Klæðnaður hefur ævinlega endurspeglað viðhorf og skoðanir samfélagsins. Kynjunum var því lengi vel settar þröngar skorður og beinlínis bannað með lögum að karlar færu í kvenfatnað og öfugt. Konur gátu því til langs tíma ekki leyft sér þann munað að klæðast buxum sem eru án nokkurs vafa allra þægilegasta leiðin til að klæða mannslíkamann.
Ekki er langt síðan það þótti hin versta hneisa ef sást í bera úlnliði eða ökkla kvenna og banni við að konur gengu í buxum var ekki aflétt í Frakklandi fyrr en í febrúar 2013. Hér á Íslandi gekk það nokkuð betur. Þuríður formaður fær reyndar undanþágu sýslumanns til að ganga í buxum við vinnu sína árið 1797, enda sáu flestir skynsamir menn að ekki væri hægt að sækja sjó á árabát íklæddur pilsi. Þrátt fyrir það var ekkert sjálfgefið að leyfið fengist.
Önnur íslensk valkyrja fékk síðar það orð á sig að hafa klæðst buxum þegar mikið lá við. Þetta var Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir sem beitti sér mjög í svokölluðum Elliðaármálum árið 1895. Thomsen kaupmaður taldi sig hafa keypt einkaleyfi á laxveiðum úr ánum og girti því fyrir árósinn með kistum til að fanga í laxinn áður en hann náði að ganga lengra upp í ána. Við þetta voru bændur á svæðinu mjög ósáttir og töldu það brjóta gegn fornum íslenskum lögum um nýtingarrétt hlunninda. Einn þeirra var Benedikt, bróðir Þorbjargar, en hápunktur mótmælanna var þegar laxakisturnar voru mölbrotnar að næturlagi. Strax daginn eftir flaug sú saga um bæinn að þar hefðu verið að verki Þorbjörg ásamt fósturdóttur sinni, Ólafíu Jóhannesdóttur, og hefðu þær klæðst buxum til að geta betur athafnað sig.
Þorbjörg var handtekin vegna þess að sannað þótti að hún hefði átt einhverja aðild að kistubrotunum og dæmd í gæsluvarðhald en sat aldrei inni því fangavörðurinn í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg taldi sig ekki geta sett svo þekkta konu í fangelsi fyrir utan að hún hafði tekið á móti börnunum hans. Hann bauð henni að sitja í gæslu á heimili sínu en úr því varð aldrei vegna anna Þorbjargar við ljósmóðurstörfin. Seinni tíma sagnfræðingar telja ólíklegt að Þorbjörg hafi átt þátt í skemmdarverkinu en það er engu að síður áhugavert að samborgarar hennar hafi talið hana færa um að gera slíkt og að það hafi fylgt sögunni að þær mæðgur hafi verið í buxum í ofanálag.
Pilsin heftu ferðafrelsi
Öldum saman voru pils þó eini leyfilegi klæðnaður kvenna. Varla hefur verið þægilegt að ganga til allrar vinnu í pilsi. Ullarþvottur við árbakka og læki, sláttur á engjum og annar heyskapur er ekki vinna sem hentar pilsklæddum. Konur gripu í þeim tilfellum til þess ráðs að stytta pilsin og binda þau uppi rétt um hnén. Pilsin við íslenska kvenbúninginn voru líka mjög lengi gerð úr vaðmáli, enda veitti ekki af í vetrarkuldum á norðurslóðum. Þessi þykku óþjálu pils voru vissulega einangrandi í frosti en þung og óþægileg í votviðrum, enda eru þess dæmi að konur hafi drukknað í smálækjum vegna þess að pilsin drógu þær niður.
Konur þurftu pilsanna vegna að sitja í söðli á ferð á hestum og það má ímynda sér álagið á hrygginn að sitja allur undinn. Alveg er hugsanlegt að margar konur hafi hikað við að fara í ferðalög vegna þessa. Líklega hefur það því aukið frelsi kvenna til að hreyfa sig til muna þegar lögunum var breytt árið 1892 en þá máttu konur vera í buxum á hestbaki. Árið 1909 var síðan enn rýmkað um lögin og konur geta þá leyft sér að vera í reiðbuxunum á hjólhestum líka.
Úti í heima höfðu konur nefnilega komið auga á það í byrjun tuttugustu aldarinnar að reiðhjólið væri hið ágætasta samgöngutæki. Hjólin þær m.a. til að koma boðskapnum um nauðsyn kosningaréttar og kjörgengis til handa konum sem víðast. Hin bandaríska Amelia Bloomer var bæði hjólreiðamaður og kvenréttindasinni. Hún vildi fyrst og fremst fá að klæðast þægilegum fatnaði og fór því í buxum á hjóli. Aðrar konur tóku þetta upp líka og þessar fyrstu hjólabxur fengu nafnið „bloomers“.
Þetta var heilmikil uppreisn gegn viðteknum venjum og þessar konur fengu að kenna á fordómum samfélagsins. Þær voru stimplaðar lauslátar fyrir að hjóla um í buxum og þar að auki að sitja þá klofvega. Ekki var óalgengt að komið væri fram við þessar konur eins og vændiskonur í Bandaríkjunum. Beggja vegna Atlantsála voru þær sektaðar fyrir að brjóta gegn almennu velsæmi ef til þeirra sást. Þær héldu þó sínu striki og stofnuðu samtök sem höfðu það að markmiði að stefna að því að kvenfatnaður yrði hentugri og þær kölluðu bloomer-fötin kvenfrelsisbúninginn. Þessi fyrsta hreyfing kvenna í átt að frjálslegri klæðnaði var þó skammlíf og enn var talsvert í að pilsin yrðu látin víkja.
Tískan verðu til
Á þriðja áratug síðustu aldar fór efnahagur batnandi og með því varð fatnaður meira en nauðsynjavara og vörn gegn kulda. Menn gátu veitt sér meira í klæðnaði og þar með varð til tíska og stíll. Gabrielle Chanel, sem kallaði sig Coco Chanel, var uppreisnargjörn áhugakona um föt. Hún var lunkin saumakona og hönnuður og hún lagði að margra mati grunninn að þeirri tísku sem við þekkjum í dag. Hún kom þægilegum fatnaði í tísku, var með þeim fyrstu til að ganga í buxum, frelsaði konur úr lífstykkjunum og hóf að framleiða kjóla úr þægilegu ullarjersey-efni sem hafði fram að því aðeins verið notað í nærföt.
Í fyrri heimsstyrjöldinni féll ábyrgðin af því að halda öllu gangandi á heimavígstöðvunum á herðar kvenna og þær klæddust hagkvæmum vinnufötum við vinnu sína. Kjólsíddin styttist einnig stöðugt sem og hárið. Íslenskar konur voru engir eftirbátar þeirra erlendu. Þær fylgdust vel með og á síldarplönum stóðu stúlkur í samfestingum, smekkbuxum og hlífðargöllum og söltuðu, eins og þær ættu lífið að leysa. Konur voru fljótar að finna að allar hreyfingar voru auðveldari í buxum en pilsum og í kjölfarið breyttist sýn konunnar á eigin líkama.
Grannur líkami verður flottur
Til þessa tíma má rekja þá aðdáun sem grannur hraustlegur líkami nýtur í dag. Það, sem áður var kallað „þroskaður kvenleiki”; ávalar mjaðmir, mikil brjóst og grannt mitti hvarf úr móð. Kjólar Charlestone-tímabilsins voru líka beinlínis sniðnir til að draga úr þessum einkennum og fyrstu buxurnar sem Coco hannaði eru fallegri á grönnum mjöðmum en breiðum. Nú á dögum kippa fáir á Vesturlöndum sér upp við að sjá konur í buxum. Baráttan er hins vegar rétt að byrja víða í heimi, eins nýleg mótmæli í Íran vitna um. Nútímakonur geta hins vegar þakkað formæðrum sínum þá staðreynd að þær geta klæðst víðum, þröngum, stuttum, síðum, hálfsíðum buxum í öllum litum og sniðum og víst er það frelsi.
Steingerður Steinarsdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.