Tengdar greinar

Ég er testósterónblóm

Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur fæddist í Reykajvík 1976. Fyrsta bók hennar, Á meðan hann horfir á þig ertu María mey kom út hjá Bjarti 1988. Í kjölfarið fylgdu skáldsögur og ljóð. Hún var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2000, fyrir bók sína Fyrirlestur um hamingjuna. Nýjasta skáldsagan hennar Aðferðir til að lifa af, hefur einnig verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Tilviljun leiðir saman ólíka sögumenn þessarar einstæðu sögu: Borghildi sem nýorðin er ekkja, tölvukarlinn Árna sem þarf að takast á við offitu og hreyfingarleysi, hina ungu Hönnu sem glímir við átröskun, og Aron Snæ ellefu ára son einstæðrar móður … en eftir því sem sögunni vindur fram fléttast örlög þessa fólks saman. Hér á eftir fer stuttur kafli út bókinni

Árni

Ég gekk frá pizzunni í frystinn og gosinu í kælinn og lét renna í háskalega heitt bað. Smáskilaboðin frá Steinunni frá því fyrr um daginn hljóðuðu svo: „Viltu koma í mat í kvöld? Kótilettur og rauðkál. Ekkert fansí“.

Ég hugsaði mig um áður en ég svaraði: „Ef ég finn fatahreinsun sem getur græjað kjólfötin mín fyrir kvöldið“.

Þetta var í fyrsta sinn sem Steinunn bauð mér í mat. Við vorum vön að fara út og borða og síðan heim til hennar í smástund eða jafnvel kveðjast í bílnum fyrir utan hjá henni. Ég reyndi að spennast ekki upp en gat ekki annað. Þetta var þróun. Það var eitthvað að gerast. Þetta hlaut að enda með því að eitthvað gæfi sig. Ógnarjafnvægi stendur ekki endalaust.

Ég baðaði mig eins og ég væri Júlíus Sesar; setti  meira að segja hárnæringu í broddaklippt hárið þótt ég viti varla hver tilgangurinn sé með henni. Líklega sá að gera hárið feitra til að fólk verði háð því að sápuþvo það daglega. Síðan rakaði ég mig og neri á andlit mitt og háls lúku af þunnfljótandi kremi úr Jurtaapótekinu. Á flöskunni stóð: Græðandi balsam fyrir karlmenn, með aloe vera, notist eftir rakstur. Lyktin af þessu minnti á dýrustu gerð af reykelsi. Enda hafði Steinunn spurt mig hvaða rakspíra ég notaði eftir að ég beitti í fyrsta sinn þessu ósýnilega vopni. Engan, svaraði ég. Þetta er mín náttúrulega lykt. Ég er testósterónblóm. Eftir það passaði ég að eiga alltaf nóg af þessu inni í baðskápnum.

Ég settist nakinn í leðurstólinn frammi í stofu til að láta mesta hitann rjúka úr mér eftir baðið. Alfons hafði fylgt mér hver fótmál eftir að við komum  úr búðinni og tók nú til við að sleikja á mér sköflungana. Ég ýtti honum frá mér. Hey, Siri, play Pavarotti, sagði ég.

„Nessun Dorma“ með dáðasta þindarstuðningi allar tíma fyllti út í hvert horn.

Hey, Siri, vertu ekki svona fyrirsjáanleg, something else.

„La donna e mobile“, þrumaði hetjutenórinn og ég lét það gott heita þótt það væri jafnvel enn meiri klisja. Siri byrjaði gjarnan á því vinsælasta og færði sig smám saman út í hitt sem heyrðist sjaldnar.

Ég klæddi mig í rólegheitum, burstaði skóna áður en ég fór í þá og greip síðan með mér flösku úr vínhillunni inni í eldhúsi. Rautt úr lífrænt ræktuðum þrúgum. Vín á borð við það sem Steinunn reyndi með misjöfnum árangri að panta á veitingahúsum. Það síðasta sem ég gerði áður en ég lokaði  á eftir okkur útidyrunum var að biðja Siri að skrúfa fyrir tónlistina.

Ef þú hagar þér ekki sæmilega heima hjá Steinunni fer ég með þig út í bíl og læt þig dúsa þar, sagði ég við Alfons áður en ég skellti aftur skottinu. Ég lagði vínflöskuna í farþegasætið en ákvað eftir stutta umhugsun að láta hana frekar rúlla um á gólfinu.

Steinunn bjó í einni af blokkunum rétt hjá Þjóðarbókhlöðunni og þar vann hún á daginn; í stóra, rauða kassanum handan götunnar. Hún hafði sagt mér að á einu af fundarherbergjunum væri gluggi sem vísaði beint út að glugganum á eldhúsinu hennar sem gegndi líka hlutverki leðurverkstæðis. Nautnum blandinn harmur Steinunnar var að þurfa að að vinna fyrir sér með því að skrá gamlar og nýjar bækur og geta því ekki eytt öllum stundum í að finna upp ný mynstur og form á lokkum, böndum og festum úr leðri og beini.

Í íbúðinni var mikið af húsgögnum úr tekki og enn meira af púðum, sessum og ábreiðum með flauelsáferð. Veggirnir voru hlaðnir myndlist eftir vini hennar sem voru mishátt skrifaðir, en sumir þeirra allt að því frægir.

Steinunn var líka mikið fyrir hvítar mottur úr háu flosi. Þær lágu eins og uppgefnir ísbirnir um öll gólf og vöktu, ásamt flauelinu, með manni þá tilfinningu að það væri engin leið að fara sér að voða þarna inni. Í fyrsta sinn sem ég kom heim til hennar gekk ég hart fram í að fá hana til að viðurkenna  að hún verði frídögum sínum úti á svölum að hrista rykið úr mottum og púðum en hún neitaði öllu. Ég sagði henni að hlátur hennar væri grunsamlegur. Hún hló enn meira og ég fann sigurgleðina hríslast um mig.

 

Ritstjórn desember 6, 2019 12:42