Lambalæri marinerað í hvítlauk, rósmarín, tímían og sítrónu

Heilsteikt lambalæri er undursamlega gott. Það klikkar nánast aldrei.  Þessa uppskrift fundum við á vefnum  Krydd og krásir og hún er afskaplega góð. Það er hægt að hafa hvaða meðlæti með lærinu sem vill, bara það sem manni finnst best sjálfum.  Blaðamaður Lifðu núna prófaði að hafa grófa kartöflumús með lærinu og það var afskaplega gott að hans mati. Sá sem samdi uppskriftina stingur hins vegar upp á  Hasselback kartöflum, smjörsteiktum gulrótum, strengjabaunum og  einföldu grænu salati. En hér er uppskriftin:

lambalæri

12 hvítlauksrif

2-3 greinar rósmarín

2-3 msk. ferskt tímían

örlítið af þurrkuðum chiliflögum

safi úr hálfri sítrónu

3 msk. olífuolía

sjávarsalt og nýmalaður pipar

í ofnskúffuna eða ofnpottinn setjum við:

2 gulrætur, gróft skornar

2 sellerý stilka, gróft skorna

1 lauk gróft skorinn

4 hvítlauksrif marin undir hnífsblaði

1 glas hvítvín eða rauðvín eða bara vatn ef þið viljið ekki eða eigið ekki vín.

Byrjið á að snyrta lærið og stinga litlum hníf í það á nokkrum stöðum, kannski 12-14 stungur.  Takið 4-6 hvítlauksgeira og skerið þá í 2-3 parta eftir endilöngu, troðið hvítlauksgeira ásamt 2-3 laufum af rósmarín í hverja stungu á lærinu.  Merjið afganginn af hvítlauksgeirunum undir hnífsblaði og skerið smátt.  Saxið rósmarín og tímían smátt og blandið ásamt hvítlauknum við olíu og sítrónusafa. Kryddið vel með salti, pipar og svolitlu af chiliflögum.  Nuddið lærið vel upp úr blöndunni  og leyfið að marenerast í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt.

Hitið ofninn í 220°C. Setjið lærið í ofnpott eða ofnskúffu og bakið í u.þ.b. 15 mínútur, lækkið þá hitann í 180°C og bakið áfram í u.þ.b. klukkustund eða þar til kjarnhiti er um 60°  Takið lærið úr ofninum, hellið soðinu úr ofnpottinum og takið grænmetið með.  Látið lærið hvíla í u.þ.b. 15 mín. á meðan sósan er kláruð.

Sósa 

100 gr. ferskir sveppir

20 gr. þurrkaðir sveppir

30 gr. smjör

soð og grænmeti úr ofnpottinum (það sem bakað var með lærinu)

2 – 3 dl. matreiðslurjómi

salt og pipar

Skerið fersku sveppina í sneiðar og brjótið þurrkuðu sveppina í bita. Látið malla í smjörinu í 20-30 mínútur. Bætið grænmetinu sem var í ofnpottinum með lærinu út í pottinn, og sigtið soðið og bætið því saman við.  Blandið vel saman og maukið síðan með töfrasprota. Setjið aftur yfir hita og hrærið rjómanum saman við. Kryddið með salti og pipar eftir smekk.

Ritstjórn apríl 19, 2019 11:10