Tengdar greinar

Arfleifðin vegsömuð og varðveitt

Icelandic Roots (https://www.icelandicroots.com/) er í senn ættfræðivefur, fræðasamfélag, tengslanet og tímarit. Að baki vefnum standa ótal manneskjur, sem gefa vinnu sína og eiga það sameiginlegt að vera af íslenskum uppruna og forvitnar um rætur sínar. Icelandic Roots teygir sig orðið um Bandaríkin, Kanada, Norðurlöndin og Ástralíu svo greinarnar kvíslast víða á þessu gróskumikla tré en ræturnar teygja sig um allt Ísland. Þær Becky-Byerly-Adams og Sunna Furstenau eru báðar burðarásar í samtökunum,sístarfandi að framgangi hugsjónanna. Fyrir tíu árum stofnaði Sunna samtökin og hefur hún síðan unnið sleitulust að framgangi hugsjónanna.

Nokkrir sjálfboðaliðar á Icelandic Roots hittust í Kópavogi meðan Sunna og Becky voru hér á landi.

Þær stöllur eru nýkomnar úr ferðalagi um gamla landið og heimsóttu ótal marga eins og í  fyrri ferðum. Sunna hefur komið tuttugu og fjórum sinnum til landsins og dvalið hér mislengi. Í hverri ferð stækkar og styrkist vina og kunningjanetið.

„Ég hef ekki alltaf heitið Sunna, segir Sunna. „Foreldrar mínir gáfu mér nafnið Pam en ég var aldrei sátt við það, fannst það ekki passa mér. Maðurinn minn,Jeff, og ég kynntumst mjög ung og hann kallaði mig alltaf, Sunshine. Hann er mjög hæglátur en ég er opin og glaðlynd. Einhverju sinni vorum við á ráðstefnu hjá Icelandic Roots og þá sagði Nelson Gerard, einn af ættfræðingunum okkar; „Pam, þetta gengur ekki, við verðum að finna handa þér íslenskt nafn.“ Ég fór að velta þessu fyrir mér og upp komu nöfnin, Lovísa og Elísabet, sem voru ömmur mínar en ég var ekki ánægð með þau fyrir mig..

Nelson sagðist þá ætla að sofa á þessu. Daginn eftir stóð hann upp og sagði yfir hópinn: „Ég er með mjög áríðandi tilkynningu til Pam og þetta verður í síðasta skipti sem ég ávarpa hana með þessu nafni. Við eigum að kalla hana Sunnu.“ Hann sneri sér síðan að mér og sagði: „Þú ert glaðasta og hamingjusamasta manneskja sem ég þekki. Þú ert full af sólskini og það birtir í hverju herbergi þegar þú gengur inn.“ Ég varð strax yfir mig hrifin af nafninu og fannst það frábært. Ég hringdi í Jeff strax um kvöldið og sagði honum að ég hefði fengið nýtt nafn. Hann spurði hvað Sunna þýddi og ég sagði honum það. Fyrstu viðbrögð hans voru; „Vá það er fullkomið.“ Svo spurði hann hvort ég hefði sagt þeim hvað hann kallaði mig en ég sagði nei, ég hefði aldrei sagt neinum frá því. Upp frá því fóru íslensku vinir mínir að kalla mig Sunnu.

Becky og Sunna heimsóttu fimmtíu kirkjur á ferð sinni um Ísland.

Svo fór ég í mat með pabba mínum og mömmu. Pabbi var íslenskur en mamma er af skoskum og írskum uppruna. Hún spurði mig hvað væri í gangi með þetta Sunnu-nafn. Ég var ekki viss um hvernig þau myndu taka þessu og vildi fara varlega og sagði: „Þetta er bara gælunafn. Allir á Íslandi fá gælunafn og vinir mínir kalla mig þessu nafni.“ Pabbi sat hins vegar með tvíræðan svip á andlitinu. Hann hafði ráðið nafninu mínu í upphafi og ég var skírð í höfuðið á systur hans. Ég sneri mér því að honum og spurði: „Hvers vegna glottir þú?“ „Ég vildi skíra þig þessu nafni,“ svaraði hann. „Það tók bara fimmtíu ár að þú fengir rétta nafnið.“ Þá greip mamma fram í og sagði: „Við vildum ekki gefa henni þetta nafn vegna þess að þú áttir í sambandi við konu með þessu nafni.““

Becky og Sunna með Bryndísi Víglundsdóttur en Bryndís heldur reglulega fyrirlestra á Icelandic Roots.

Ræturnar liggja um allan heim

Rétta nafnið rataði til Sunnu eftir krókaleiðum en hefur fests við hana síðan. Við ætluðum hins vegar að skoða þær margvíslegu og sterku rætur sem vefsíðan Icelandic Roots hefur skotið víða um heim. Sunna er, eins og áður segir stofnandi samtakanna, og hefur í mörg ár gefið alla sína vinnu rétt eins og aðrir félagar. Hér kemur fólk saman af áhuga og ástríðu og peningar sem koma inn gegnum áskrift að ættfræðivefnum eru notaðir til góðra málefna meðal annars námstyrkja, styrkja til ættfræðirannsókna og fræðslu.

„Markmið okkar er fræðsla,“ segir Sunna. „Opinber stofndagur Icelandic Roots er 12. nóvember 2013 en við höfðum starfað í áratugi fyrir það. En þennan dag urðum við til sem góðgerðafélag. Fjöldi fólks hafði hins vegar lagt sitt að mörkum í mörg ár við að tengja fólk við ættingja sína, leita upplýsinga og fræða. Ég fékk ótal fyrirspurnir í gegnum tölvupósta frá fólki sem bað mig að hjálpa sér við að finna eitthvað um fjölskyldur þeirra. Ég var ekki sú eina, George vinur minn og Nelson fengu álíka oft sambærileg bréf. Viðkomandi hafði þá kannski leitað víða að upplýsingum um uppruna sínum. Iðulega komumst við hins vegar að því að við vorum öll að vinna að því sama og viðkomandi hafði þegar fengið þær upplýsingar sem ég hafði kannski legið yfir klukkustundum saman að grafa upp. Með því að skapa þennan vettvang fengum við tækifæri til að vinna öll saman og hafa yfirsýn yfir verk hinna. Nú vinna á vettvangi Icelandic Roots fjörutíu ættfræðingar, fjöldi tæknimanna, sagnfræðingar og fjöldi annarra einstaklinga með frjóan huga og fúsar hendur.  Hver og einn kemur með sína hæfileika að borðinu.

Og nú geta notendur gagnagrunnsins séð, ekki bara nöfn forfeðra sinna, heldur einnig nafn skipsins sem þeir ferðuðust með yfir hafið, farþegalista þess skips, hvaðan það lagði upp og í hvaða höfnum það stoppaði. Líka hversu margir frá sama bæ fluttust til Vesturheims og hvernig þeir eru skyldir þeim sem er að leita og víða er að finna skrásettar sögur úr dagbókum, frásögnum í bókum eftir afkomendum þessa fólks af ferðum þeirra og hvernig þeim vegnaði í nýja landinu.“

Sunna hitti forseta Íslands Höllu Tómasdóttur í ferðinni.

Ertu skyld/ur Agli Skalla-Grímssyni?

Á vefnum er einnig hægt að nálgast Íslendingasögurnar á ensku og íslensku. „Hægt er að klikka á linkinn fyrir Egil Skalla-Grímsson, lesa söguna og finna út hvort maður er kominn af Agli,“ segir Sunna. „Þar er einnig að finna kort yfir staðina þar sem hann bjó og fleira og fleira. Við erum farin að bjóða upp á barnaefni líka og myndum gjarnan vilja víkka það út enn frekar en stærsti hlutinn er efni fyrir fullorðna. En gagngrunnurinn vex og vex á ótrúlegum hraða og ég veit ekki um sambærilegan gagnagrunn. Fólkið í þessum grunni er um allt, í Kanada, Bandaríkjunum, Japan, Danmörku, Ástralíu í raun bara hvar sem Íslendingar hafa komið sér fyrir og vilja finna rætur sínar. Til dæmis hafði koma frá Englandi samband við okkur en (hennar) forfeður hennar fóru frá Íslandi árið 1830. Við höfum aðgang að manntölum frá nítjándu öld og getum teygt okkur aftur í átjándu öldina ef þörf er á. Við gátum aðstoðað þessa konu! En frá manntalinu 1801 og fram til 1920 höfum við allar upplýsingar um þá sem fóru frá Íslandi.

Í upphafi keyptum við gögn frá Espólín en Friðrik Skúlason var snillingurinn þar að baki. Í þeim grunni var að finna hálfa milljón manna en engin skjöl, engar aukaupplýsingar, engar myndir. Þetta er sami grunnur og var notaður til að byggja upp Íslendingabók. Síðan þá höfum við bætt við ótölulegum fjölda gagna og upplýsinga og Icelandic Roots og Íslendingabók eru mjög ólíkir vefir. Að baki standa ótrúlega nákvæmar og vandaðar rannsóknir þeirra fræðimanna sem vinna með okkur. Við tryggjum mjög vel allar okkar upplýsingar með hjálp tæknisnillinga.“

Með Lýð Pálssyni á Eyrarbakka en þaðan lögðu forfeður Becky upp í för sína yfir hafið til Vesturheims.

Fræðslutímarit, bókaklúbbar og fyrirlestrar

Becky á hinn bóginn ritstýrir fréttablaði Icelandic Roots en það kemur út á tveggja vikna fresti. Þar er að finna viðtöl, sögur og menningarefni.

„Í hverju tölublaði eru fjórar greinar unnar af einhverjum af höfundum okkar,“ segir hún. „Þeir eru allir rithöfundar eða hafa fengið útgefnar bækur. Í allt eru um það bil níu manns sem skrifa fyrir okkur. Mánaðarlega er grein um áhugaverðan Íslending eða áhugaverðan Vestur-Íslending. Þá er tekið viðtal eða skrifað um merka manneskju. Við skrifum sögur þeirra sem fluttu út, hvernig ferðin gekk og hvernig þeim gekk að aðlagast nýjum aðstæðum. Mánaðarlega er svo fjallað um einhvern eða eitthvað úr gagnagrunninum.

Auk þess erum við með bókaklúbb og tölum saman um bækur sem við lesum eftir íslenska höfunda eða um Ísland. Af og til koma þar á zoom-fundi íslenskir rithöfundar og lesa úr bókum sínum og spjalla við okkur um þær. Við fáum einnig reglulega fyrirlesara í heimsókn. Þeir tala um allt frá íslenskum hestum að íslenskum mat. Svo eru frjálsar umræður í lokin. Við auglýsum á samfélagsmiðlum viðburði og inni á vefnum. Einu sinni á ári förum við í átak til að safna fé. Meðal annars höfum við útbúið vefpóstkort sem fólk getur keypt sér aðgang að á ferðum sínum um landið. Þar er að finna margskonar upplýsingar um staðinn til að mynda ef fólk er statt rétt hjá Borg er talað um Egils-sögu og ef menn eru nálægt Egilsstöðum er stungið upp á áhugaverðum stöðum að heimsækja í nágrenni bæjarins.

Með þessu móti tekst okkur að fræða fólk stöðugt meira um Ísland. Við höldum líka úti hlaðvarpi. Um það sér ungur maður og gerir það mjög vel. Við höfum einnig ha)ldið ritlistarnámskeið, fengið sögumenn til að kenna okkur frásagnartækni og sagnfræðinga til að fjalla um landnám norrænna manna í Ameríku á söguöld. Við reynum að fræða fólk á eins margbreytilegan hátt og við getum.“

Bækur og prjónanámskeið

Það er stöðug vinna í gangi við að viðhalda, endurnýja og betrumbæta vefinn og gera hlutina aðgengilegri fyrir félagana. Meðal annars má nefna bókaútgáfu. Becky sendi frá sér bókina Stories, Sagas and Captivating Tales, The First Decade of Icelandic Roots. Þar er að finna safn greina um sögur Vesturfara, þeirra sem settust að í Kanada, Bandaríkjunum og Brasilíu. En einnig greinar um Íslendingasögur, réttir, Vínartertuna og fleira og fleira sem allir sem áhuga hafa á Íslandi þurfa og langar að vita. Sunna einbeitti sér hins vegar að frumbýlingsárunum og skrifar um The Icelandic Emigration Journey, From Turfhouses to Prairie Homesteads. Bryndís Víglundsdóttir er meðal fyrirlesara á Icelandic Roots og hefur meðal annars talað til barnanna. Á vegum Icelandic Roots hafa komið út þrjár barnabækur eftir hana, Guðríður‘s Saga, um Guðríði Þorbjarnardóttur, Mundi Boy of Icelandic Westfjords sem byggir á æskuminningum manns höfundar og Thor þar sem Bryndís leitast við að sýna norræna goðið í réttu ljósi en ekki þeirri brengluðu mynd sem Marvel bregður upp.

Þær Sunna og Becky eru nýkomnar úr ferð í kringum landið þar sem þær heimsóttu vini og kunningja. Þær hafa báðar komið hingað margoft áður og í fyrra komu þær við í nokkrum þeirra bæja þaðan sem Vesturfaraskipin lögðu upp í ferðina út og færðu bæjarstjórnum minningarskjöld um þann viðburð og 500 dollara sem þær geta notað til að búa skildinum fallega umgjörð á einhverjum stað í bænum. Til stendur að fara aðra slíka ferð á næsta ári.

„Við erum alltaf að reyna að tengja fólk,“ segir Becky. „Um daginn rákumst við á konu sem hefur mjög gaman af að prjóna og hana langar að vera með svo kannski bjóðum við upp á prjónanámskeið í vetur.“

Á Djúpavogi hitti Becky óvænt frænku sína.

Á náskylda ættingja hér

Sunna býr í Norður-Dakóta en Becky rétt hjá Seattle. Sunna er skurðhjúkrunarfræðingur og Becky stærðfræðikennari. Þær eru virtir og velmetnir borgarar í sínum samfélögum en aðaláhugamálið gengur út á að hjálpa fólki að kynnast forferðum sínum, rótunum. Hafið þið einhverja skýringu á þessari þörf manneskjunnar að þekkja uppruna sinn?

„Fjölskyldurnar sem fluttu út reyndu að halda tengslunum við gamla landið og við erum mjög stoltar af íslenskum rótum okkar,“ segir Sunna. „Amma mín fæddist hér á landi og ég heyrði margar sögur héðan. Í Bandaríkjunum þrífast margskonar samfélög og menningarheimar. Mér finnst gott að geta sagt, ég er íslensk og finna að mörgum þykir mikið til þess koma.“

„Í síðustu viku fórum við til Siglufjarðar og mig langaði að koma við í kirkjugarðinum því ég vissi að ég ætti forfeður sem höfðu verið grafnir þar,“ segir Becky. „Við gengum framhjá húsi og ég sá listaverk þar fyrir utan, styttu af trölli. Mig langaði að skoða þetta nánar því ég hafði séð svipað í Seattle þar sem ég bý en þegar við komum nær kemur kona út úr húsinu og við förum að spjalla. Hún setur nafnið mitt inn í Íslendingabók og í ljós kemur að við erum fjórmenningar. Hið sama gerðist í fyrra í Hrísey. Á leið til baka með ferjunni rakst ég á mann og við reyndumst þremenningar. Ég á sem sagt skyldmenni hér sem alls ekki eru fjarskyld heldur í raun mjög nærri mér.“

Á Borðeyri við einn minningarskjaldanna um skipin sem lögðu upp með væntanlega Vestur-Íslendinga innan borðs.

Fólkið í Vesturheimi gleymt og grafið

Becky og Sunna tala einnig um að það sé áhugavert að skoða eðliseinkenni, útlit og annað sem hefur erfst. Sunna hefur flutt fyrirlestra um hvernig má lækna áföll sem erfast milli kynslóða.

„Ég talaði um hvernig farið var með marga Íslendinga sem fóru til Vesturheims,“ segir hún. „Þeim var sagt að þeir væru veiklundaðir, latir og svikarar við föðurlandið. Þeir fóru margir nauðugir. Þeir urðu hreinlega að fara vegna þess að þeir sultu heilu hungri og áttu erfitt með að slíta sig frá fjölskyldum sínum. Hér var fátækt mikil og engin tækifæri að hafa. Í mörgum tilfellum slitu fjölskyldurnar algjörlega tengslin við þá. Ég á ættingja sem vildu ekki tengjast mér þegar ég setti mig fyrst í samband við þá vegna þess að þeir héldu að enginn þeirra sem fór vestur hefði lifað af. Ég hef heyrt sömu sögu frá mörgum Vestur-Íslendingum. Langafi minn lifði þar til ég var tuttugu og tveggja ára og hann talaði óskaplega fallega um fegurð Skagafjarðar og gamla landsins.“

Sunna bendir á að vissulega hafi menn verið misjafnlega illa staddir efnahagslega en fæstir fóru eingöngu vegna ævintýraþrár. Icelandic Roots er þess vegna mikilvægur hlekkur í keðjunni milli gamla landsins og hins nýja heims. Þeir sem hafa áhuga á aðkynna sér frekar þetta áhugaverða og lifandi samfélag á netinu geta farið inn á síðuna: https://www.icelandicroots.com/

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn september 13, 2024 07:00