Vandamál sem oft er ekki gefinn nægur gaumur

„Flest eldra fólk lifir góðu lífi, en fyrir suma er einmanaleiki vandi sem oft er ekki gefinn nægur gaumur“, segir í bæklingi sem, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Öldrunarheimili Akureyrar gefa út. Þar kemur fram að 17-23% Íslendinga eldri en 67 ára, upplifa sig oft eða stundum einmana.

Einmanaleiki getur hitt alla fyrir. Stundum er hann tímabundinn, en á öðrum tímum er hann yfirþyrmandi að því er fram kemur í bæklingnum og grípum niður í hann.

Eldra fólk sem upplifir einmanaleika getur misst frumkvæði, orku og hugrekki til að tengjast öðrum. Þau tala ekki við neinn um hvernig þeim líður vegna þess að þau vilja ekki kvarta og kannski finnst þeim einmanaleikinn vera sjálfskaparvíti.

Það er mikilvægt að nágrannar og aðrir í umhverfi aldraðra átti sig á einkennum einmanaleika að því er fram kemur í bæklingnum og þar er bent á hvað einkennir hópa þar sem lítil hætta er á að menn verði einmana, aðra þar sem hættan er miðlungsmikil og svo hvað einkennir hópinn em er í mikilli hættu á að verða einmana.  Eftirfarandi atriði eru sögð  einkenna þann hóp sem er í mestri hættu.

 • Metur líkamlega heilsu sína sem slæma, fær hugsanlega heimahjúkrun.
 • Hefur uppplifað erfiða reynslu (alvarleg veikindi, árás o.s.frv.)
 • Á alvarlega veikan maka eða maka sem þarf aðstoð og persónulega umönnun.
 • Heyrir illa.
 • Hefur misst maka eða náinn ættingja á síðustu 6 mánuðum.
 • Hefur samband við fjölskyldu og/eða vini 1-2 sinnum í mánuði, í mesta lagi.
 • Gefur til kynna að hann/hún eigi erfitt með að koma sér að verki eða gera hluti.
 • Á í erfiðleikum með að skipuleggja daginn og fylgja daglegri rútínu.
 • Vantar einhvern að tala við ef hann/hún á í vanda eða þarfnast stuðnings

En hvað er til ráða? Það er bent á það í bæklingnum að aldraðir sem upplifa einmanaleika þurfi oft vinsamlega stýringu og hvatningu til að taka þátt í félagslífi og samskiptum við aðra. Sem dæmi um hvað menn geta gert til að aðstoða þann sem er einmana, er þetta:

 • Hjálpað eldra fólki að heimsækja heimasíðu eða útvega upplýsingabækling til að fá yfirlit yfir félagsstarfsemi, samtök og önnur tilboð til aldraðra á svæðinu.
 • Boðist til að fylgja viðkomandi á staðinn í fyrstu skiptin.
 • Hafa samband við félagið/tilboðið og til að tryggja að vel verð tekið á móti viðkomandi. Góðar móttökur skipta miklu máli.
Ritstjórn júlí 24, 2018 09:56