„Þegar við vorum að byrja, var bara ein og ein bálför“, segir Ólöf Helgadóttir hjá Frímanni og Hálfdáni – Útfararþjónustu. Þau hjónin, hún og Hálfdán Hálfdánarson útfararstjóri, hófu rekstur útfararstofunnar árið 1997. Ólöf segir þægilegt fyrir aðstandendur að vita hvort ástvinur vill láta brenna sig eða jarða á hefðbundinn hátt. En í sumum fjölskyldum sé þetta ekki rætt.
Léttara yfir jarðarförum en var
Meðal þess sem hefur breyst á þeim tíma sem þau Ólöf og Hálfdán hafa starfað, er að sálmabækur eru til að mynda ekki oft settar í líkkistuna hjá fólki, en áður var það algengt. Hún segir líka að það sé léttara yfir jarðarförum en áður var. Það séu leikin dægurlög og slegið á létta strengi í líkræðum. En slíkt gerðist ekki hér á árum áður.
Bálfarir jukust á þessu ári
En aðalbreytingin er líklega sú, að fleiri og fleiri biðja um að láta brenna sig. Á höfuðborgarsvæðinu eru það að verða næstum tveir þriðju sem láta brenna sig, en um þriðjungur velur hefðbundna jarðsetningu. Hálfdán segir að bara á þessu ári, hafi bálfarir aukist verulega, þær hafi verið 670 fyrstu átta mánuði ársins, en á sama tíma í fyrra voru þær 501. Hann segir að bálfarir væru trúlega fleiri ef þær stæðu fólki um allt land til boða. En það er einungis einn brennsluofn á landinu og hann er í Fossvogi. „Ef ofnar væru víðar myndi þetta vera meira á landsvísu“, segir hann.
Kistan er eldsmaturinn
En hver skyldi vera ástæða þess að fólk lætur brenna sig? „Þetta tekur minna pláss og þykir hreinlegra“ segir Frímann Andrésson útfararstjóri og samstarfsmaður þeirra hjóna. „Eftir eitt sumar, sem sumarstarfsmaður í Kirkjugörðunum var ég ákveðinn í að láta brenna mig“, bætir hann við. Enda þótt fólk láti ekki jarðsetja sig í kistu, eru kistur notaðar við bálfarir. „Þær eru eldsmaturinn og verða að brenna. Oft nota menn ódýrustu kisturnar og hér áður voru sérstakar bálfararkistur. Nú er hins vegar búið að setja ákveðna staðla og það má brenna allar líkkistur sem við erum með“, segir Frímann.
Öskunni dreift yfir sjó og land
Þegar búið er að brenna lík hins látna er það sett í duftker. Það kemur þó fyrir að ösku manna er dreift á ákveðnum stað, en samkvæmt lögum má einungis dreifa ösku manna yfir haf og óbyggðir. Til að gera það, þarf að sækja um leyfi hjá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra. Til að fallist sé á slíkt þarf skriflega beiðni eða samþykki hins látna, eða skriflega staðfestingu nánustu aðstandenda á því, að það hafi verið vilji hins látna að ösku hans yrði dreift.