfinningin er orðin sú að við séum orðnir annars flokks „útileguborgarar“ og séum fyrir erlendum ferðamönnum er ástæða til þess að staldra við og leita jafnréttis.

 

Þráinn Þorvaldsson júlí 21, 2018 14:13