Dr.Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur
Vinkona mín hér vestra er mikill stjörnuaðdáandi. Hún veit fátt skemmtilegra en það að koma auga á frægt fólk og við vinkonur hennar verðum samstundis að láta hana vita, ef svo vill til að stjarna verður á vegi okkar. Þessi ástríða vinkonu minnar varð til þess að mér varð hugsaði til fræga fólksins, sem ég hef séð á almannafæri eða haft persónuleg samskipti við á lífsleiðinni.
Fyrsta heimsfræga persónan, sem ég barði augum var Salvador Dalí. Ég sá hann á nýopnuðu Picasso listasafninu í Barcelona vorið 1974. Ég var þar með góðri vinkonu minni og við vorum varla komnar inn í safnið, þegar meistari Dalí birtist í öllu sínu veldi, í slánni góðu, sveiflandi göngustafnum með silfurhandfanginu, með sitt síða, svarta aftursleikta hár og með sitt heimsfræga stífaða, og uppsnúna yfirvaraskegg. Honum til lags var hávaxin, ljóshærð glæsikona, í hvítri kápu, í svörtum háhæluðum skóm, með túberað hár og skærrauðar varir.
Við urðum svo upptendraðar vinkonurnar við þessa sýn, að við eltum glæsiparið um allt safnið og verð ég að viðurkenna, að ég sá ekki mikið af meistaraverkum Picassos, sem héngu á veggjum safnsins. Ég bætti mér það upp 30 árum síðar.
Á þessum tíma lét Salvador Dalí sjaldan sjá sig á almannafæri. En hann hafði ærið tilefni að vera á ferðinni þennan dag. Konan, sem var honum við hlið, var frú Elanor Morse frá Cleveland, Ohio, en hún og eiginmaður hennar, iðnjöfurinn Reynold Morse, voru stærstu viðskiptavinir Salvadors Dalís og eignuðust yfir árin stærsta safn Dalí verka utan Evrópu.
Veggir glæsihallar þeirra í Cleveland voru þaktir málverkum eftir Dalí. Þegar hjónin fóru að eldast vildu þau gefa listaverkin sín opinberum aðilum, gegn því að þau byggðu listasafn yfir listaverk Dalí. Þau leituðu fyrst til borgaryfirvalda í heimabæ sínum, en var umleitan þeirra hafnað. Að lokum fór svo, að ráðamenn í St. Petersburg á vesturströnd Flórída buðust til að reisa safn yfir verk Dalís. Nú er þar glæsilegt listasafn tileinkað list Salvadors Dalí, og hefur safnið reynst borginni mikil lyftistöng.
Sumarið eftir að við vinkonurnar sáum Salvador Dalí í Barcelona unnum við saman sem leiðsögukonur í Árbæjarsafni. Þar var okkur falið að taka á móti Karli Bretaprins og fylgisveinum hans, en á þessum árum kom Karl prins reglulega til Íslands til laxveiða í Vopnafirði. Sumarið 1975 ákvað hann að staldra aðeins lengur við og litast um í Reykjavík. Hann var hinn alþýðlegasti ásýndum, með sólbrennt nef eftir langar stöður í laxánni. Hann skoðaði meðal annars torfbæinn í Árbæ og þegar hann rak augun í músagildru þar upp á vegg spurði hann “eru íslenskar mýs fleygar” (“are Icelandic mice airborne.”)
Haustið 1977 hóf ég framhaldsnám í New York borg og meðfram náminu skrifaði ég pistla um lífið í borginni og tók viðtöl, aðallega við íslendinga, sem þar bjuggu fyrir Helgarpóstinn. Þegar einn af ritstjórum blaðsins stakk upp á því, að ég tæki viðtal við “fallega og fræga fólkið” í New York, kom Bergmann stjarnan, Liv Ullmann, fyrst upp í huga mér, en hún bjó um þessar mundir í New York, vann þar við leiklist og gegndi einnig embætti sendiherra Barnaverndunarstofnunar (UNICEF) Sameinuðu þjóðanna.
Það var ekki auðvelt að nálgast hana, en þegar ég frétti að einn stærsti gyðingasöfnuðurinn á Manhattan ætlaði að heiðra hana, mætti ég í synagóguna, sem var öllum opin, og að verðlaunaafhendingunni lokinni, gekk ég upp að henni og rétti henni umslag, sem hafði að geyma beiðni um viðtal fyrir íslenskt blað. Tveim dögum síðar hringdi ritari hennar í mig og bauð mig velkomna á heimili Liv tiltekinn dag og fór ég þangað glöð í bragði, ásamt ljósmyndara. Við eyddum drjúgum tíma saman og var Liv bæði hlý og viðræðugóð. Viðtalið við hana, sem varð forsíðuviðtal í Helgarpóstinum, bar titilinn “Fyrsti kærastinn minn var Íslendingur.”
Næsta stórstjarnan, sem varð á vegi mínum var Hollywood leikkonan og Óskarsverðlaunahafinn Goldie Hawn. Það var í brúðkaupi frænku minnar í Washington D.C. en maðurinn, sem hún giftist og Goldie eru náskyld og æskuvinir. Það er ekki auðvelt að þurfa að keppa um athygli við Hollywood stórstjörnu á brúðkaupsdegi sínum og Goldie virðist hafa verið full meðvituð um það. Hún lét lítið fyrir sér fara og um leið og dansinn fór að duna, hvarf hún ásamt ungum syni sínum inn í þvöguna á dansgólfinu og dansaði linnulaust þar til brúðkaupsveislunni lauk.
En frægasta manneskjan sem ég hef haft samskipti við hér í Kalíforníu, er kvenréttindafrömuðurinn og metsölu höfundurinn Betty Friedan. Tímamóta bók hennar, “The Feminist Mystique,” sem kom út árið 1963, hefur selst í milljónum eintaka, en útkoma hennar olli byltingu í lífi margra kvenna. Í kjölfarið var Betty Friedan í forystu fyrir stofnun bandarísku kvenréttindasamtakanna, National Organization for Women, NOW.
Þannig vill til að elsti sonur Betty Friedan er giftur íslenskri konu. Árið 1990 nýttu íslenskar kvenréttindarkonur sér þetta samband og buðu Betty Friedan til Íslands til að halda aðal ræðuna á kvenréttindeginum 19. júní. Magdalena Schram heitin, sem þá ritstýrði kvennaréttinda tímaritinu 19. júní, hafði samband við mig og bað mig að taka viðtal við Betty fyrir blaðið, en Betty dvaldi á þessum tíma á vormisserum í Los Angeles, þar sem hún stýrði hópi kvenna í kynjarannsóknum við Suður Kaliforníu Háskóla. Ég tók þessari umleitan að vonum vel og fékk samstarfskonu mína, Önnu Björnsdóttur, til liðs við mig til að sjá um myndatökur meðan á viðtalinu stóð.
– Og Betty Friedan hafði að vonum frá mörgu mikilvægu og merkilegu að segja.
Þó það hafi verið ánægjulegt að rekast á, eða ræða, við ofan nefndar stjörnur, þá jafnast ekkert á við það, þegar ég sá danska stórleikarann Dirch Passer fyrir framan húsið okkar við Bleeckerstræti í Þorpinu í New York snemma á sunnudagsmorgni árið 1978. Okkur vantaði mjólk í morgunkaffið og ég hafði skotist út til að kaupa hana í búðinni á móti húsinu okkar. Þegar ég kom út blasti Dirch Passer við mér í allri sinni dýrð, en hann hafði staldrað við, hár og spengilegur, á horni Bleeckerstrætis og La Guardiastrætis. Þetta var um haust og hafði ringt um nóttina og var Dirch Passer í hnéháum gúmmístígvélum og í hálfsíðum rykfrakka. Hann var berhöfðaður og lokkarnir þykku á höfði hans stóðu í allar áttir. Ég trúði varla mínum eigin augum og starði dolfallinn á þetta átrúnaðargoð mitt dágóða stund, áður en ég brá mér inn í búðina til að kaupa mjólk. Þegar ég kom út aftur var hann horfinn, floginn burt eins og sjaldséður fugl.
Ég tilheyri síðustu kynslóð íslendinga, sem ólst upp án sjónvarps. En ekki liðum við skort vegna þess, fjarri því. Það leið varla sá sunnudagur sem við systurnar fórum ekki í þrjú bíó. Skemmtilegustu myndirnar, sem í boði voru, þóttu mér alltaf dönsku gamanmyndirnar, þar sem Dich Passer var alltaf í aðalhlutverki.
Það jafnaðist því ekkert á við það að sjá hann þennan haustmorgun í New York, en tveim árum síðan var hann allur, aðeins 54 að aldri. Hann lést 3. september 1980, fékk hjartaáfall rétt í þann mund sem hann var að stíga á svið í trúðaklæðum í Tívóli og lést á sjúkarahúsi í Kaupmannahöfn skömmu síðar. Hann var öllum harmdauði, en hann skildi eftir sig ótrúlegt æviverk, en hann lék alls í 90 kvikmyndum. – Geri aðrir betur!