Þóra Hrönn Njálsdóttir og Sigurjón Pétursson eru hjón sem sannarlega lifa í anda Lifðu núna. Þau ákváðu strax um sextugt að minnka við sig vinnu og nýta tímann frekar til að gera það sem þeim þykir skemmtilegast: Að ferðast og taka ljósmyndir.
Sigurjón stjórnaði fyrirtækjum sem framkvæmdastjóri og forstjóri í áratugi, en hætti því árið 2010. Hann hefur verið áhugaljósmyndari síðan á unglingsárum nánast, en hann átti ekki langt að sækja þann áhuga þar sem faðir hans var með umboðið fyrir Nikon-myndavélar og ljósmyndavörur á Íslandi.
Metnaður í ljósmyndun
Þóra Hrönn segist hafa fengið sína fyrstu myndavél í morgungjöf eftir brúðkaup þeirra hjóna árið 1972. En hún hafi þó ekki hellt sér af alvöru út í ljósmyndun sjálf fyrr en fyrir rúmum áratug; Sigurjón hafi séð um fjölskylduljósmyndunina.
Hann staðfestir það; á sínum ferli sem ljósmyndari hafi hann fyrst tekið aðallega „fótógrafískar“ myndir eins og hann kallar það. Eftir að þau hjónin stofnuðu fjölskyldu beindist linsan mest að börnunum og fjölskyldulífinu, allt þar til þau voru flogin úr hreiðrinu áratugum síðar. Þá hafi hann aftur tekið til við að leggja meiri metnað í ljósmyndunina, enda fóru þau fljótlega eftir að hann hætti að stýra fyrirtækjum að reka ferðaþjónustufyrirtæki með ferðir fyrir erlenda áhugaljósmyndara um Ísland.
Hann fór í Leiðsöguskólann veturinn 2013-2014 – en reyndar hafði hann líka sótt þann skóla fyrsta árið sem hann var starfræktur árið 1974. Bæði Sigurjón og Þóra Hrönn halda úti sinni hvorri ljósmyndarasíðunni á vefnum: https://www.sigurjonpetursson.com/ og https://www.thorahronn.com/, en Þóra Hrönn birtir líka oft myndir á Instagram.
Sú samfélagsmiðlasíða sem þau hjónin halda úti og kannski endurspeglar best ástríðu þeirra fyrir hvoru tveggja, ferðalögum og ljósmyndun, er Facebook-síðan Icelandacrossamerica. Þau byrjuðu með hana þegar þau héldu í fyrstu löngu hjólreiðaferðina um Bandaríkin. Þá hjóluðu þau frá Flórída til Kaliforníu, og héldu eins konar dagbók um ferðalagið á meðan.
Ferðalög af öllu tagi
En þar með erum við komin að hinni ástríðunni: ferðalögum. Sigurjón og Þóra Hrönn láta sér ekki nægja að ferðast bara með flugi, bíl og lest eins og flest fólk, sérstaklega á þeirra aldri, gerir. Þau hafa hjólað mörg þúsund kílómetra á reiðhjólunum sínum, aðallega um Ísland og Bandaríkin.
„Þetta byrjaði með því að ég gaf Sigurjóni reiðhjól í sextugsafmælisgjöf,“ segir Þóra Hrönn. Í kjölfarið hafi þau hjólað af stað, fyrst austur fyrir fjall. Og svo lengra. Og lengra, allt austur til Egilsstaða og þegar þangað var komið norður um land og heim til Hafnarfjarðar. Eftir þennan fyrsta hring um landið hafa þau hjólað heila þrjá í viðbót, ýmist réttsælis eða rangsælis.
Árið 2011 fóru þau í fyrsta langa hjólatúrinn vestanhafs og hjóluðu, eins og að framan er nefnt, þvert yfir sunnanverð Bandaríkin frá Flórída til Kyrrahafsstrandar Kaliforníu. Síðan hafa þau hjólað eftir allri Kyrrahafsströndinni, frá Vancouver til Mexíkó. Og eftir austurströndinni frá Flórída til New York. Og frá Chicago til New York. „Nú eigum við bara eftir að hjóla milli Chicago og Vancouver til að loka hringnum í kringum öll Bandaríkin,“ segir Þóra Hrönn.
En ævintýramennskan í ferðalögum erlendis takmarkast sannarlega ekki við reiðhjólaferðir um Bandaríkin. Árið 2016 ferðuðust þau hjónin, í félagi við dóttur sína og tengdason, hvert á sínu mótorhjólinu eftir endilöngu Víetnam, frá Hanoi í norðri til Saigon (Ho Chi Minh-borgar) í suðri, vel yfir 2.000 kílómetra leið á mjög misgóðum vegum. Á ýmsu gekk á því ferðalagi, eins og nærri má geta. En alla leið komust þau. Þóra Hrönn hafði aldrei áður á mótorhjól setzt þegar lagt var í‘ann. Geri aðrir betur!
Ferðaævintýri þeirra hjóna takmarkast heldur ekki við sumartímann. Nú í vikunni voru þau t.d. að koma úr vikuferð á húsbíl, sem fyrst stóð til að myndi liggja um Snæfellsnes, en vegna veðurs breyttu þau um plan og fóru um Suðurströndina. Þau víla með öðrum orðum ekki fyrir sér að gista í húsbíl í frosti og snjó. Og hafa reyndar oft gist í tjaldi á Íslandi á ýmsum árstímum á ljósmyndunarferðum sínum. Ævintýraþráin hefur líka skilað þeim til hinna ýmsu heimshorna, í skútusiglingu til Grænlands, vélsleðaferð um Alaska, og þannig mætti lengi telja.
Trúnaðarstörf fyrir félagasamtök
Síðan kórónaveirufaraldurinn skall á fyrir hartnær tveimur árum hafa þau vitanlega lítið ferðast út fyrir landsteinana. Í fyrstu slíku ferðina komust þau í nóvember sl., en hún lá á heimsmeistaramót í kraftlyftingum sem þá fór fram í Stafangri í Noregi! Ástæðan er sú að Sigurjón hefur verið varaforseti Alþjóða kraftlyftingasambandsins síðan árið 2015. Sigurjón útskýrir, að þótt þau hjónin séu almennt frekar „prívat“ fólk, þá hafi þau bæði verið virk í ýmsum félagsstörfum í gegnum tíðina.
Sigurjón segir frá því að hann, sem aldrei hefur stundað kraftlyftingar sjálfur, sé í forsvari fyrir heimssamband kraftlyftingamanna, sem sé þannig til komið að hann hafi á sínum tíma æft líkamsrækt í Gym 80, þar sem margir kraftlyftingamenn æfðu. Árið 2009 hafi Hjalti Úrsus Árnason og fleiri þáverandi forsvarsmenn íslenskra kraftlyfingamanna beðið Sigurjón að liðsinna sér við að binda enda á klofning sem þá hafði gætt um hríð í herbúðum kraftlyftingamanna. Þeir leituðu til hans vegna farsællar reynslu hans af setu í stjórn HSÍ á tímabilinu 1997 til 2009. Úr varð að Sigurjón hjálpaði til við að stofnað var nýtt landssamband kraftlyftingamanna innan ÍSÍ (og lyfjaeftirlits þess). Og var fljótlega eftir það líka beðinn að gegna trúnaðarstörfum fyrir Alþjóðasamband kraftlyftingamanna – 2012 sem formaður aganefndar, svo 2014 sem formaður lyfjanefndar, og loks síðan 2015 sem varaforseti sambandsins.
Þar fyrir utan hefur Sigurjón verið í forsvari fyrir félög eins og Félag viðskipta- og hagfræðinga, Skýrslutæknifélag Íslands og Landssamband íslenskra vélsleðamanna.
Þóra Hrönn var um árabil formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, en þegar hún var 35 ára, rétt eftir fæðingu yngsta barnsins Báru, fékk hún eitlakrabbamein. Hún sat líka um tíma í stjórn Krabbameinsfélags Íslands. Þau hjónin voru líka á sínum tíma mjög virk í fjáröflun fyrir endurnýjun Hafnarfjarðarkirkju en Sigurjón gegndi formennsku í sóknarnefnd í 17 ár.
Fluttu nýlega nær afkomendunum
Hjónin bjuggu lengi í Hafnarfirði, en fluttu nýlega í nýtt fjölbýli í Reykjavík. Þar í nágrenninu búa öll börnin þeirra þrjú og barnabörn, sem nú eru einnig þrjú talsins.
Þóra Hrönn er reyndar ekki alveg hætt að vinna, þótt þreföld amma sé. „Mér finnst æðislegt að vinna,“ segir hún. Hún hafi þó hætt í fastri vinnu fyrir allnokkru. Hún selji og kynni snyrtivörur, en sé núna bara „kölluð til þegar eitthvað er,“ eins og hún orðar það. Þetta gefi henni frelsi til að fara t.d. í ferðalög, sem stundum hafa staðið í allt að tvo mánuði.
Auk þess að vinna hefur Þóra Hrönn líka sótt sér meiri menntun. Tók nýlega jógakennarpróf til dæmis. Sigurjón tók leiðsögumannapróf fyrir nokkrum árum, eins og áður er nefnt. „Ef þig langar til að læra eitthvað, kýldu þá á það,“ segir Þóra Hrönn. „Lífaldurinn skiptir þar engu máli, bara áhuginn.“ Þessu til vitnis rifjar hún upp að afi sinn, Magnús Jochumsson, hafi þegar hann var 84 ára setzt aftur á skólabekk til að læra finnsku í Háskóla Íslands. Það hafi hann gert til að geta þýtt finnsku skáldsöguna Manillareipið eftir Veijo Meri, en hún kom út í þýðingu hans og Stefáns Más Ingólfssonar árið 1973.
Sigurjón segir þau lifa eftir þessu mottói: „Ef þú ert ekki að lesa og læra þá ertu ekki að þróast!“
Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.