Alla dreymir. Mismunandi mikið og stundum munum við drauma okkar og stundum ekki. Frá fyrstu tíð hafa menn tengt þær myndir og atburði sem fram koma í draumum við yfirskilvitlega hluti og jafnvel talið að að í svefni kæmust þeir í samband við andaheima. Nútímamenn hafa á hinn bóginn tengt drauma við eigin anda og telja að í þeim felist skilboð frá undirmeðvitundinni.
Velþekkt er að á streitutímum eða þegar fólki líður illa dreymir því oft erfiða drauma. Eitthvað er þeim mótdrægt í draumnum eða eitthvað flókið gerist og manneskjan getur ekki leyst úr málum. Enginn vafi er að þessir draumar sitja í sálinni. Menn vakna leiðir eða daprir og tilfinningin situr í þeim allan daginn. Þetta gerist burtséð frá því hvort þeir muna drauminn eða ekki. En stundum felst í draumum bæði góðum og slæmum lykill að lausn þeirra vandamála sem menn horfast í augu við í lífinu.
Í nýrri rannsókn Háskólans í Genf kom í ljós að martraðir eða slæmir draumar hjálpa fólki oft að losa um kvíðahnút. Vonir standa til að þetta geti hjálpað þeim sem þjást af kvíðtengdum vandamálum. Nú hefur nefnilega tekist að finna þær taugastöðvar sem stjórna ótta og rannsóknin leiddi í ljós að þær eru jafnvirkar í svefni og í vöku. Með því að nota öfluga heilarita EEG gátu vísindamennirnir séð og kortlagt nákvæmlega starfsemi heilans meðan á öllum stigum svefnsins. Þá sást að erfiðar draumfarir, ekki martraðir, kveiktu viðbrögð í ákveðnum hlutum heilans. Þau taugaviðbrögð sem þá fóru í gang gerðu það að verkum að þegar menn vöknuðu fundu þeir fyrir minni kvíða og voru betur í stakk búnir til að takast á við ótta og vanlíðan.
Vellíðunarboðefni virkjuð
Vellíðunarboðefni höfðu verið virkjuð til að draga úr vondum tilfinningum og heilinn var þegar farinn í þann fasa að vinna úr eigin viðbrögðum og koma jafnvægi á starfsemi sína aftur. Vísindamennirnir í Genf báðu alla þátttakendur í rannsókninni að halda draumadagbók og skrá hjá sér tilfinningar og líðan þegar þeir vöknuðu. Þeir komust að því að sterk tengsl voru milli þeirra skynjana okkar í draumi og líðanar í vöku. Draumarnir voru eins konar æfing fyrir þær hindranir sem mættu mönnum í dagsins önn.
Í draumnum erum við í raun að kanna hvernig og hvort við getum sigrað óttann. Draumar geta einnig varpað nýju ljósi á vandamálin. Þess eru mörg dæmi að fólki dreymi að þeir falli á prófi, mæti naktir í boð, missi vinnuna eða lendi í deilu við einhvern sem hefur verið þeim erfiður. Að upplifa þannig ótta sinn getur hjálpað mönnum að átta sig á að enginn heimsendir verður þótt nákvæmlega þetta gerðist. Léttirinn þegar menn vakna og átta sig á að þá var bara að dreyma getur einnig gefið mikla feginstilfinningu og eflt fólk því finnst það hafa fengið annað tækifæri.
Sumir sálgreinar telja að draumar hafi þróast einmitt af þessum orsökum. Þeir séu leið hugans til að hjálpa mönnum að vinna úr tilfinningum sínum á myndrænan hátt í öruggu umhverfi í eigin höfði. Það geri alla erfiðileika auðveldari að takast í við í raunheimum. Enn er draumatúlkun hins vegar mjög umdeilt svið. Sumir hafa viljað finna og flokka einhver tákn sem eiga að vera sameiginleg öllum mönnum. Aðrir telja að táknin eigi ávallt að lesa í samhengi draumsins og út frá því hvaða þýðingu þau hafa í huga dreymandans. Til að mynda sé allt önnur skilaboð fólgin í því ef manneskju dreymir hest sem ekki stundar hestamennsku en þegar hestamann dreymir hross. Hins vegar er líklegt að ef menn hafa til dæmis verið í erfiðleikum á vinnustað að þá dreymi vinnustaðinn en þá í öðru samhengi. Þetta er vinnustaðurinn en samt ekki hann. Hugsanlega er umhverfið allt annað eða fólkið. Togstreitan er hin sama en samt öðruvísi og þegar menn vakna getur sitja tilfinningarnar eftir. Að mæta síðan í vinnuna og sjá að allt er með sama brag og áður gefur þá tilfinningu að allt sé í lagi.
Algengustu tilfinningarnar þegar um erfiðar draumfarir er að ræða eru hjálparleysi, ótti, sektarkennd og varnarleysi. Þegar menn aftur á móti fá martraðir geta þær breyst í skelfingu og valdið líkamlegum viðbrögðum eins og svitakófi, titringi í taugum og gráti. Sumir sálgreinar telja að martraðir hafi á hinn bóginn lítinn tilgang og ekki sömu þýðingu og erfiðir draumar. Þær vekja streituviðbrögð í líkamanum og ýkja þau í stað þess að draga úr þeim. Þess vegna er engin hjálp í þeim. En vísindamennirnir í Genf hvetja alla til að halda draumadagbækur og finna sjálfir leiðir til að túlka sína drauma og vinna úr þeim tilfinningum sem þeir vekja.
„Sumir hafa viljað finna og flokka einhver tákn sem eiga að vera sameiginleg öllum mönnum. Aðrir telja að táknin eigi ávallt að lesa í samhengi draumsins og út frá því hvaða þýðingu þau hafa í huga dreymandans.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.