Hækur Guðmundar Andra Thorssonar komu nýlega út í lítilli fallegri bók sem heitir Hæg breytileg átt. Er hægt að hugsa sér eitthvað íslenskara en einmitt hana, þessa hægu breytilegu átt? Kannski suðvestan áttina, eða suðaustanáttina.
Hæka er fornt japanskt bragform. Hún er þrjár línur. Fyrsta línan er fimm atkvæði, næsta sjö atkvæði og sú síðasta fimm. Efni hækunnar á að tengjast náttúrunni og innihalda eitt orð sem tengist árstíðinni þegar hún er ort. Þær eru ekki rímaðar. Efni hæku er yfirleitt tvær einfaldar upplifanir á náttúrunni.
Guðmundur Andri leikur sér í hækunum með vindáttirnar en einnig sólina, rigninguna, frostkalt hrím og hversdagslífið . Hér eru nokkur meistaraleg dæmi um vindinn og hækurnar.
Ég berst ekki mót
þessari suðaustanátt.
Ég berst með henni.
Ljóðlínur ferðast,
með hægum austanáttum
um himinblámann.
Hann er á austan,
þyrlast lauf og svigna tré.
Ég faðma vindinn.
Vanstillti vindur,
þú vekur mig og veitir
skjól fyrir logni.
Allt er sjálfkrafa,
hreint og beint og létt og satt.
Hæg breytileg átt.