Grái herinn hefur málssóknina gegn ríkinu

Grái herinn, baráttuhópur eldri borgara, telur að brotið sé á eignarrétti með því að skerða ellilífeyri á grundvelli greiðslna úr lífeyrissjóði og ætlar með málið fyrir dóm. Daníel Isebarn Ágústsson, einn af lögmönnum Gráa hersins, gerir ráð fyrir að það verði á næstu vikum, en þetta var haft eftir honum í Ríkisútvarpinu í dag.

Það segir jafnframt að fulltrúar Gráa hersins hafi átt fund með lögmönnum sínum í morgun til að undirbúa stefnu í máli gegn íslenska ríkinu þar sem látið verður reyna á réttmæti skerðinga á lífeyri fyrir dómi. Fram hafi komið að ein manneskja sækir málið, hún er á áttræðisaldri, valin út frá áhrifum skerðinga á hennar tekjur vegna samspils lífeyrissjóðsgreiðslna og ellilífeyris frá almannatryggingum.

Daníel segir í samtali við RÚV að vonir standi til þess að dómur í málinu hafi fordæmisgildi fyrir aðra í sambærilegri stöðu.

Hann segir að ekki sé miðað við ákveðinn aldur í stefnunni en grófasta skerðingin sé hjá þeim sem greitt hafi lengst í lífeyrissjóði á þeirri forsendu að geta tekið út þann sparnað án þess að þurfa að sæta skerðingum á ellilífeyri. Nú sé verið að leggja lokahönd á stefnuna og málið verði höfðað á næstu vikum.

Helgi Pétursson, talsmaður Gráa hersins, segir að Málsóknarsjóður Gráa hersins ætli að greiða kostnað við málsóknina. „Söfnun er farin í gang.“

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið eru hvattir til að leggja framlög inná reikning málsóknarsjóðsins. Reikningsnúmerið er 515-26-007337 og kennitala 691119-0840.

Ritstjórn janúar 13, 2020 15:30