Það færist í vöxt að eldri fyrirsætur birtist í auglýsingum og sýni til dæmis fatnað. Það er ekki algengt en það gerist, og auglýsingum með eldra fólki fer fjölgandi. Það má minna á auglýsingar 66°Norður í fyrra með Ásdísi Karlsdóttur, áttæðri fyrirsætu frá Akureyri, sem vöktu athygli langt út fyrir landsteinana. Verslun Guðsteins Eyjólfssonar byrjaði svo í haust með auglýsingar, þar sem þjóðþekktir eldri karlar sýndu föt. Þar má nefna Theódór Júlíusson leikara og Kristinn
Jónsson. Núna nýlega mátti svo sjá Ragnar Bjarnason söngvara og tónlistarmanninn Megas í nýjum auglýsingum frá versluninni. Sólveig Grétarsdóttir rekstrarstjóri hjá Guðsteini segir að eldri karlmenn vilji vera smart og tilgangur auglýsinganna hafi verið að sýna að þeir geti verið það. Hún segir að hjá Guðsteini vilji þau skipta við alla aldurshópa og verslunin sé með á boðstólum, allt frá útskriftarfötum fyrir unga manninn og uppúr. „Við viljum þjónusta alla og alls ekki skipta eingöngu við einn aldurshóp. Við viljum tengja kynslóðirnar saman“, segir hún. Verslun Guðsteins sem byggir á gömlum merg, fagnar hundrað ára afmæli á næsta ári, býður fjölbreyttar vörur fyrir alla aldurshópa, þar á meðal heimafatnað fyrir eldri herra sem Sólveig segir að sé mjög smart.