Tengdar greinar

Ekkert land sem framleiðir jafnmikla orku miðað við höfðatölu og Ísland

Stöðugar fréttir berast af orkuskorti á landinu en nú eru vindorkuver áætluð hér víða, mörg nærri tengivirkjum og flutningslínum. Ólafur Sveinsson kvikmyndgerðarmaður hefur gefið sig mikið að virkjanamálum og fjallaði síðasta kvikmynd hans, Horfinn heimur, um stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, Kárahnjúkavirkjun, og áhrif hennar á ósnortna náttúru á Austfjörðum, dýralíf o.fl.

Landvernd hefur unnið að kortlagningu vindorkuvera og litið hefur verið til áhrifa á umhverfið og nágrannalandanna í þeim efnum. Í Noregi hafa vindorkuver ónýtt útivistarsvæði og samkvæmt skýrslu um framkvæmdir við byggingu vindorkuvera í Svíþjóð, hefur verið hætt við nánast allar vindorkuframkvæmdir fyrri hluta árs 2024 en vindorkuver hafa verið rekin þar með stórtapi og hafa fengið miklar ívilnanir. Fram hefur komið að líftími vindorkuvera sé á bilinu frá 20-25 ár, jafnvel styttri vegna áhrifa eins og mikilla rigninga, ísingar o.fl. skv. því sem Andrés Skúlason, verkefnastjóri hjá Landvernd, segir og að vindorkuverin séu ósjálfbær virkjanakostur. Það þurfi 30-40% jafnvægisorku á móti. Hann segir vindorkuna gjörólíka jarðvarmaorku og vatnsorku sem sé stöðug en að um 80% orkunnar fari til erlendra aðila. Það sé því ekki tilviljun að orkuverð hafi hækkað samhliða þessari miklu uppbyggingu vindorkuvera.

Vindorkan óstöðug

 Nú eru  um 40 vindorkuver „á teikniborðinu“ víðsvegar um landið, flest með 10–30 vindmyllum sem eru 150 til 200 metra háar með spaðana í hæstu stöðu og þróunin er sú að þær fara stækkandi að sögn Ólafs. Þeim er ætlað að framleiða allt frá nokkrum tugum MW upp í mörg hundruð MW. Stöðugt sé klifað á nauðsyn þess í fjölmiðlum að byggja verði fleiri virkjanir vegna orkuskorts annars vegar en orkuskipta hins vegar og þar sem hefðbundin vatns- og jarðvarmaorkuver nái fyrirsjáanlega ekki að fullnægja eftirspurninni sé nauðsynlegt að byggja vindorkuver í stórum stíl. Hann telur að ekki sé þörf fyrir á meiri orku fyrir íslenskan iðnað, annað sé í raun áróður en að orkuþörfin sé endalaus fyrir stóriðju enda fari um 90% af nýrri orku til hennar og gagnavera. Gæta verði að fleiri verðmætum eins og umhverfislegum, samfélagslegum og efnahagslegum, vindorkuver séu slæm fjárfesting.

Hversu hagkvæmt telur þú að það sé að fara í vindorku fyrir okkur? „Spurningin er – hagkvæmt fyrir hverja? Eigendur að vindorkuverunum sem verið er að plana, fyrir utan Búrfellslund og Blöndulund, eru langflestir erlendir þannig að ef hagnaður yrði af vindorkuverunum þá færi hann meira og minna úr landi, eins og af laxeldinu og stóriðjunni, fyrir utan leiguverðið á landinu. Það hefur í raun ekki verið gerð almennileg grein fyrir því hvert á að selja þessa orku. Í logni er litla sem enga orku að hafa, meðan vindmyllurnar geta framleitt meiri orku en dreifikerfið ræður við þegar það er hvasst og kaupendur eru fyrir. Til að hægt sé að nýta orkuna frá vindmyllunum fyrir almenna markaðinn og stóriðju verður næg jafnvægisorka sem tryggir örugga orku þegar það er logn að vera til staðar en hún er ekki til á Íslandi. Í raun þyrfti að byggja vindorkuver víða um land til að tryggja sem jafnasta vindorku og vatnsaflsvirkjanir sem settu einungis orku inn á kerfið þegar það skortir orku frá vindmyllunum í því. En það er erfitt að sjá það gerast.“

Hvað hefur verið rætt að gera við þessa orku? „Fyrir utan sölu á almenna markaðinn og til stóriðju, sem er miklum annmörkum háð, eru uppi stór áform um að framleiða rafeldsneyti sem komi í stað jarðefnaeldsneytis, þ.e. bensín, dísel o.s.frv. út af orkuskiptum sem eru áætluð 2040. Þar er rafgreining á vatni til að framleiða vetni fyrsta og dýrasta stigið, því það verður aðeins fjórðungur af orkunni sem notuð er við rafgreininguna eftir þegar því er brennt. Ýmist er áætlað að nýta vetnið beint sem orkugjafa eða einnig unnið köfnunarefni úr loftinu til að búa til ammoníak sem eldsneyti fyrir skip og hugsanlega flugvélar eins og meiningin er að gera í stórum stíl á Austfjörðum, eða því er blandað saman við koltvísýring til að búa til metanól eins og áform eru uppi um í Hvalfirði. Áætlað er að byggja risastóra vindmyllugarða með allt að 100 vindmyllum eða jafnvel fleiri sem tyllt væri upp á fjöll og heiðar fyrir þessi tvö verkefni en auk þess eru fleiri smærri sambærileg verkefni í gangi. Þetta væri í raun ný stóriðja þar sem væntanlegur hagnaður færi beint úr landi, því ekkert þeirra fyrirtækja sem hyggur á framleiðslu rafeldsneytis ætlar að gera það fyrir innlendan markað og fjárfesting erlendis frá væri nauðsynleg. Þar með er allt tal um að Ísland verði sjálfu sér nægt um eldsneyti eftir orkuskipti út í hött. Þar fyrir utan ríkir mikil óvissa um hvaða rafeldsneyti verður ráðandi. Tæknin til að framleiða grænt metanól í stórum stíl á samkeppnishæfu verði er ekki til staðar og  ammoníakið væri líka mjög dýrt. Og hreint vetni hentar ekki mjög víða. Hvernig á að nýta vindorkuna frá öllum hinum vindorkuverunum hef ég hvergi séð útlistað. En það þyrfti auk þess að byggja öflugt dreifikerfi til að flytja orkuna.“

Raforkudreifikerfið á Íslandi ófullkomið

Ólafur segir að raforkudreifikerfið á Íslandi sé mjög ófullkomið. Á Suður- og Vesturlandi upp að Brennimel í Hvalfirði sé það mjög öflugt og einnig frá Kárahnjúkavirkjun til Akureyrar, en sér í lagi milli Akureyrar og Blönduvirkjunar sé það mjög veikt og einnig þyrfti að leggja nýja 220 volta línu frá Blönduvirkjun og yfir á Brennimel. „Það er því ekki nóg að byggja öflugt vindorkuver það þarf líka öflugt dreifikerfi til að geta tekið við og dreift orkunni og vatns- eða jarðvarmavirkjanir fyrir jafnvægisorku. Þannig að kostnaðurinn er miklu meiri en bara sem nemur orkuverunum. Það hefur sýnt sig að það er bæði dýrt að byggja slíkar línur og erfitt að fá leyfi til þess frá sveitafélögum og landeigendum.“

Aðspurður um hvort það fylgi þessum framkvæmdum mikið jarðvegsrask ef vindmyllur verða settar upp segir Ólafur svo vera. „Það er verið að tala um að nánast öll vindorkuver sem eru til alvarlegrar athugunar að reisa séu á hæðum, heiðum eða fjöllum sem eru lítt eða ósnert af mannavöldum þar sem er mestur og stöðugur vindur. Það þarf ekki aðeins að leggja öfluga vegi á svæðin vegna mikilla þungaflutninga heldur líka að hverri einustu vindmyllu, auk stórs vinnuplans kringum þær fyrir krana, efni o.fl. Mjög oft eru vindmyllugarðarnir planaðir á grónu landi, einkum votlendi en einnig mólendi. Þetta geta verið stór svæði, frá nokkrum ferkílómetrum yfir í 40 km² þau stærstu. Það þarf að leggja raflínur að þeim og undirstöðurnar eru engin smásmíði með vindmyllur sem eru 150–200 metra háar með spaðana í hæstu stöðu.  Svo háar vindmyllur á hæðum munu sjást í 40-50 km fjarlægð og þetta er mikið lýti á landslaginu, áreiti og truflandi. Ekki bara á daginn, heldur ekkert síður á nóttunni með blikkandi rauð ljós á toppinum.

Mér finnst að Íslendingar átti sig ekki á verðmætum landsins. Það hefur bæði verið talað um ósnortna náttúru en svo eru það líka andleg og fjárhagsleg verðmæti að hafa þessa víðáttu sem við höfum og sjáum ekki annars staðar í Evrópu. Ég vann sem leiðsögumaður í 13 sumur og kynntist þá landinu. Þessi litla eyja er ótrúlega fjölbreytt, þú þarft ekki að keyra mörg hundruð km til að sjá eitthvað nýtt. Það kemur útlendingum mest á óvart, að þeir upplifa eitthvað nýtt og óvænt á nánast hverjum degi. En ef þú ert kominn með vindmyllur upp um fjöll og firnindi eru það hrein og klár skemmdarverk á landslaginu.“

Ósnortin náttúra geymir margvísleg verðmæti

Andrés Skúlason segir að um 60 kg af eitruðu örplasti puðrist úr vindmyllum árlega í umhverfið, þá séu hafernir sem séu á válista og ránfuglar almennt sérlega viðkvæmir fyrir vindmyllum. Fugladauði sé einnig vandamál Noregi. Hann segir það staðlausa stafi þegar sagt sé að búið sé að koma í veg fyrir fugladauða með ýmsum ráðum, slíkt sé á algjöru tilraunastigi og ekki sannreynt. Vindorkuverin eigi að staðsetja á heiðarlendum sem séu flestar votlendissvæði, síðustu líttsnertu votlendin okkar.

Hver eru áhrif vindorkuvera á dýralíf og annað í náttúrunni? „Það er einkum þrennt sem hefur verið rætt um, það er mikill hávaði af þessu, jarðvegsvinna getur haft áhrif á flæði yfirborðsvatns og á fuglalíf,“ segir Ólafur. „Það er áformað stórt vindorkuver í Dalabyggð en Ásmundur Einar Daðason ráðherra keypti land undir vindorkuver sem er á milli Húnaflóans og Breiðafjarðar. Þarna eru farleiðir hafarna sem eru einstakir á heimsvísu og geta verið í hættu. Norðmenn hafa byggt mikið af vindmyllum en gætt mikillar óánægju með þær. Það eru erlend fyrirtæki sem eiga þetta og lítið sem ekkert verður eftir í Noregi af fjármunum, það hafa líka mörg útivistarsvæði verið eyðilög með vindmyllum auk þess sem þær hafa haft slæm áhrif á fuglalíf, alls hafa fundist um 500 dauðir fugla í nálægð við vindorkuver í Smola.

Íslendingar taka ósnortinni náttúru sem sjálfsögðum hlut en hún er það ekki. Það eru andleg, líkamleg og peningaleg verðmæti sem á þá að fórna enn frekar og fyrir hvað? Að erlend fyrirtæki komi og græði á því? Þetta er hálfömurlegt því það er engin sérstök þörf fyrir þetta fyrir okkur. Það er óendanlega mikil orkuþörf í heiminum ef þú horfir á tölvuverin og gervigreindina. Það eru í raun engin takmörk fyrir því hvað hægt er að selja mikla orku frá Íslandi.“

Borgar þetta sig? „Spurningin er fyrir hverja? Það er með þetta eins og stóriðjuna, það er gríðarlega mikill hagnaður af henni en það verður lítið sem ekkert eftir í landinu. Alcoa græðir á tá og fingri á álverinu fyrir austan en lítið verður eftir af peningum í landinu. Það sama á við um laxeldið og það sama yrði með vindorkuna. Vindorkuverin yrðu meira eða minna í eigu erlendra aðila. Þetta er einfaldlega vondur bisness og minnir á þriðja heiminn og nýlendutímann, lönd sem eru rík af málmum og fleiru og það verður ekkert eftir í landinu.“

Áróður að segja að það skorti orku

Nú er talað um að það sé skortur hér á raforku, hvernig sérðu að við getum mætt því? „Það er engin þörf fyrir þessa orku fyrir íslenskan iðnað eða íslensk heimili, það er ekkert land í heiminum sem framleiðir jafnmikið af orku miðað við höfðatölu og Ísland það hefur verið bent á að það hafi komið mikil orka til viðbótar eftir að Kárahnjúkavirkjun var byggð. Fyrir íslenskan iðnað er ekki þörf á meiri orku, annað er í raun áróður. Þetta er spurning um hvað við ætlum að gera við alla þessa orku. Það er gríðarlegur áróður á Íslandi fyrir því að það sé raforkuskortur sem stafar í raun af því að öll sú viðbótarorka sem er framleidd selst jafnóðum til stóriðju. Þannig að það er ekki hægt að fullnægja þeirri miklu eftirspurn og spurningin er: Er það eitthvað sem Íslendingar eiga að fara eftir eða ekki? Menn hafa líka lofað upp í ermina á sér um hvað hægt er að selja af orku.“

Ólafur segir að eina leyfið sem hefur verið gefið út fyrir vindorkuver sé Búrfellslundur sem hefur verið mótmælt hressilega m.a. vegna þess að vindmyllurnar munu sjást víða að þegar keyrt er á hálendið úr suðri á leið yfir Sprengisand, inn í Landmannalaugar og Veiðivötn eða komið er úr norðri. „Þetta er fyrsta vindorkuverið sem hefur verið leyft og ástæðan fyrir því er að það er mjög hagstætt fyrir Landsvirkjun en þarna eru allir innviðir, það er búið að leggja vegi þarna og þar er mjög öflugt dreifikerfi. Þannig að það er mun minni viðbótarkostnaður þar en annars staðar þar sem er verið að tala um að byggja þessi orkuver. Að auki er næg jafnvægisrorka til staðar og það er jafnvel mögulegt að treina eitthvað vatnið sem veitt er úr Þórisvatni í þær sjö virkjanir sem að eru á Þjórsár-Tungnaár svæðinu og brátt bætist sú áttunda við, Hvammsvirkjun, sem að er líka mjög umdeild. Meginástæðan fyrir því að Landsvirkjun hefur þurft að skammta svokallaða skerðanlega orku á undanförnum árum, sem er orka umfram fasta samninga sem hægt er að kaupa mjög ódýrt ef vel árar í vatnsbúskapnum, er að Þórisvatn hefur ekki fyllst. Landsvirkjun vildi byggja stórt uppistöðulón í Tungnaá sem hefði náð inn í Friðlandið að Fjallabaki til að tryggja nægt vatn, en svæðið var friðlýst í rammaáætlun og slíkt hið sama á við um Norðlingaölduveitu sem að hefði veitt vatninu sem eftir er í Þjórsá í Þórisvatn. Kjalölduveita, sem er nánast ný útgáfa af Norðlingaölduveitu, er nú í biðflokki í rammaáætlun en það er mjög ólíklegt að hún verði samþykkt þó að Landsvirkjun berjist fyrir henni. Þannig að það getur orðið tvöfaldur ávinningur fyrir Landsvirkjun af Búrfellslundi. Meiri orku og sparnaður á vatni úr Þórisvatnsmiðlun,“ segir Ólafur að lokum.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna

Ritstjórn nóvember 2, 2024 07:00