Ekki fleiri Stefnumót

 

Svanhildur Jakobsdóttir söngkona hefur nú verið á sínu síðasta „stefnumóti“ við hlustendur Rásar eitt, en hún var með síðasta þáttinn sinn  Stefnumót í gær.  Eldri þættir verða samt áfram sendir út á laugardagskvöldum í september, en þá hafa Sefnumótsþættirnir sem hafa verið sendir út á mánudögum, verið endurteknir.

Svanhildur hóf störf á tónlistardeild Ríkisútvarpsins fyrir 27 árum. Fljótlega fór hún í þáttagerð og hefur verið með tónlistarþáttinn Stefnumót í hverri viku árum saman. Auk þess er Svanhildur með óskalagaþáttinn Óskastundina, en þar eru fluttar kveðjur frá hlustendum ásamt lögum sem þeir velja. Sá þáttur verður áfram á dagskrá á föstudögum. Það kom Svanhildi nokkuð á óvart að Stefnumótaþátturinn skyldi tekinn af dagskrá, vegna þess að hann hefur verið meðal þeirra þriggja þátta sem mest er hlustað á á Rás eitt, samkvæmt hlustendakönnunum. Hinir þættirnir eru Óskastundin sem áður var nefnd og Litla flugan í umsjá Lönu Kolbrúnar Eddudóttur.

Svanhildur segir að nýir stjórnendur Ríkisútvarpsins séu að gera breytingar á útvarpinu. Hún viti ekki hvað komi í staðinn fyrir þáttinn Stefnumót, en telur brýnt að hlusta á elsta hlustendahópinn sem sé dyggustu hlustendur Rásar eitt. „En enginn þáttur er ómissandi og enginn dagskrárgerðarmaður heldur“ segir Svanhildur sem segist bíða spennt eftir að sjá hvað komi í staðinn.

Ritstjórn ágúst 26, 2014 16:34