Það er mikil óvissa á fasteignamarkaði og vextir háir þessi misserin. Margir vita ekki hvort þeir eigi að halda að sér höndum við þessar aðstæður, eða ekki. Ásdís Ósk Valsdóttir eigandi fasteignasölunnar Húsaskjóls segir að þrátt fyrir að fyrirsagnir fjölmiðla segi að markaðurinn stefni lóðbeint í frost, sé það hennar reynsla eftir 20 ár í faginu, að þetta sé oft besti tíminn til að kaupa. „Það er meira úrval af eignum og góðir kaupendur geta oft gert góð kaup ef þeir eru alveg tilbúnir, þar sem seljendur eru oft tilbúnir að taka lægra tilboði ef það er fyrirvaralaust, það er að kaupandinn eigi hvorki eftir að selja né fara í greiðslumat”.
Hvað eiga þeir sem vilja minnka við sig að gera?
„Þannig að ef fólk á eftir að kaupa og selja, mæli ég alltaf með því að selja fyrst og fá frekar langan afhendingartíma”, segir Ásdís. En hvað með þá sem eru að minnka við sig, hvað eiga þeir að hennar mati að gera við þessar aðstæður? „Það er ekki spurning að eldra fólk með stór einbýlishús á að nýta ástandið og selja núna og ef það getur beðið með að kaupa. Þá gæti það verið sniðugt fyrir þá sem eiga sumarbústað að vera þar í sumar eða vera erlendis í nokkra mánuði”, segir hún.
Frekari lækkanir í kortunum
Ný greiningarskýrsla er komin í loftið á vef Húsaskjóls. Fyrirsögn hennar er Markaðurinn nálgast frostmark. Hér eru helstu punktarnir úr henni:
- Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur nú lækkaði að nafnvirði milli mánaða þrjiða mánuðinn í röð, lækkunin nemur þó aðeins 1,4% í heildina. Ef miðað er við 4 mánaða breytingu hefur verðið ekki lækkað jafn mikið á 4 mánuðum síðan árið 2010.
- Í janúar voru undirritaðir innan við 300 kaupsamningar en færri kaupsamningar hafa ekki verið undirritaður í stökum mánuði síðan árið 2011.
- Á sama tíma og lítið selst vex fjöldi þeirra fasteigna sem er til sölu ört. Fjöldinn hefur farið úr 450 eignum á skrá í febrúar í fyrra, í 2090 eignir á skrá í byrjun mars á þessu ári. Núverandi fasteignaverð og vaxtastig hafa því leitt til pattstöðu á fasteignamarkaðnum.
- Út frá tóni peningastefnunefndar og nýjustu verðbólgutölum má vera öllum ljóst að frekari vaxtahækkanir eru framundan.
- Pattstaða fasteignaverðs og vaxta mun því ekki leysast með vaxtalækkunum. Í raun benda öll ljósin í mælaborði fasteignamarkaðarins til að fasteignaverð muni lækka frekar
Hér má sjá greiningarskýrsluna í heild.