Guðrún Pétursdóttir er lífeðlisfræðingur að mennt og er nú prófessor emeritus, prófessor á eftirlaunum, við Háskóla Íslands en hún er fædd 1950. Ef flett er upp fyrir hvað lífeðlisfræðin stendur kemur í ljós að hún tengir líffræði við allar heilbrigðisgreinar eins og læknisfræði, hjúkrunarfræði, sálfræði, lyfjafræði, dýralækningar landbúnaðarfræði og fleiri hagnýtar fræðigreinar. Fyrir marga er lífeðlisfræðin því mikilvægur þáttur í undirbúningi að lífsstarfi og það á sannarlega við um Guðrúnu Pétursdóttur sem segist vera þakklát fyrir að hafa fengið að prófa margt um ævina. Þar hefur menntun hennar nýst vel. En nú er komið að starfslokum og það er verkefni sem kom henni á óvart.
Hætti að vinna í miðju covidtímabili
Guðrún segist ekki hafa áttað sig á því að það yrði erfitt að hætta að vinna, en síðasta ár hennar á vinnumarkaði var 2020 ,,Ég hélt að þetta yrði enginn vandi en í ljós kom að þetta varð mér erfitt,“ segir hún hreinskilin. ,,Það sem villti mér kannski sýn til að byrja með var að covid var búið að loka okkur inni um tíma. Mér þótti spennandi að vera innilokuð og þurfa ekki að fara neitt og sat alltaf með prjónana mína þegar þríeykið kom fram í sjónvarpinu og hlustaði af athygli. Það endað með því að ég var búin að prjóna hosur á þau öll þrjú og senda þeim af því þetta dróst svo á langinn,“ segir Guðrún og hlær. ,,Við vorum allt í einu farin að lifa allt öðruvísi lífi og mér þótti það skemmtilegt til að byrja með. En svo þegar covidtímabilinu lauk, áttaði mig á því að ég var ekki að fara í vinnuna. Ég var allt í einu ekki á leiðinni að hitta fjölda manns á dag eins og ég var vön og þá varð mér dálítið brugðið,“ segir Guðrún.
Vil ekki vera umsáturskona á eftirlaunum
Guðrún segist vera mikil félagsvera og fái mikið út úr alls konar samskiptum við fólk. ,,Mamma sagði um mig að þegar ég var um þriggja ára
aldur og ætlaði að ganga yfir borðstofuna hafi ég beðið eftir einhverjum að ganga með yfir af því það hafi verið miklu skemmtilegra en ganga ein þessa leið,“ segir Guðrún og hlær og bætir við að sá eiginleiki sé enn ríkjandi í fari hennar. Þess vegna hafi kennslan verið svo gefandi fyrir hana, þar sem samskipti við fólk hafi verið mikil. ,,Ég fer einstaka sinnum niður í skóla og nýt þess að hitta fyrrum samstarfsfólk. En ég ætla sannarlega ekki að verða sú sem situr á eftirlaunum á kaffistofunni og gríp næsta mann sem þarf að ná sér í kaffi, allt af því ég er í svo mikilli félagsþörf,“ bætir hún við og hlær. ,,Það tók mig tíma að finna aðra leið til að fá útrás fyrir félagsþörfina og vera sátt en nú er ég komin þangað. Ég er með doktorsnema sem halda mér faglega við efnið og snertir líka mannlega þáttinn því ég á bæði fallegt og gefandi samband við nemendur mína. Þegar upp er staðið eru verkenfnin fjölmörg,“ segir hún og nefnir starf sitt í ,,Hollvini Grensásdeildar“ sem dæmi.
,,Sniglarnir“ ómetanleg viðbót við lífið
Guðrún er stjórnarformaður Hollvinanna en þeir sem vinna með henni í þeirri stjórn gera það allir í sjálfboðavinnu. Við hin njótum góðs af því að nýta krafta og reynslu svo öflugrar manneskju sem Guðrúnar. ,,Vinna mín við Hollvinasamtökin færir mér gefandi verkefni og tengsl við áhugavert fólk. ,,Stjórnin, starfsfólk og skjólstæðingar Grensáss eru öll með tölu yndislegar manneskjur og ég nýt þess svo vel að kynnast fjölbreyttu fólki. Sem dæmi myndi ég varla hafa kynnst Bifhjólasamtökum Lýðveldisins, Sniglunum, ef ég væri ekki í þessari stjórn,“ segir Guðrún og brosir. ,,Það er örugglega ekki hægt að hafa skemmtilegra fólk í sínu liði en Sniglana. Ég verð svo montin þegar fram hjá mér þýtur manneskja á mótorhjóli og veifar til mín. Þá er þetta Snigill á ferð. Það er alltaf einn úr Sniglunum í stjórn hjá okkur og þegar við höldum basar til fjáröflunar fyrir Grensás, þá er okkar stjórnar-Snigill, Baddi eða Baldvin Jónsson, alltaf með. Baddi mætir með strákinn sinn og vin og þeir baka vöfflur fyrir okkur. Þegar dóttir mín, Marta, var um 15 ára kom hún blaðskellandi til mín og sagði: ,,Mamma, þú verður að koma fram í eldhús. Þar eru menn, sem eru tattóveraðir frá litla fingri upp í eyrnasnepil, í leðurgalla með litlar rauðar svuntur að baka vöfflur.“ Það lá við að við gætum selt aðgang að því að horfa á þá,“ segir Guðrún og hlær.
Var sein til að eignast börn
Eiginmaður Guðrúnar var Ólafur Hannibalsson og eignuðust þau tvær dætur. Ólafur var 15 árum eldri en Guðrún og lést árið 2015. Þau eignuðust dæturnar seint en Ólafur átti þrjú börn frá fyrra hjónabandi en Guðrún var barnlaus. Hún segir að örlögin hafi hagað því svo að systir hennar hafi líka eignast sín börn seint svo þær urðu samferða og eignuðust hvor tvær dætur sem allar voru fæddar á árunum 1987 – 1992. ,,Það var ómetanlegt að við skyldum vera samferða í barneignunum og að mamma okkar skyldi lifa það að eignast loksins fjórar litlar hnátur. Þær eru auðvitað bestu vinkonur og nú á eldri dóttir okkar Ólafs tvær litlar stelpur og systurdóttir mín tvo stráka á sama aldri. Sem betur fer átti Ólafur þrjú börn af fyrra hjónabandi og þar eru komin sjö barnabörn sem ég nýt ríkulega að fylgjast með. Svo kasta ég eign minni á börn sem verða á vegi mínum og á þar nokkur ömmubörn,“ segir Guðrún og brosir.
Skemmtilegasti maður í heimi
Þau Guðrún og Ólafur áttu saman 28 ár áður en hann lést. Guðrún segir að Ólafur hafi verið skemmtilegasti maður í heimi og segir brosandi að hann sé örugglega sá eini sem hefði getað afborið að vera giftur henni. ,,Ólafur sat svo vel í sjálfum sér að það truflaði hann ekki að eiga svona framtakssaman dugnaðarfork, svo ég tali nú af mestu hógværð um sjálfa mig,“ segir Guðrún. ,,Sumir menn þola það ekki, en Ólafi þóttu lætin í mér skemmtileg. Ef ég stakk upp á einhverju var hann alltaf til í að taka þátt. Meira að segja þegar ég stakk upp á að fara í forsetaframboð sagði hann strax: ,,Já, láttu bara á það reyna.“ Þegar ég átti rétt á rannsóknarleyfi frá kennslu í Háskólanum, á sex ára fresti, var hann alltaf til í einhver ævintýri. Ég bað hann oft að stinga upp á spennandi stað, kom mér upp samböndum þar og svo dvöldum við á óvæntum stað í nokkra mánuði í senn, eins og Norðurlöndum, Róm, Costa Rica og Ástralíu. Við Ólafur
unnum að okkar málum og stelpurnar fóru í skóla á staðnum þegar það átti við. Þetta víkkaði sjóndeildarhring okkar allra.“
Segist vera efnahvati
Guðrún segir að þegar hún líti til baka sé hún þakklát fyrir að hafa fengið að prófa svo margt. ,,Ég áttaði mig á því fyrir nokkrum árum að ég
er í rauninni ,,ensím“ eða efnahvati,“ segir Guðrún og brosir. ,,Efnahvatar eru prótein sem tengja saman hin ýmsu efni og flýta fyrir efnaskiptum. Þegar ensím er búið að tengja saman efni smokrar það sér út úr heildinni og fer að tengja saman eitthvað annað. Það tekur langan tíma að átta sig á því hver maður er, ég áttaði mig á þessu fyrir nokkru, og er sátt við þessa skilgreiningu á sjálfri mér.“ ,,Mér þóttu unglingsárin sannarlega ekki skemmtileg og líki því ekki saman hvað það er miklu auðveldara að vera fullorðin. Maður er svo óöruggur sem ung manneskja, sífellt að spegla sig í öðrum. Ég man hvað óvinsamleg orð gátu eyðilagt fyrir mér langan tíma. En nú, þegar þriðja aldursskeiðið er hafið, sit ég betur í sjálfri mér. Og nú get ég valið hverja ég vil umgangast og alls staðar er áhugavert fólk,“ segir Guðrún.
Ótrúlega skemmtilegt að kenna ungu fólki
Guðrún kenndi lífeðlisfræði við heilbrigðisgreinarnar en staða hennar var lengst af við Hjúkrunarfræðideild þar sem hún kenndi lífeðlisfræði og fósturfræði. ,,Sú staða stendur hjarta mínu næst,“ segir Guðrún. ,,Ég hef alltaf haft gífurlega gaman af að kenna og þykir ómetanlegt að fá að hafa áhrif á ungt fólk. Þá finnst mér ég hafa fingurinn á púlsinum og unga fólkið smitar mig af eigin krafti og lífssýn. Ég tímdi aldrei að hætta að kenna þótt aðalstarfsvettvangur minn flyttist yfir á Sjávarútvegsstofnun Háskólans árið 1995. Sú stofnun sinnti rannsóknum og kennslu á sviði sjávarútvegs með þverfræðilegum hætti og spannaði líffræði, haffræði, fiskifræði, félagsfræði sjávarplássa, hagfræði, stjórn auðlinda og ýmislegt fleira.. Starfssvið stofnunarinnar var síðan víkkað og varð að Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun. Þá komu fleiri auðlindir inn eins og orkan og ferðamennskan. Það er nánast hægt að setja alls kyns verkefni undir sjálfbærni og við sinntum mjög fjölbreyttum verkefnum. Af því að ég kom úr heilbrigðisfræðunum, var töluverð áhersla lögð á rannsóknir á áhrifum umhverfisins á fólk, til dæmis loftmengun sem nú er farið að tala mikið meira um í heiminum.“
Fengu styrk upp á hálfan milljarð
Guðrúnu er töluvert niðri fyrir þegar hún ræðir málefni sem standa henni nær, eins og sjálfbærni. ,,Við höldum að á Íslandi höfum við hreinasta loft í heimi en það er sannarlega ekki svo. Áhrif umhverfisbreytinga gerast svo hægt að fólk á erfitt með að átta sig á því og trúa. Þar má nefna áhrif hnattrænnar hlýnunar sem eiga sér stað hægt. Við náttúruhamfarir breytist umhverfið hins vegar hratt, og við höfum notað slíkar rannsóknir til að varpa ljósi á áhrif umhverfisbreytinga á fólk. Við fengum mjög góðan styrk til slíkra rannsókna frá Norrænu ráðherranefndinni árið 2015 sem veitti okkur um hálfan milljarð króna til að framkvæma röð rannsókna sem öll norrænu ríkin tóku þátt í. Að þessu komu 15 stofnanir á Norðurlöndum og samtals 65 formlegir þátttakendur. Í höfuðstöðvunum í Ósló komu upp efasemdir um að hægt væri að halda utan um 65 manns í einu. En við treystum okkur til þess og vissum að við yrðum að sjá til þess að samskiptin væru lipur og engir veggir reistir. Ef upp kæmu vafaatriði skyldum við taka upp símann og ræða við þann sem við ætti, í stað þess að skrifa leiðinlegan netpóst sem myndi týnast í netpóstaflóðinu sem fólki berst. Hreinsum allan misskilning strax! Þetta gekk eins og í sögu. Verkefnið var kallast NORDRESS og fjallar um seiglu samfélaga gagnvart náttúruhamförum. Það var unnið á árunum 2014 til 2021 en við erum enn að hnýta lausa enda.“
Heimildamynd í stað leiðinlegrar skýrslu
,,Við erum í raun enn að ganga frá lokaafurðinni. Við fengum þá hugmynd að í stað þess að skrifa hefðbundna skýrslu, skyldum við biðja um leyfi til að búa til heimildamynd um verkefnið. Við fengum Þóru Arnórsdóttur í lið með okkur og í fyrra fórum við, ásamt Eiríki Inga Böðvarssyni, og tókum viðtöl við heimamenn, sveitarstjórnendur og vísindamenn á Norðurlöndum um náttúruhamfarir á ákveðnum svæðum. Í hverju felst þessi náttúruvá og hvað er hægt að gera til að draga úr skaða af völdum hennar. Myndin er langt komin, verður í tveimur þáttum og væntanlega sýnd á norrænu ríkisstöðvunum og mögulega víðar. Svona heimildamynd er mörgum sinnum áhrifameiri en þurr skýrsla um það sem gert var. Myndin er ekki upptalning á hamförum og hryllingi, heldur er gerð grein fyrir því sem getur gerst af völdum náttúrunnar og hvernig hægt er að búa samfélög sem best undir að takast á við þá ógn. Þetta er spennandi viðfangsefni sem kemur okkur öllum við“.
Fjársjóðurinn í eftirlaunahópnum
Guðrún er ein af þeim sem er komin á eftirlaun en nýtir krafta sína áfram til að betrumbæta samfélag okkar. Vinnustundir sem fólk í hennar stöðu leggjur inn eru fjölmargar og víst er að ekki nógu margir leiða hugann að þeim verðmætum. Hún er ekki ein um þetta og mikið væri gott ef ráðamenn áttuðu sig á þeim fjársjóði betur en gert er.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.