Kjúklingur í púrtvínssósu

Kjúklingur er hráefni sem gaman er að leika sér mér og fellur flestum í geð, bæði þeim sem eru að hugsa um heilsuna og kílóin því kjötið er magurt og margar hráefnistegundir fara vel með sem meðlæti.

4 kjúklingabringur, sneiddar eftir endilöngu

1 tsk. paprikuduft

1 msk. ferskt tímían

nýmalaður svartur pipar

6 vorlaukar, snyrtir

4 meðalstórar gulrætur, skornar eftir endilöngu

Sneiðið kjúklingabringurnar eftir endilöngu þannig að úr hverri bringu verði tvær sneiðar. Heil bringa er of mikill matur fyrir suma svo gott er að þeir sem borða mikið geti valið um meira kjöt en hinir valið hálfa bringu. Auk þess er auðveldara að sjá hvenær bringurnar eru steiktar í gegn. Blandið kryddinu saman og sáldrið yfir kjötið og setjið til hliðar. Sjóðið gulrætur og vorlauk saman í 5 mínútur, takið úr vatninu og leggið til hliðar.

Sósan:

3 dl púrtvín

1 1/2 dl vatn

1 askja sveppir, sneiddir

2 skalotlaukar, fínt skornir

2 hvítlauksrif, marin

svartur pipar, nýmalaður

1 sveppateningur

3 dl matreiðslurjómi

Hellið púrtvíni og vatni í pott og látið suðuna koma upp. Bætið sveppum, lauk og hvítlauk út í og kryddið með salti  og pipar, látið sveppateninginn út í. Látið sósuna malla saman við vægan hita í 30 mínútur eða þar til hún hefur soðið niður um u.þ.b. 1/3. Bætið rjómanum út í  og látið sjóða um stund saman. Setja má maizena mög út í ef fólk vill þykkari sósu en það er ekki nauðsynlegt. Margir kjósa að hafa sósuna þunna.

Steikið bringurnar á rifflaðri pönnu eða grilli og steikið svo líka gulræturnar og vorlaukinn. Berið fram með grænu salati og kartöflusmælki sem hefur verið soðið í 5 mínútur og skorið í tvennt og síðan steikt í olíu á pönnu þar til helmingarnir hafa brúnast

 

Ritstjórn mars 12, 2022 13:20