Efnileg ung kona kemur á óvart á Netflix

Það er komið haust og vetrardagskráin að hefjast hjá fólki. Það getur stundum verið notalegt að horfa á þætti og kvikmyndir á Netflix á dimmum kvöldum þegar haustlægðirnar eru farnar að láta til sín taka. Margir eru sjálfsagt farnir að þekkja Netflix efnið út og inn. Það sakar samt ekki að benda á myndir sem  blaðamanni Lifðu núna fundust góðar, sumar eru nýlegar en aðrar eldri, þannig að einhverjir hafa líklega séð þær.

Promising young woman.

Þetta er mynd sem kemur á óvart. Hún fjallar um unga konu sem hættir í læknanámi, eftir andlát vinkonu sinnar. Þegar líður á myndina kemur í ljós að vinkonan hafði orðið fyrir hópnauðgun í  partýi í háskólanum, eftir að hafa drukkið of mikið. Myndskeiði af atburðinum var dreift á netinu. Myndin tekur óvænta stefnu þegar unga konan byrjar að hefna vinkonu sinnar og  endar á skelfilegum atburðum sem áhorfandann órar ekki fyrir í upphafi myndarinnar. Aðalhlutverkið er í höndum Carey Mulligan sem skilar hlutverkinu fantavel  en leiksjóri er Emerald Fennell. Þetta er ekki mynd til að horfa á með barnabörnunum.

Page eight er margverðlaunuð mynd

Page eight

Verðlaunamyndin Page eight er sú fyrsta af  þremur myndum í  Worricker þríleiknum svokallaða sem BBC lét gera árið 2011.  Myndirnar fjalla allar um Johnny Worricker öryggisþjónustumann sem er leikinn af Bill Nighy. Page eight byrjar á því að nágranni Worricker Nancy Pierpan býður honum uppá drykk eitt kvöldið. Hún er fædd í Damaskus í Sýrlandi og átti bróður sem var myrtur af ísraelska hernum . Worricker starfar hjá Öryggisþjónustunni (M15 Security Service), sem gamall vinur hans Benedict Baron stýrir. Hann afhendir Worricker leynilega skýrslu en á blaðsíðu 8 koma fram alvarlegar ásaknir á hendur forsætisráðherra Bretlands. Skömmu seinna deyr hann, án þess að hafa afhent skýrsluna. Myndin er mjög vel gerð og þrælspennandi en leikstjóri allra þriggja myndanna er David Hare. Leikkonan Rachel Weisz fer með hlutverk Nancy.  Næsta mynd á eftir Page eight er Turks & Caicos og þriðja og síðasta myndin er Salting the Battlefield. Þær voru sýndar á BBC árið 2014.

 

Keisarahjónin í Austurríki Elísabet og Franz Joseph

Empress.

Það mætti við fyrstu sýn ætla að þetta búningadrama kæmi úr smiðju BBC í Bretlandi, en svo er ekki. Empress þáttaröðin, eða keisaraynjan, er þýsk framleiðsla sem byggist á atburðum úr ævi Elísabetar keisaraynju af Austurríki. Hún segir frá hinum unga keisara Austurríkis Franz Joseph, en móðir hans telur tímabært að hann festi ráð sitt og eignist erfingja. Hún er búin að finna fyrirmyndar stúlku Helen, af bæverskum aðalsættum sem hún vill að hann kvænist. En það kemur babb í bátinn, þegar systir hennar, Elísabet, sem þykir uppreisnargjörn ævintýrakona fangar athygli keisarans, í stað brúðarinnar tilvonandi og þau giftast um miðja 19. öld. Hún er ung og þarf að venjast bæði hirðinni og fjölskyldunni sem hún giftist inní.  En þáttaröðin fjallar einnig um stjórnmálaástandið í Austurríki þess tíma, baktjaldamakk við austurrísku hirðina og  stöðu kvenna svo fátt eitt sé nefnt. Önnur sería af þessari þáttaröð er sögð væntanleg.

Deep end of the Ocean

Cappadora hjónin verða fyrir því að þriggja ára syni þeirra er rænt. Þau leita hans lengi lengi en ekkert er vitað um afdrif hans. Þegar drengurinn er orðinn 10 ára og þau eru nýflutt í bæ þar sem þau ætla að setjast að,  bankar hann uppá heima hjá þeim einn daginn og býðst til að slá garðinn fyrir smá upphæð. Móðirin sem leikin er af Michelle Pfeiffer,  verður umsvifalaust sannfærð um að þar sé týndi drengurinn kominn. En málið er ekki einfalt og erfiðar tilfinningar hjá fjölskyldunni taka við. Myndin er ein af þessum gömlu góðu.

Myndin byggist á þessari fyrrum forboðnu skáldsögu

Lady Chatterley´s lover

Skáldsagan Lady Chatterleys lover vakti mikla hneykslan þegar hún kom fyrst út árið 1928. Þetta var einkaútgáfa og bókin kom ekki opinberlega út í Bretlandi fyrr en árið 1960, enda þótti sagan klúr og kynferðislegt samband milli hefðarkonu og verkamanns óhugsandi hneykslanlegt.  Netflix myndin byggist á þessari frægu sögu en þar segir frá Connie Reid sem giftist sir Clifford Chatterley árið 1913. Hann fer í stríðið (fyrri heimsstyrjöldina) þar sem hann örkumlast og  kemur tilbaka í hjólastól. Þá tekur samlíf þeirra hjóna nýja stefnu. Hann er ófær um að lifa kynlífi og eiginkonan er ung og fellur að lokum fyrir ráðsmanninum á herragarðinum þar sem þau búa. Þarna eru á ferðinni sterkar ástríður og ekki furða að mönnum hafi þótt nóg um snemma á síðustu öld.

Ritstjórn september 6, 2023 07:00