Á áramótum er venja að horfa fram á við og velta fyrir sér hvað nýja árið muni bera í skauti sér. Sumir kjósa að líta til stjarnanna en Kínverjar eiga sér sína stjörnuspeki allsendis ólíka hinni vestrænu. Þótt nýtt ár hefjist ekki hjá þeim fyrr en 29. janúar er ekki úr vegi að skoða við hverju megi búast á ári snáksins.
Í kínverskri stjörnuspeki er snákurinn tengdur jörðinni og hægari takti en fylgdi drekanum en hann stjórnaði andanum á síðasta ári. Það má því búast við meiri stillingu í ár og að menn verði jarðbundnari, stilli væntingum sínum í hóf. Snákurinn stendur fyrir jafnvægi, fyrirhyggju og skipulagningu og ekki veitir af í viðsjárverðum heimi. Hann er einnig lausnamiðaður og ef marka má forystukonur nýrrar ríkisstjórnar Íslands er það einmitt eiginleiki sem nýr forsætisráðherra hefur til að bera svo hún passar sannarlega vel við þau öfl sem halda innreið sína með viðarsnáknum í lok mánaðarins. Það má líka reikna með aukinni grósku, velmegun og sköpun. Snákurinn er líka friðsamur og boðar það vonandi gott hvað varðar friðarviðræður milli Ísraelsmanna og Palestínumanna og Rússa og Úkraínumanna.
Á hinn bóginn merkir það alls ekki að snákurinn standi fyrir kyrrstöðu og stöðnun. Hann getur hreyft sig hratt ef á þarf að halda og er snöggur að sjá tækifæri stökkva á þau. Kínverjar mæla þess vegna með að fólk nýti þetta ár til að horfa inn á við og gera nauðsynlegar breytingar á lífi sínu.
Í kristinni trú táknar snákurinn illsku og freistingar. Hann var jú sá sem tældi þau Adam og Evu til að smakka á eplinu. Kínverjar líta hann hins vegar öðrum augum. Hjá þeim er hann tákn visku og snerpu. Auk þess að tengja hvert ár tilteknu dýri tengja kínverskir stjörnuspekingar dýrin við fimm náttúruöfl eftir árum. Öflin eru viður, málmur, jörð, vatn og eldur. 2025 er ár viðarsnáksins. Það er líka kallað ár græna snáksins og Kínverjar telja það boða sérstakt lán að klæðast grænum fötum í ár. Fólk ætti einnig að skreyta híbýli sín í þeim lit, enda er það líklegt til að skapa notalegra andrúmsloft á heimilinu og skapa þar meiri einingu. . Viðurinn stendur svo fyrir grósku, sveigjanleika og umburðarlyndi. Hann er líka nauðsynlegur til að fóðra eldinn og þess vegna má einnig búast við breytingum og athafnaþrótti á komandi ári.
Í goðsögunni um dýrin og stjörnumerki þeirra segir að þegar jaðikeisarinn bauð öllum dýrunum í himneska veislu hafi hvenær þau mættu til boðsins ráðið röðinni á þeim í hringnum sem árið markar. Snákurinn er bæði klókur og kænn þannig að hann vafði sig utan um hóf hestsins. Þegar þeir komu að hliði himnahallarinnar renndi hann sér niður á jörðina, og það varð til þess að hestinum brá og hann hrökk aftur á bak. Þannig tryggði snákurinn sér sjötta sætið og hesturinn settist í það sjöunda.
Ár viðarsnáksins var síðast árið 1965. Það var sannarlega ár mikilla breytinga víða, til dæmis má nefna að það ár leiddi Martin Luther King jr. mótmælagöngu til að hnykkja á um breytingar á kosningalögum sem auðvelda áttu þeldökku fólki að skrá sig á kjörskrá. Stríðið í Víetnam harðnaði verulega, rússneski geimfarinn Aleksei Leonov varð fyrstur manna til að fara í geimgöngu, Malcolm X var myrtur, Tokýó varð fjölmennasta borg í heimi þegar hún fór fram úr New York og til Íslands komu ellefu geimfarar að æfa sig áður en þeir veldust til að taka sæti í fyrstu geimflauginni sem send yrði til tunglsins.