Sextíu kíó af sunnudögum markar endi á stórvirki Hallgríms Helgasonar, sögu Gests litla, Eilífs og allra annarra íbúa Segulfjarðar. Það er ánægjulegt að lesa lok sögu þeirra en um leið er ekki hægt annað en að finna fyrir söknuði. Aldrei framar mun lesandinn verða leiddur inn á hina hvítu örk og horfa yfir Segulfjörð, sólbakaðan og fullan af síldarbátum. Aldrei aftur á maður eftir að lesa viðlíka bók með slíkri ofgnótt orða, mögnuðum mannlýsingum, dásamlegri fyndni, skemmtilegum vísunum í aðrar bókmenntir og hreint frábærlega vel undirbyggðu sögusviði.
Þessar bækur eru magnaðar. Hallgrímur hefur, líkt og Charles Dickens, einstakt lag á að lýsa fólki bæði útliti þess og innræti. Honum tekst að búa til svo raunverulegar og raunsannar persónur að þær munu án efa öðlast sjálfstætt líf og eigin frama í framtíðinni, rétt eins og Fagin, Bill Sikes, Ebenezer Scrooge, Uriah Heep, Miss Havisham, Joe Gargery og öll hin. Þessar skrautlegu og einstöku aukapersónur sem glæða hverja sögu lífi og verða þungmiðjan í því samfélagi sem hún hverfist um. Það er sama hvort Hallgrímur er að segja frá manneskjum svo beygðum og brotnum af lífsins harki að þær eru nánast horfnar, gegnheilu og góðviljuðu fólki eða hreinræktuðum óþokkum. Allir fá sitt pláss verða til fyrir hugskotssjónum þess sem les.
En þetta eru ekki bara skáldsögur þótt það sé auðvitað ekkert bara. Þetta er Íslandssaga, aldarfarslýsing og skoðun á mannsálinni. Hallgrímur er stórkostlegur höfundur. Hann veit og skilur að menn er breyskir, sumir heldur meira en svo, hreinlega viðbjóðslegir, en hann skrifar af slikri mennsku að það er ekki hægt að hata neina af hans persónu. Meira segja allra verstu skúrkarnir og lítilmennin eru þannig í meðförum hans að þetta eru menn. Höfundur horfir yfir sviðið sér gallana, sér eymdina, sér ræfildóminn, illkvittnina, grimmdina og miskunnarleysið en það vottar hvergi fyrir hroka, enginn mætir fyrirlitningu þótt hann ætti hana sannarlega skilda.
Þetta er besta bók Hallgríms til þessa. Sextíu kíló af sunnudögum er stórkostleg lokaaría í stórbrotinni óperu. Þessi bók er svo vel unnin, hver einasta setning úthugsuð og textinn svo frábærlega uppbyggður. Stundum hugsar maður með sér; hvernig fer hann að þessu, að finna þessar frábæru tengingar að líkja þessu einmitt við þetta og hitta svona rækilega naglann á höfuðið. Þarna eru heillandi og skarpar lýsingar á mönnum, umhverfi og málefnum. Fyndin atvik og orðaleikir, tjáning á hjartnæmum stundum, djúpri sorg og mikilli sælu. Frásagnir af yfirgangi, miskunnarleysi, grimmd og illsku en allt borið fram af stakri snilld.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.