Boðið uppá ferð í Bása fyrir sextíu plús

Ferðafélagið Útivist býður uppá sérstaka ferð í Bása á Goðalandi fyrir þá sem eru sextugir og eldri núna í lok júlí.  Básar eru í nágrenni við Þórsmörk.  Farið verður í Bása  miðvikudaginn 27.júlí og komið tilbaka föstudaginn 29.júlí. Í kynningu Útivistar segir eftirfarandi um ferðina:

Jafnt yngri sem eldri Útivistarfélagar eiga margar sælar minningar úr Básum á Goðalandi og oft er sagt að hjarta félagsins slái þar. Þessi ferð er tilvalin fyrir eldri félaga sem vilja endurupplifa góðar minningar, sem og nýja félaga á virðulegum aldri sem langar að kynnast þessari paradís undir leiðsögn kunnugra.

Gaman að vera sextíu plús

Fararstjórar í ferðinni fyrir sextíu plús eru þau Guðrún Frímannsdóttir og Steinar Frímannsson, en tekið skal fram að þau eru ekki systkini. Blaðamaður Lifðu núna spurði Guðrúnu að því hvers vegna þau hefðu ákveðið að hafa sérstaka ferð fyrir þennan aldurshóp. Hún segist hafa haft áhuga á því lengi að skipuleggja slíka ferð. „Mér finnst sjálfri gaman að vera sextíu plús og þegar maður er kominn á þennan aldur hefur maður óendanlega mörg tækifæri til að njóta náttúrunnar og þess sem lífið hefur að bjóða“, segir hún og bætir við að hún elski að vera inn í Básum, staðurinn sé svo fallegur og friðsæll. Þar sé mjög gott að vera. „Ég fór að hugsa um að það væri gaman að hvetja fleirir til að koma og njóta. Annað hvort til að rifja upp gamlar gönguleiðir og gamlar minningar, eða fyrir þá sem ekki hafa komið þangað að upplifa eitthvað nýtt og fallegt“.  Ákveðið var að hafa ferðina í miðri viku, en þá eru líkur á að umferðin þar sé minni en um helgar.

Í Básum

Skrítið að fólk skammist sín fyrir að verða gamalt

„En mér finnst merkilegt að ég hef heyrt það þó nokkrum sinnum að menn segjast ekki fara í svona „gamlingjaferð“. Mér finnst það svo miklir fordómar. Ég er 66 ára og mér finnst ég ekki gömul. Ég vil halda góðri heilsu og verða eldri, vil upplifa og njóta lífsins. Mér finnst alltaf jafn skrítið að mæta þessu viðhorfi að fólk skammist sín fyrir að verða gamalt, mér finnst það bara frábært“, segir Guðrún sem missti manninn sinn og föður tveggja barna þeirra, rúmlega þrítug. Hún segist þakka fyrir  hvert ár sem bætist við líf hennar. „ Ég á frátekið pláss í kirkjugarðinum á Akureyri en ætla ekkert að nota það á næstunni“, segir hún og hlær.

Ertu ekki að grínast?

Guðrún tekur fram símann sinn og sýnir blaðamanni mynd af korti sem sýnir að hún er félagi í Félagi eldri borgara í Kópavogi. Hún segist borga með símanum og snúa honum svo við og sýna félagsskírteinið sem veitir afslátt af margvíslegri vöru og þjónustu. „Í fyrsta skipti sem ég notaði kortið var ég með vinkonu minni og hún var alveg gáttuð á hvað ég veifaði því og sagði „Ertu ekki að grínast, ertu að ganga hér um og auglýsa hvað þú ert gömul?“, henni fannst ekki ástæða til að auglýsa það“. Eftir þrjá daga fer Guðrún sem fararstjóri í göngu með fólk eftir Laugaveginum. „Mér finnst æðislegt að hafa heilsu og getu í það. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér. Maður þarf að vera meðvitaður um hvernig maður lifir lífinu og ræktar sína heilsu. Við erum ekki bara viljalaus verkfæri í höndum örlaganna“.

Ekki skilyrði að vera mikill göngugarpur

„Fyrir mér snýst sextíu plús ferðin um að lokka fólk til að koma og njóta náttúrufegurðarinnar í Básum og félagsskapar hvers annnars. Það er ekkert skilyrði fyrir að koma í ferðina, að vera mikill göngugarpur. Það er ekki málið. Við fararstjórarnir  ætlum að bjóða uppá gönguferðir við allra hæfi, bæði stuttar og svo lengri. Þeir sem vilja ekki fara í neina gönguferð, halda bara kyrru fyrir í Básum og njóta þess að vera þar í kyrrðinni. Það er ekki skilyrði að hafa gönguskóna með. Svo er gist í skála. Kannski er það hindrun fyrir einhverja, en það er búið að endurnýja skálann mjög mikið og aðbúnaður þar er góður, það eru til dæmis komnar sturtur, en fólk er ekki í sérherbergjum“, segir Guðrún.

 

 

 

Ritstjórn júlí 12, 2022 08:00