Hópur danskra sjúkrahúspresta er á þeirri skoðun að aukaverkanir lyfja, endurteknar skurðaðgerðir og allt of margar lyfjameðferðir vegna krabbameina geti komið í veg fyrir að deyjandi sjúklingar geti átt fallegt ævikvöld. Í könnun danska ríkisútvarpsins sem náði til 37 sjúkrahússpresta svöruðu 27 því til að fólk sem væri við dauðans dyr væri iðulega meðhöndlað með því eina markmiði að framlengja lífið í stað þess að fólk fái að deyja á eðlilegan hátt. Um þetta er fjallað á vef danska ríkisútvarpsins sjá hér.
Dauðastríðið er framlengt í staðinn fyrir lífið. Það eru ekki góð skipti þar sem verðmætur tími fer í að þjást í stað þess að auka lífsgæði sjúklingsins, segir Ruth Østergaard Poulsen prestur við háskólasjúkrahúsið í Álaborg. Dauðinn verður að læknamistökum. Samkvæmt Ruth Østergaard Poulsen liggur ábyrgðin hjá læknunum þar sem faglegt hlutverk þeirra er að bjarga mannslífum. En svo snúist málið einnig um það hvaða augum aðstandendurnir og sjúklingarnir líta dauðann. „Það er mikilvægt að við getum litið á dauðann sem hluta lífsins en ekki sem læknamistök,“ segir hún.
Karsten Thomsen, prestur á sjúkrahúsinu í Bispebjerg telur að meðferð sé oft látin standa of lengi. Hann segist oft verða var við að deyjandi sjúklingar lendi í klemmu á milli vona ástvina sinna og þeirra viðhorfa sem ríkja á sjúkrastofnunum gagnvart dauðanum.
Ef þín nánasta fjölskylda segir að þú eigir að halda baráttunni áfram og faglegt álit heilbrigðisstarfsmanna er það sama að þú eigir að reyna svo lengi sem þú mögulega getur, þá verða til sjúklingar sem eyða öllum sínum tíma í að fara frá einu sjúkrahúsi til annars, í rannsóknir og meðferðir í stað þess að eyða meiri tíma með ástvinum sínum, segir hann. Karsten segist oft heyra það á aðstandendum að þau sjái eftir þeim tíma sem fór í síðustu meðferðina því þannig tapaðist tími til að kveðja. „Það kemur ávallt í bakið á okkur að við hefðum svo gjarnan viljað tala svolítið meira hvert við annað,“ segir hann.
Anette Kortegaard prestur við sjúkrahúsið í Silkiborg er sama sinnis. Hún hvetur til þess að bæði starfsfólk sjúkrahússins og fjölskyldurnar heima tali meir um þá staðreynd að á einverjum tímapunkti lýkur lífinu. „Ef við bara ræðum það í tíma hvers við óskum okkur síðustu dagana í þessu lífi gæti það leitt til góðra hugleiðinga“ segir hún.
Formaður danska læknafélagsins Andreas Rudkjøbing kallar eftir umræðu um lífslengjandi meðferð. Að hans mati standa margir læknar og sjúkrahús vel að málum en samt má alltaf gera betur. „Það gæti verið gagnlegt að vinna þessa hluti á kerfisbundinn hátt, það má læra af þeim sjúkrahúsum sem fremst standa á þessu sviði“ segir hann.