Ástandið í Úkraínu, en þar hefur stríðsástand varað í austurhluta landsins meira og minna síðan árið 2014, bitnar verst á eldri borgurum, sérstaklega eldri konum og hreyfihömluðum. Þetta er meðal niðurstaðna skýrslu sem unnin var fyrir Sameinðu þjóðirnar nýlega.
Árið 2014 hernámu Rússar Krímskaga, sem tilheyrði Úkraínu, og Moskvuhollir aðskilnaðarsinnar í Austur-Úkraínu (á Donbas-svæðinu svonefnda, í héruðunum Donetsk og Luhansk) hófu um svipað leyti uppreisn gegn úkraínska stjórnarhernum sem stendur enn. Alls eru um fjórtán þúsund manns taldir hafa fallið í þeim borgarastríðsátökum. Samkvæmt umræddri skýrslu SÞ er hátt í þriðjungur þess fólks sem sem orðið hefur fyrir mestum búsifjum af völdum átakanna í Austur-Úkraínu eldri borgarar. Margir hafa hrakist af heimilum sínum á yfirrráðasvæði aðskilnaðarsinna og ekki síst á mörkum yfirráðasvæða uppreisnarmanna og stjórnarhersins, en eins og gefur að skilja hefur verið mest um vopnuð átök á því svæði.
Um þrjár og hálf milljón manna á átakasvæðinu eru taldir vera eða hafa verið hjápar þurfi, þar af kvað í kring um ein milljón vera eldri borgarar.
Sjálfboðaliðar aðstoða
HelpAge International eru alþjóðleg regnhlífarsamtök félagasamtaka sem helga sig því markmiði að tryggja sem best virðingu, afkomu og öryggi eldri borgara út um allan heim. Yfirlýst stefnumarkandi sýn samtakanna er
heimur þar sem allt eldra fólk getur notið virðingar, heilsu og öruggs lífs.
Sérstakt markmið með starfseminni er að vinna að betri þátttöku eldra fólks í sínum samfélögum og að draga úr fátækt og mismunun. Að þessu er unnið ekki síst með því að sjálfboðaliðar aðildarfélaganna vinna með eldra fólki í fátækum og millitekjuríkjum að því að bæta þjónustu og stefnumótun stjórnvalda í málefnum aldraðra, og að því að breyta viðhorfum og hegðun aðila sem mest standa framförum á þessu sviði fyrir þrifum.
HelpAge International hafa sinnt mannúðarstarfi í Úkraínu síðan árið 2015 og komið upp 20 starfsstöðvum meðfram átakalínunni á milli hinna stríðandi aðila. Dæmi um starfsemina er að reka fjöldahjálparstöðvar fyrir eldra fólk í hrakningum og á flótta, og veita ráðgjöf og samhæfingu aðgerða hinna ýmsu hópa sjálfboðaliða, félagasamtaka og stofnana til að reyna að stuðla að því að aldraðir einstaklingar í hópi fórnarlamba átakanna geti fengið aðgang að þeirri þjónustu og aðstoð sem þeir þurfa mest á að halda, þar með talið áfallahjálp.
Gleymda fólkið?
Meðal lærdóma af þessari reynslu sem samtökin hafa dregið er að:
Eldra fólk sem býr á átakasvæðunum í Austur-Úkraínu á margt erfitt með að flýja átökin, oft með þeim afleiðingum að það verður viðskila við yngri ættingja sína þegar þeir halda á flótta. Þar með stóreykst hætta á að eldri einstaklingar einangrist og verði útundan, jafnvel hreinlega gleymist. Samkvæmt könnun sem gerð var á vegum samtakanna á vettvangi í Úkraínu árið 2018 sögðust 96 prósent aðspurðra fundið fyrir geðheilbrigðisvandamálum af völdum átakanna. Í könnuninni tók þátt alls 4.595 manns yfir sextugu, sem bjuggu innan við 5 km frá línunni sem skildi stríðandi fylkingar að. Þá sögðust nær allir hafa upplifað skort; mjög margir voru ófærir um að nálgast ellilífeyrinn sinn, sem reyndar er svo lágur að vandséð er hvernig fólk sér sér fært að draga fram lífið á honum jafnvel á mestu friðartímum. Fólkið upplifði líka mjög mikil vandkvæði á því að nálgast hvers konar heilbrigðisþjónustu. Að ekki sé talað um aðgengi að sérþjónustu við fatlaða eða hjálpartæki eins og göngugrindur og því um líkt.
„Við erum oft matarlaus dögum saman. Við eyðum nær öllu sem við höfum í lyf og slíkt. Við eigum ekki fyrir nauðsynjum,“ var haft eftir einni gamalli konu sem svaraði könnuninni. Önnur rifjaði upp hvernig fyrir sér var komið þegar hún var allt í einu lent inni á átakasvæðinu: „Ég lá bara fyrir, ég gat ekki annað. Það voru engin lyf, engir læknar, enginn ellilífeyrir, enginn matur. Þetta var hryllingur. Hvernig fórum við að því að lifa þetta af? Ég svei mér veit það ekki.“
Innrás myndi margfalda þjáningar
Undanfarna daga hefur mikill rússneskur herafli verið með heræfingar rétt við landamæri Úkraínu. Miklar vangaveltur hafa verið um það í heimspressunni upp á síðkastið að innrás rússneska hersins í Úkraínu væri yfirvofandi. Víst er að ef af henni skyldi verða myndu þjáningar úkraínsks almennings, ekki síst eldri borgara eins og kvennanna tveggja sem vitnað er til hér að framan, aukast um allan helming.
Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.