Tengdar greinar

Spínat- og kúrbítsbaka í sumarhitanum

Sumarlega böku er sérlega skemmtilegt að bera fram þegar gesti ber að garði á fallegu sumarkvöldi. Bökudeigið er óvenjulegt en það er með rjómaosti og botninn er bakaður fyrirfram. Mjög þægilegt að eiga slíkan botn og skella fyllingunni í rétt áður en bera á bökuna fram.

Spínat- og kúrbítsbaka

1 meðalstór kúrbítur

15 sm bútur af blaðlauk

2 msk. ólífuolía

300 g spínat

1 tsk. ferskt tímían

1 tsk. ferskt rósmarín

1 egg

2 eggjarauður

1 dós (200 g) sýrður rjómi

Skerið kúrbítinn í sneiðar. Saxið blaðlaukinn og látið hann krauma í olíunni i nokkrar mínútur. Bætið kúrbítnum á pönnuna og síðan spínatinu. Látið þetta krauma saman í 2-3 mínútur. Takið blönduna af hitanum og bætið kryddjurtunum, salti og pipar saman við. Dreifið blöndunni jafn í bökuskelina. Þeytið saman eggi og eggjarauðum og sýrðum rjóma. Kryddið með salti og pipar og hellið yfir spínatblönduna. Bakið í um 25 mínútur eða þar til bakan hefur tekið á sig fallegan gylltan lit og eggjablandan hefur stífnað.

Sósa:

200 g sýrður rjómi

1 msk. sojasósa

1 tsk. hnetusmjör

1 hvítlauksrif, marið

Blandið öllu saman og berið fram með bökunni.

 

Bökudeig:

250 g hveiti

50 g smjör, kalt

100 g rjómaostur

1 lítið egg

svolítið salt

kalt vatn eftir þörfum

Hveiti, salt og smjör sett í matvinnsluvél. Vélin látin ganga þar til deigið er eins og fíngerð mylsna. Þá er egginu hrært saman við og síðan köldu vatni smátt og smátt þar til hægt er að hnoða deigið slétt og sprungulaust. Kælið deigið í 30 mín. í ísskáp áður en það er flatt út og látið í bökuform 24 – 27 sm í þvermál, bæði botn og hliðar og snyrtið barma. Pikkið göt í botninn til að hann lyfti sér síður. Hitið ofninn í 200°C og bakið í 15 mínútur. Þá er óhætt að setja fyllingu í hann eða geyma þar til síðar.

 

Ritstjórn júní 26, 2020 09:14