Mánudaginn 20. október ætla Arndís Þórarinsdóttir og Nanna Rögnvaldardóttir að kíkja í heimsókn á Borgarbókasafnið Árbæ og ræða saman um glæpasögurnar Morð og messufall og Mín er hefndin.
Mín er hefndin er framhald bókar Nönnu Þegar sannleikurin sefur, sem kom út í fyrra. Arndís Þórarinsdóttir sendi fyrr á árinu út sína fyrstu glæpasögu, Morð og messufall. Bókina skrifaði Arndís í félagi við Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur en þetta er þriðja bókin sem þær skrifa saman. Sagan gerist í nútímanum og fjallar um rannsókn á morði í kirkju í Grafarvoginum ólíkt bók Nönnu sem flytur okkur aftur til morðmáls á 18. öld.
Nanna og Arndís gefa einnig báðar út bækur fyrir börn og ungmenni í haust og munu þær einnig ræða um hvernig er að skrifa fyrir ólíkan aldur og hvernig farið er að því að gefa út ekki bara eina heldur tvær bækur á einu ári!
Viðburðurinn er hluti af dagskránni Glæpafár á Íslandi sem haldin er í samstarfi við Hið íslenska glæpafélag, sem fagnar 25 ára afmæli í ár.
Bókakaffi með glæpaívafi hefst kl. 16:30.
Öll velkomin og aðgangur er ókeypis.
Nánar um viðburðinn á heimasíðu Borgarbókasafnsins:
https://borgarbokasafn.is/vidburdir/bokmenntir/bokakaffi-med-glaepaivafi