Brynja Nordquist vita margir hver er enda hefur hún lengi verið í sviðsljósinu, fyrst ung sem fyrirsæta þar sem hún var áberandi í tískuheiminum og síðar sem flugfreyja. Í því starfi hefur hún gert flugferðir Íslendinga í gegnum tíðina ánægjulegri en ella hefði verið, með sérlega þýðu viðmóti. Brynja er ein af þeim sem tekur fallega á móti aldrinum og hefur forgangsraðað markvisst í lífi sínu. Hún hefur tekið nokkrar afdrifaríkar en farsælar ákvarðanir þegar upp er staðið. Hún nefnir til dæmis ákvörðunina að hætta að vinna áður en hún þurfti og líka ákvörðunina að hætta að drekka áfengi.
Hætti að fljúga
Brynja starfaði sem flugfreyja hjá Icelandair þar til fyrir tveimur árum og hafði þá verið í því starfi í 36 ár. Starfslokin komu þannig til að hún þurfti að fara í aðgerð á hnjám og fór í veikindafrí í framhaldi. Þá fann hún út að það var til líf fyrir utan flugvélarnar. „Ég hætti þess vegna tveimur árum áður en ég þurfti en ég viðurkenni alveg að hafa fengið kvíðakast nokkrum árum áður þegar ég sá fram á að nú styttist í að ég myndi þurfa að hætta sem flugfreyja,“ segir Brynja sem verður 67 ára á þessu ári.
Gerði starfslokasamning
Í flugheiminum er fólk bókstaflega á fleygiferð allan tímann í vinnunni og Brynja segir að það hafi í rauninni átt mjög vel við sig á meðan á því stóð. „Mér þótti miklu betra að
vera að vinna um borð í flugvél en vera farþegi en í dag nýt ég þess fullkomlega að láta þjóna mér á ferðalaginu,“ segir hún og hlær. Brynja nýtti sér möguleikann að gera starfslokasamning við flugfélagið og er þess vegna á launum þangað til hún verður 67 ára og segir að sá möguleiki hafi hjálpað henni að taka ákvörðunina um starfslok. „Þegar ég var búin í veikindafríinu hafði ég komið auga á innihaldsríkt lífið fyrir utan flugvélina og þá var ákvörðunartakan auðveld,“ segir þessi lífsglaða kona. “Ég vann í tvö ár eftir aðgerðina og hugsaði þá að nú væri komið gott…”
Góð ákvörðun
“Ég er mjög sátt við að flugfélagið komi til móts við flugfreyjur/þjóna og geri starfslokin auðveldari og svo er ég líka svo heppin að hafa fyrirvinnu,” segir Brynja en eiginmaður hennar er Þórhallur Gunnarsson sjónvarpsmaður og framkvæmdastjóri fjölmiðla Stöðvar 2 og Vodafone. „Ég nýt lífsins ríkulega og hef sem betur fer eflt með mér meira sjálfstæði eftir því sem ég hef elst og þroskast,“ segir Brynja brosandi. „Mér finnst ég allt of oft sjá konur verða ósjálfbjarga með aldrinum, ekki síst af því tölvu- og símatækninni hefur fleygt svo hratt fram á stuttum tíma og margir eru hræddir við þessa nýju tækni. Þar nefni ég til dæmis móður mína sem treysti alfarið á pabba með allt. Hún varð 95 ára gömul en ég er ekki viss um að hún hafi kunnað að nota greiðslukort þegar hún lést.“
Hefur tekið tölvutæknina í sínar hendur
Í miðju viðtalinu fór Brynja að tala við „Google home“ sem var eitthvað að trufla hana. Hún sagðist reyndar líka vera með „Siri” og spyrji hana um hvað sem er. Það sé bæði svo skemmtilegt og mjög nytsamlegt að kunna þetta. „Ég sé að ég er duglegri en margir á mínum aldri að nýta mér tölvur og símaforrit og finn til með konum sem eru einar og hafa ekki haft tækifæri til að efla þessa kunnáttu sína. Hræðsla við nýja tækni er eitt af því sem hamlar eldra fólki hvað mest. Ég er til dæmis að horfa á tengdaföður minn, sem er orðinn 85 ára, og sé hvað það gefur honum mikið að nýta sér tölvur og þá ekki síst Facebook. Þannig getur hann til dæmis verið í meiri samskiptum við börn og barnabörn en annars væri.
“Ég er ansi virk á Instagram og Facebook,” segir Brynja og hlær. Hún er með 1500 fylgjendur á Instagram og 2600 fylgjendur á Facebook sem er veruleg gott fyrir rúmlega sextuga “kerlingu” eins og hún segir. “Þetta gefur mér mjög mikið því þarna get ég fíflast og látið eins og ég vil. En svo spyr ég barnabarnið reglulega hvort honum finnist leiðinlegt að amma hans sé þarna. Hann segir þá hlæjandi en mjög sannfærandi: “Nei amma, strákunum finnst þú kúl og gætir alveg verið atvinnuinstagram kona.”
Er lengur að gera hlutina
Brynja segir að það pirri hana að finna að hún sé lengur að gera suma hluti en áður. „Það sem tók mig 20 mínútur að gera áður er ég hálftíma að gera núna. Þetta fer í taugarnar á mér en ég reyni að horfast í augu við þetta vandamál og efla mig eins og ég get. Aldrinum fylgir ýmislegt sem við eigum erfitt með að sætta okkur við en verður ekki umflúið. Þá er bara að horfast í augu við það og vinna á móti eins og við getum. Ég prjóna töluvert og lít á prjónaskapinn sem vissa jógahugleiðslu. Ég prjóna t.d. sokka til að gefa í jólagjafir og þykir það mjög skemmtileg iðja. Ákvörðunin að hætta að drekka er síðan ein sú besta sem ég hef tekið. Ég varð mun framtakssamari og líður betur að öllu leyti.” Brynju líkar vel við heit vefsíðunnar Lifðu núna því hún segir að það minni okkur á mikilvægi þess að „lifa núna“.
Búin að vera saman í 26 ár
Brynja og Þórhallur eru búin að vera saman í 26 ár en hún er 10 árum eldri en hann. Hún segir að aldur sé afstæður og mjög mikilvægt að geta umgengist allan aldur. “Þrátt fyrir aldursmuninn finnst mér ég stundum barnalegri en Þórhallur en hann getur sömuleiðis verið óttalega vitlaus,” segir Brynja og hlær.
Verðum að byrja að hugsa um eftirlaunaaldurinn fyrr
“Mér þykja lífeyrissjóðsmálin svolítið flókin og ekki síst hvenær sé best að ráðstafa séreignasparnaðinum,” segir Brynja. “Ég er búin að tala við marga varðandi það en enginn segir það sama. Nú er ég að verða 67 ára og ég stend svolítið á gati en þetta leysist á endanum eins og allt annað.
“Ég skal viðurkenna að fyrir 20 árum hefði ég ekki getað ímyndað mér að það væri gaman að vera komin á þennan aldur og vera orðin löggiltur eldri borgari. En maður þarf auðvitað að hafa fyrir því að njóta lífsins eins asnalega og það hljómar. Ætli mín mesta gæfa í lífinu sé ekki að vera almennt lífsglöð og félagslynd og svo spillir ekki að vera umkringd yndislegu fólki alla daga. Ég horfi bjartsýn til næstu 30 ára,” segir Brynja að lokum og hlær.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.