Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hafa styrkt verkefnið Bjartur lífsstíll um 30 milljónir króna. Bjartur lífsstíll er samstarfsverkefni Landsambands eldri borgara (LEB) og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Markmiðið er að auka lífsgæði eldra fólks um land allt í gegnum markvissa hreyfingu og auka líkur á að fólk geti búið lengur í heimahúsum.
Verkefnið hófst með stuðningi úr félags- og barnamálaráðuneytinu haustið 2021 og var nafn verkefnisins valið með það að leiðarljósi að hreyfing verði að lífsstíl hjá eldra fólki. Áhersla hefur verið á að vinna í gegnum tengslanet félaga eldri borgara og íþróttahreyfinguna um allt land. Jafnframt hefur verið lögð áhersla á samstarf við íþróttafélög, líkamsræktarstöðvar, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Ætlunin er sú að tryggja að eldra fólki gefist alltaf kostur á hreyfingu í sínu nærumhverfi og hafa margir nú þegar nýtt sér handbækur og verkfærakistu Bjarts lífsstíls. Á vef Bjarts lífsstíls má einnig finna yfirlit yfir alla þá hreyfingu sem er í boði um land allt fyrir eldra fólk.
Ásgerður Guðmundsdóttir, sjúkraþjálfari og íþróttakennari, og Margrét Regína Grétarsdóttir, íþróttafræðingur, eru verkefnastjórar Bjarts lífsstíls. Ásgerður starfar fyrir hönd LEB og Margrét fyrir hönd ÍSÍ.
Heilsuefling eldra fólks
Fyrr á árinu fór fram ráðstefna um hreyfiúrræði fyrir 60+ undir merkjum Bjarts lífsstíls. Markmið hennar var að búa til vettvang fyrir þjálfara, skipuleggjendur og annað starfsfólk sem kemur að heilsueflingu fólks 60 ára og eldri.
Á næsta ári verður meðal annars lögð áhersla á samstarf við verkefnastjórn Gott að eldast sem er aðgerðaáætlun stjórnvalda í málefnum eldra fólks. Ein af aðgerðunum í áætluninni snýr einmitt að alhliða heilsueflingu eldra fólks.
Verkefnastjórar munu einnig vera í sambandi við þá staði sem heimsóttir voru árið 2023 og styðja þá við að taka næstu skref við að efla heilsulæsi og þjálfun eldra fólks. Áhersla verður meðal annars lögð á þau svæði sem ekki bjóða upp á skipulagða hreyfingu fyrir eldra fólk og að veita enn frekari aðstoð þeim byggðakjörnum sem komið hafa á laggirnar nýjum hreyfiúrræðum.
Þá verður áhersla lögð á að skoða fjölbreyttari leiðir til að nálgast þá hópa sem hafa ekki fundið sig í þeim úrræðum sem í boði eru.