Deilur við skipti dánarbúa heyra til undantekninga

Elín Sigrún Jónsdóttir

„Við andlát er gefið út dánarvottorð og því þarf að skila til sýslumanns. Þegar andlát er tilkynnt þá fer sú tilkynning til þjóðskrár.  Þar með lokast heimild til að millifæra og greiða af reikningum hins látna“,segir Elín Sigrún Jónsdóttir lögmaður hjá Búum vel, en hún sérhæfir sig í lögfræðiaðstoð við þá sem eru sextugir og eldri. Hún segir að margir óttist þetta og geri því ýmsar ráðstafanir til að taka út af bankareikningum til að eiga fyrir útfararkostnaði og fleiru sem þarf að greiðast í kjölfar útfarar. „ En mín reynsla er sú að það sé ekkert að óttast, þetta gengur allt saman vel fyrir sig“ segir hún. Þeim sem tilkynnir andlátið er veitt heimild til að greiða alla útfararreikninga og svo er viðkomandi veitt heimild til að afla upplýsinga um eignir og skuldir hins látna. Elín Sigrún segir að það sé auðveldast að gera með því að fá afrit af skattskýrslum hins látna og yfirlit frá lánastofnunum. Þannig geti fólk glöggvað sig á stöðu mála.

Allir erfingjar þurfa að samþykkja einkaskipti dánarbús

Lang algengast er að dánarbúum sé skipt með einkaskiptum erfingja og Elín Sigrún segir að það sé ekki flókið. Sá sem fái heimild til skipta eigi rétt á að fá allar nauðsynlegar upplýsingar og sem betur fer gangi það yfirleitt greiðlega. En til að skipta búinu með einkaskiptum þurfi allir erfingjar að samþykkja það. Það sé mikilvægt að átta sig á því að þar með séu þeir ekki bara að samþykkja að taka við eignum búsins heldur gangast þeir einnig í ábyrgð fyrir öllum skuldum hins látna.  Elín bætir við að það sé einnig hægt að skipta búi með opinberum skiptum en sú leið heyri til undantekninga. „Ef erfingjar treysta sér til dæmis ekki til að ábyrgjast skuldir búisins velja þeir opinber skipti. Það getur reynst bæði tímafrekt og kostnaðarsamt, en í einhverjum tilfellum getur verið mikilvægt að geta farið þá leið“, segir hún.

Eiga menn rétt á útfararstyrk frá stéttarfélaginu?

„Það er mikilvægt að vanda til allrar upplýsingaöflunar um stöðu búsins. Erfingjar átta sig oft ekki á því hve mikil vinna og umstang það getur verið að annast skipti og leggst sú vinna oft á tíðum á einn erfingja. En í mörgum tilvikum sameinast erfingjar um að leita sér sérfræðiaðstoðar“, segir Elín.  Auk þess að fara yfir eignir og skuldir, þarf að athuga rétt hins látna hjá lífeyrissjóðum og stéttarfélögum. Hann gæti til dæmis rétt á  útfararstyrk. „Þar er hvert og eitt mál sérstakt, því það er mjög mismunandi eftir stéttarfélögum hvernig útfararstyrk er háttað. Það getur til dæmis skipt máli hvort viðkomandi var hættur að vinna og greiða til stéttarfélags þegar hann lést“.

Erfðaskrár og rafrænt líf

Meðal annarra upplýsinga sem skipta máli, er hvort erfðaskrá er til í búinu, eða kaupmálar. Þá er fólk í dag með heilmikið af upplýsingum í tölvunum sínum og með ýmiss konar efni, svo sem myndir, sem geymt er með rafrænum hætti. Til að nálgast það, þarf bæði notendanöfn og lykilorð. Sama gildir um Facebook síður. Þessu þarf að huga að með góðum fyrirvara.

Deilur við búskipti ekki algengar

Þegar kemur að skiptum innbús milli erfingja er hægt að fara ýmsar leiðir, en Elín segir langalgengast að sátt sé um skiptin. Mörgum reynist vel að semja fyrir fram um leikreglur áður en farið er að skipta. Ef fjölskyldan getur ekki notað munina, reynist oft erfitt að koma þeim í verð. Góði hirðirinn, Basarinn og fleiri aðilar taka að vísu við vel með förnum hlutum og þannig geta þeir öðlast framhaldslíf. „Ein leið til að skipta innbúi, ef margir hafa áhuga á að eignast sömu hlutina, er að flokka þá verðmætustu í bunka og merkja þá til dæmis a,b og c. Þannig geta erfingjarnir dregið og þá jafnvel skipt sín á milli, ef það hentar“, segir Elín.

Gömul óeining og samskiptaörðugleikar

Það heyrast stundum sögur af ósætti milli erfingja og deilur sem valda því að vinslit verða í fjölskyldum, en Elín segir ekki mikið um slíkt. Deilur heyri til undantekninga „ Að mínu mati er það gömul óeining og samskiptaörðuleikar milli erfingjanna sem leiða til þess að dánarbússkiptin reynast erfið og oft á tíðum mjög sársaukafull.  Í þeim tilvikum getur verið heppilegt fyrir erfingjana að leita sér sérfræðiaðstoðar og fá hlutlausan aðila til að annast vinnuna. En í langflestum tilvikum leysa erfingjar þessi skipti í sátt og af virðingu við hinn látna“.

 

Ritstjórn apríl 11, 2023 07:00