Ég tel hyggilegt að menn bíði ekki of lengi með að minnka við sig húsnæði“, segir Sverrir Kristinsson fasteignasali hjá Eignamiðlun. Það er í fyrsta lagi vegna þess að það fylgja því mikil þægindi að flytja úr stóru einbýlishúsi í blokk, þar sem er lyfta, bílageymsla og jafnvel húsvörður. Fólk þarf ekki að hugsa um viðhald eða umsjón á sameign og lóð“, segir Sverrir.
Reksturinn verður þungur
Hann segir að í öðru lagi geti verið kominn mikill rekstrarkostnaður á einbýlishúsið, það séu opinber gjöld, allur rekstur hússins sé líka íþyngjandi. Þá þurfi stöðugt að vera að hugsa um að halda eigninni við, ef hún eigi að halda sér í verði. Það sé miðað við að kostnaður við viðhald sé um 1.5% af fasteignaverðinu á ári.
Hægt að losa fé
Það þriðja sem Sverrir nefnir sem ástæðu fyrir að það sé hyggilegt að flytja fyrr en síðar úr stóra húsinu, er að þegar fólk hættir störfum eru margir sem hafa ekkert of há eftirlaun. Með því að selja stóra eign og minnka við sig, er hugsanlegt að losa fé til að láta drauma sína rætast, fara í ferðalög, endurnýja bílinn, losa sig við fjárhagsáhyggjur og jafnvel aðstoða börnin.
Sverrir segir að sumir kjósi líka að minnka við sig og kaupa sig inn í fjölbýli þar sem er boðið uppá þjónustu. Mat og félagsskap. Það geti verið öryggi í því þegar menn eldast og eru ef til vill orðnir einir.
Mikið úrval íbúða
Vandaðar íbúðir sem nú eru í sölu og henta eldra fólki, er t.d. að finna í Skuggahverfinu, Mánatúni, Stakkholti og Hrólfsskálamel. Þetta eru yfirleitt vandaðar íbúðir, margar stærðir og ýmsir verðflokkar.
Íbúðir á breytilegu verði
Selji fólk einbýli eða raðhús og kaupi dýrari eign segir Sverrir að í slíkum tilvikum sé hugsanlegt að taka lán, sem dreifist á langan tíma. Hugsanlega vilji líka einhverjir sem eiga varasjóð taka af honum og nota við kaupin. En menn þurfa að sníða sér stakk eftir vexti. „Ef fólk er ekki að binda sig við ákveðna staði, eru fleiri kostir í boði og verðið breytilegra“, segir Sverrir að lokum.