Ragnhildur Erla Bjarnadóttir skrifar
Komið er að því að Auði djúpúðgu og hennar fólki er ekki lengur vært á Bretlandseyjum. Mannvíg eru tíð og Þorsteinn rauður sonur Auðar reynir hvað hann getur til að verjast herskáum innfæddum vígamönnum. Auður sér þann kost vænstan að flýja til Íslands en þar á hún frændfólk. Undirbúa þarf brottförina svo lítið beri á því Auður óttast um líf sitt og sinna afkomenda en Þorsteinn og Þuríður kona hans hafa eignast sex dætur og enn á Þuríður von á sér. Ekki bera allir gæfu til að komast til fyrirheitna landsins og þarf Auður að þola miklar raunir áður en hún nemur land í Hvammsfirði.
Með þessari bók lýkur Vilborg þríleiknum um Auði djúpúðgu Ketilsdóttur, eina mestu landnámskonu Íslands, sem bæði er getið um í Landnámu og Laxdælu enda með miklum ólíkindum hvernig henni tókst að flýja með fullar hendur fjár á öðrum eins óeirðartímum og voru við lýði. Persónulýsingarnar eru sterkar og grípandi og gefa áhugaverða innsýn inn í líf einstaklinganna sem eru á ólíku æviskeiði. Gaman er að fylgjast með tvíburunum Ólöfu og Gróu Þorsteinsdætrum enda eru þær sterkir karakterar þrátt fyrir ungan aldur og láta ekki aðra vaða yfir sig. Þetta er einstaklega áhugaverð bók eins og hinar tvær og nú er komið að því að lesa Laxdælu að nýju. Landnámssetur í Borgarnesi er svo með sýningar, þar sem Vilborg rekur sögu Auðar djúpúðgu á afar áhrifaríkan hátt.
Hér fyrir neðan er kafli úr bókinni;
Auður bítur á vör. Þótt ósætti þeirra Þorsteins hafi ekki farið framhjá neinum á heimilinu hefur enginn fært það í tal fram að þessu. Ekki að þögnin hafi auðveldað henni að víkja úr huga sér egghvössum orðunum sem flugu eins og örvar um eldaskálann kvöldið áður en hann lagði af stað. “Hvað í ósköpunum á ég að gjalda í heimafylgju með þeim öllum?” hafði hann spurt hana harður á svip, haldið áfram án þess að bíða eftir svari: “Þú veist jafnvel og ég að fé mitt er nær á þrotum. Það litla silfur sem ég á eftir verð ég að nota handa mönnunum; sá sem ekki launar liðveislu stendur fljótt einn uppi.” Hún ætlar að grípa fram í fyrir honum; alltaf má finna leiðir og það sem hann vill gera er glæpur gegn Guði, ófyrirgefanlegt, en Þorsteinn reiðir hönd á loft og stöðvar hana. “Ráðrík hefurðu alla tíð verið en þótt ég hafi látið undan þér áður þá færðu mér ekki hnikað í þetta sinn. Fæðist sú sjöunda á meðan ég er í burtu skal hún borin út áður en ég kem heim. Það er mitt síðasta orð.”