Tengdar greinar

Maður starði agndofa á eldinn

Helgi Gíslason

„Það var mikilvægt að okkar brenna væri stærri en Borgarbrennan“, segir Helgi Gíslason myndhöggvari sem safnaði í brennu í Laugarneshverfinu á hverju ári, þegar hann var að alast þar upp fyrir rúmri hálfri öld. Hann segir að það hafi verið tilhlökkunarefni á hverju ári að safna í brennuna milli jóla og nýárs. Aðallega voru það strákar sem söfnuðu í brennuna, þó það kæmi fyrir að stelpur tækju líka þátt.  Helgi ólst upp á Hraunteig og brennan sem strákarnir þar í kring söfnuðu í, var upp í Görðum, eins og það var kallað, en þar standa í dag Laugardalslaugin og World class líkamsræktarstöðin. Borgarbrennan var hins vegar þar sem Laugardalshöllin er núna.

Brennan hafði allan forgang

„Það var gríðarleg stemming í kringum þetta. Það voru allir vaktir og sofnir yfir þessu. Það var safnað fram á rauðakvöld, allir fengu að vera úti. Það var allt látið víkja, brennan hafði allan forgang. Það var alltaf kalt, manni var alltaf ískalt á höndunum. Við söfnuðum byggingarefni, en það var verið að byggja þarna alls staðar. Við fórum um eins og ryksugur og tókum allar spýtur sem lágu þarna. Þetta var fyrir tíma Sorpu, og mikið timbur sem lá hér og þar, afgangsspýtur sem annars áttu að fara á haugana. Það var líka gengið hús úr húsi til að athuga hvort eitthvað væri til sem þyrfti að brenna“, segir Helgi þegar hann rifjar upp þessa tíma, þegar börn söfnuðu í áramótabrennur í Reykjavík.

Setið um vörubíla

Það var stórhugur í strákunum í hverfinu sem höfðu það helsta markmið að brennan þeirra yrði stærri en Borgarbrennan og voru jafnvel svo djarfir að sitja fyrir vörubílum sem voru á leið með eldivið í Borgarbrennuna, stöðva þá og biðja um að farminum yrðu gaukað að þeim. „Bílstjórarnir höfðu gaman af þessum ákafa og þá stækkaði brennan okkar“, segir Helgi. Það var líka setið um vörubílstjórana í hverfinu þegar þeim komu heim í mat, til að fá að tína spýtur og annað uppá pallinn, sem þeir óku svo á brennuna eftir matinn.

Gersemi að fá nótabát

Eitt og annað féll til sem munaði um á brennuna, svo sem stór trékefli sem höfðu verið notuð fyrir símakapla.  „Það þótti gulls ígildi að fá slíkan eldsmat. Þetta var handlangað upp þannig að brennan yrði stór og stæðileg. Þetta var gert af mikilli umhyggju og nákvæmni. Það var ekki sama hvernig þessu var staflað upp, kösturinn átti að vera hár og fallegur“. Helgi segir að það hafi líka tíðkast að brenna gamla nótabáta. Strákarnir á Hraunteig fengu nótabáta frá Kirkjusandi, en þar voru bátasmíðar. „Það þótti gersemi að fá nótabát í brennuna. Það fór stór hópur að sækja bátinn sem var dreginn eftir götunum á kranabíl“, segir Helgi.

Kveikt í brennunni of snemma

Olíufélagögin útveguðu olíu á brennurnar og strákarnir í Laugarnesinu fengu sinn skammt.  Bleytt var í kestinum seinni part dags á gamlársdegi. „ En þá gerðist það oftar en ekki, að það var kveikt í brenninni alltof fljótt. Við fórum heim í kvöldmat, en það átti að kveikja klukkan átta. Svo spurðist út að brennan stæði í björtu báli, löngu áður en kveikja átti í henni. Við urðum óskaplega vonsviknir þegar einhver kveikti í brenninni af ótuktarskap, það var enginn úr okkar hópi sem gerði það og oftar en ekki einhver fullorðinn. Það þótti okkur verst“, segir Helgi. Hann segir að samkeppnin milli þeirra sem stóðu að brennunum hafi verið mikil. „Við kveiktum í okkar brennu á undan Borgarbrennunni. Það voru þeir sem söfnuðu og fjölskyldur þeirra sem komu á brennuna. Það var mikilvægt að safna í brennuna og horfa svo á hana brenna“.

Maður beið eftir þessum eldi

Strákunum þótti bæði skemmtilegt og  mikilvægt að safna í brennuna. „Þetta var svo mikilvægt í skammdeginu og merkilegt að það væri hægt að kveikja svona mikið bál. Maður starði agndofa á eldinn. Það var ekkert sjónvarp og engar tölvur í þá daga. Maður beið eftir þessum eldi og við horfðum á brennuna sem við höfðum sjálfir safnað í, þetta var okkar bál, við höfðum unnið fyrir þessum eldi sem lýsti upp skammdegið.  Þetta var leyft einu sinni á ári, við reyndum að safna eins miklu og hægt var í kuldanum og helst vera með stærri brennu en Borgarbrennuna. Tilhlökkunin að horfa á eldinn á gamlárskvöld hélt okkur gangandi. Þetta var það eina sem lýsti upp skammdegið“, segir Helgi.

Skiparakettur þóttu undur og stórmerki

Sprengiefnið á þessum árum var mun fábreyttara en nú er. Það voru skiparaketturnar sem þurfti að endurnýja einu sinni á ári, sem þóttu merkilegastar. Skipsstjóri sem tengdist einhverjum bátnum var vinsæll og átti stærstu raketturnar, sem fóru miklu hærra en aðrir flugeldar. „Þetta voru stórar sólir sem svifu hægt til jarðar. Við vissum hvar skipsstjórarnir bjuggu og þangað var farið og reynt að vera nálægt þegar verið var að sprengja þær. Þetta þóttu undur og stórmerki í þá daga. Svo vorum við að gera tilraunir með hvellhettur, það var sóthættulegt og við vorum heppnir að enginn slasaðist. Síðan voru það kínverjarnir sem við keyptum í sjoppunni hjá Halla“, segir Helgi að lokum, um þá  löngu liðnu tíð að það sé helsta verkefni Reykvískra barna að safna í brennur um áramót.

 

Ritstjórn desember 30, 2018 14:35