Eldri borgarar fái að velja milli 2ja til 3ja rétta

 

Mexíkóski rétturinn og apríkósugrauturinn

Blaðamaður Lifðu núna brá sér í mat á Vitatorgi, hjá eldhúsi Reykjavíkurborgar. Á matseðlinum var mexíkóskur nautahakksréttur og apríkósugrautur á eftir.  Maturinn smakkaðist vel, en fjöldi fólks var að borða í matsalnum. Að jafnaði snæða á bilinu 170-300 manns þarna á  á virkum dögum. En á Þorláksmessu voru um 400 manns í hádegismat á Vitatorgi, og tók borðhaldið um klukkustund. Auk þess er eldað á Vitatorgi, fyrir 15 eldhús í félagsmiðstöðvum borgarinnar vítt og breitt, en þangað er maturinn sendur með bílum.  Þeir sem ekki eru rólfærir fá svo senda matarbakka heim, en það eru um 300 manns. Samanlagt er eldað á Vitatorgi fyrir um 1200 manns á föstudögum.

Kökunni er skipt í 1200 bita

Eldað í 300 lítra pottum

Það er ekkert smá mál, að elda mat fyrir svona marga, eins og hægt er að ímynda sér. Arnór Gauti Helgason sem er nýráðinn kokkur í eldhúsinu, sagðist hafa verið að baka súkkulaðiköku fyrir 1200 manns. Það hljómar ótrúlega fyrir þann sem bakar að staðaldri fyrir 4-6, en kakan sem við fengum að smakka var mjög ljúffeng. Hún verður með matnum á föstudaginn. Það fóru 540 egg í kökuna, 45 kg. af sykri og 12 kg. af smjöri, auk fleiri hráefna að sjálfsögðu. En svona eru stærðirnar. Pottarnir í eldhúsinu taka 300 lítra.

Allir geta keypt mat á Vitatorgi

Það geta allir borðað á Vitatorgi, en það eru eingöngu öryrkjar og eldri borgarar sem fá matinn niðurgreiddan. Ef einstök máltíð er keypt borgar þessi hópur 775 krónur, en þeir sem eru í áskrift kaupa matarmiða og greiða 710 krónur fyrir máltíðina. Ef aðstandendur vilja borða með eldri foreldrum, eða fólk vill bjóða börnunum sínum í mat, kostar máltíðin 1230 krónur fyrir það fólk. Sjá matseðil vikunnar með því að smella hér.

Nætursöltuð ýsa klikkar ekki

Eyjólfur Elías Einarsson

Eyjólfur Elías Einarsson tók við sem forstöðumaður á Vitatorgi fyrir einu og hálfu ári. Fyrir þann tíma vann hann á hjúkrunarheimilinu á Droplaugarstöðum, en hafði þar á undan unnið um tíma á Vitatorgi og þekkti því starfsemina þar. Hann segir starfið mjög fjölbreytt og skemmtilegt og finnst gaman að takast á við verkefni, þar sem þarf að bæta hlutina.  Hann segir skoðanir fólks á matnum náttúrulega alls konar. „Sem betur fer er langstærsti hópurinn sáttur og glaður með matinn. Við höfum lent í skakkaföllum, til dæmis með hráefni sem ekki stóðst væntingar, en það er undantekning að það gerist. Stundum höfum við verið of framúrstefnuleg í matargerðinni fyrir þennan hóp, þá erum við búin að athuga hvernig það gengur“, segir hann og bætir við að fólk sé mismunandi hrifið af kjúklingi, svínakjöti, karfa eða ýsu. Raunar kom það í ljós daginn áður en við heimsóttum eldhúsið, að nætursöltuð ýsa féll í góðan jarðveg, hjá þeim sem venja komur sínar í mat á Vitatorgi.

Ýmislegt á döfinni í eldhúsinu

Matsalurinn Vitatorgi

Eyjólfur segir ýmsilegt á döfinni í eldhúsinu. Fólkið sem borði hjá þeim sé á mismunandi aldri, allt niður í 25 ára og svo uppúr. „Þetta er breitt aldursbil, fólk hefur misjafnar þarfir og mismunandi smekk í mat. Næringarinnihald matarins skiptir líka miklu máli, en við erum með næringarfræðing sem vinnur í matseðlunum okkar. Við viljum reyna að koma því á að það verði hægt að velja milli 2ja til 3ja rétta með ákveðnum fyrirvara og horfum til Danmerkur og Kaupmannahafnar í því sambandi. Þar er til dæmis hægt að panta aukalega smurt brauð og grauta. Við hérna á Vitatorgi uppfyllum 30% af næringarþörf dagsins hjá fullorðnu fólki. Það hefur komið til tals að bjóða uppá matarkörfur sem fólk getur þá óskað eftir að fá aukalega. Sumir eiga orðið erfitt með að taka til matinn, smyrja brauð og þess háttar. Þá er gott að fá það tilbúið, til að menn nærist og verði ekki vannærðir. Við höfum fengið jákvæð viðbrögð við þessu hjá pólitíkinni. Það er verið að skoða þetta, enda samræmist þetta fyrirkomulag nýrri matarstefnu borgarinnar sem var kynnt í vor“.

Matarafhending eykur öryggi í heimahúsum

Eitt af því sem Eyjólfur hefur unnið að því að breyta er afhending matarins í heimahúsum. Maturinn var áður keyrður út af verktökum, sem fengu greitt fyrir hverja afhendingu, en það varð þeim hvati til að afhenda sem flestar máltíðir á sem stystum tíma. Nú eru það starfsmenn Reykjavíkurborgar sem keyra út matinn og afhenda hann fólki persónulega. „Við reynum að skilja ekki eftir mat, nema honum sé veitt viðtaka“, segir Eyjólfur.  Hann segir blaðamanni nýlegt dæmi af konu, sem kom ekki til dyra til að taka við matnum, þegar bankað var hjá henni. Aðstandendur hennar höfðu beðið um að vera látnir vita ef slíkt gerðist og hringt var í þá. Það kom í ljós að konan lá fótbrotin í íbúðinni og komst hvorki til dyra, né í síma. „Þannig er matarafhendingin ákveðið öryggiseftirlit í leiðinni og fólk er þakklátt fyrir það“ segir hann.

Eldhúsið er að springa utan af starfseminni. Hér er Eyjólfur við 300 lítra pott

Tímabært að endurnýja eldhúsið

Nýir tímar útheimta nýja þjónustu. „Okkur vantar nýtt eldhús, þetta er sprungið“, segir Eyjólfur.  „Ef við ætlum að fara í breytingar, elda matinn frá grunni og taka upp val milli rétta, þurfum við fleiri potta og betri aðstöðu. Við getum heldur ekki við núverandi aðstæður, boðið uppá sérfæði fyrir fólk sem þarf á slíku að halda. Landsspítalinn fær til dæmis til sín fólk sem er vannært og fer í að byggja það upp. Svo útskrifast fólk af spítalanum og þá tekur ekkert við. Það vantar eftirfylgd í svona tilvikum. Og til þess að útbúa mat fyrir fólk með ofnæmi eða fæðuóþol, þarf að vera með sérstaka aðstöðu, þannig að ekki verði krossmengun í eldhúsinu“.  Nýtt húsnæði fyrir eldhúsið er á áætlun fyrir árið 2020, en Eyjólfur segir afar kostnaðarsamt að innrétta það og búa nýjum tækjum.

Smelltu hér á Upplýsingabanka Lifðu núna til að sjá þjónustu Reykjavíkurborgar við eldri borgara.

 

 

 

Ritstjórn október 4, 2018 08:56