Það er eiginlega ekki hægt að fá leið á kjúklingi. Það er hægt að elda hann á ótal vegu. Við fundum þessa uppskrift að appelsínukjúklingi á vef Ísfugls. Ef börn verða í matinn þá er kannski rétt að minnka aðeins chilliið sem er notað. Börn eru misjafnlega hrifin af sterku bragði.
1 heill kjúklingur
2 hvítlauksgeirar smátt saxaðir
1 appelsína skorin í bita
1 st rauður chilli smátt saxaður
½ dl olía
1 msk rósmarín þurrkað
1 tsk chilliduft
Salt og pipar
Þerrið kjúklinginn og hrærið saman hvítlauk, chilli og appelsínu og ½ msk rósmarín og troðið inn í kjúklinginn. Makið olíunni á kjúklinginn ásamt restinni af kryddblöndunni. Setjið í 175 gráðu heitan ofn og bakið í 70 til 80 mínútur eða þar til kjúklingurinn er gegneldaður. Blaðamanni finnst gott að sneiða appelsínur og bæta í fatið með kjúklingnum ásamt grein af fersku rósmarín en það er ekki í upprunarlegu uppskriftinni.
Sósa
1 dl vatn
1 dl appelsínusafi
2 msk appelsínumarmelaði
Soðið af kjúklingnum
Kjúklingakraftur
Sósujafnari
Sjóðið saman vatn, appelsínusafa, marmelaði og soðið af kjúklingnum. Bragðbætið með kraftinum og þykkið með sósujafnara.
Kartöflur í ofni
12 meðalstórar kartöflur
½ dl olía
2 saxaðir hvítlauksgeirar
1 msk þurrkuð steinselja
salt og pipar
Skerið kartöflurnar í bita og veltið upp úr olíunni, blandið hvítlauk og steinselju saman við. Kryddið með salti og pipar og bakið í ofni við 175 gráður í 40 mínútur.