Áttræður kjörinn í bæjarstjórn Akureyrar

Elzti frambjóðandinn sem náði kjöri í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum er Brynjólfur Ingvarsson, geðlæknir á Akureyri, en hann er áttræður. „Gömlu brýnin“ Guðmundur Árni Stefánsson í Hafnarfirði og Helga Jónsdóttir í „Vinum Kópavogs“ eru unglömb í samanburði, en þau eru 66 og 69 ára. Þess má geta að yngsti frambjóðandinn sem náði kjöri er framsóknarkonan Magnea Gná Jóhannsdóttir, en hún tekur sæti í borgarstjórn Reykjavíkur 25 ára að aldri.

Brynjólfur leiddi framboðslista Flokks fólksins á Akureyri í kosningunum, þótt hann segist í samtali við Lifðu núna reyndar ekki hafa sótzt eftir því forystuhlutverki. Án mikillar kosningabaráttu hlaut listinn 12,2 prósent atkvæða og einn fulltrúa af ellefu í bæjarstjórn.

Spurður hvernig það leggist í hann að verja næstu fjórum árum í bæjarstjórn svarar hann: „Það leggst alls ekki illa í mig að berjast fyrir góðum málstað.“ Hagsmunamál eldri borgara verði vitaskuld mikið áherzlumál hjá sér í þessu hlutverki. Hann sé svo lánsamur að njóta góðrar heilsu og starfsorku, þrátt fyrir aldurinn. En hann tekur fram að hann sé náttúrulega ekki einn í þessu. Flokksfélagar hans – sérstaklega þau sem skipuðu 2. til 5. sætið á framboðslista Flokks fólksins á Akureyri – standi dyggilega að baki honum.

Áherzla á húsnæðismál aldraðra

En hver verða helztu baráttumálin, þegar á hólminn er komið? Brynjólfur nefnir fyrst húsnæðismál aldraðra; hann muni þrýsta á um að bærinn geri það sem í hans valdi standi til að áform gangi eftir um byggingu nýrra fjölbýlishúsakjarna með þjónustu við aldraða og aðstöðu til félagsstarfs. Á nýliðnu kjörtímabili átti Félag eldri borgara á Akureyri aðild að viðræðum við bæjaryfirvöld um byggingu slíkra fjölbýlishúsa, en þær viðræður hafi ekki verið kláraðar.

Auk málefna aldraðra segist Brynjólfur gera sér grein fyrir því að skipulagsmál séu endalaust viðfangsefni bæjarstjórnar. Flokkur fólksins vilji líka að öllum börnum bjóðist pláss á leikskóla óháð efnahag.

Brynjólfur var að lokum spurður hverju hann vildi annars koma á framfæri, og það stóð ekki á svari:

„Fyrst og fremst þakklæti til kjósenda. Við ætlum okkur svo sannarlega að reyna okkar bezta til að rísa undir því trausti sem þeir sýndu okkur í kosningunum,“ segir Brynjólfur, aldursforsetinn í hópi þeirra tæplega 500 fulltrúa sem kosnir voru um helgina til setu í alls 64 sveitarstjórnum landsins.

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar 

Ritstjórn maí 17, 2022 07:00