Erfðaskattur hér á landi er 10%. Hann var lengi 5% en var tvöfaldaður árið 2010. Á vefnum island.is segir að erfðafjárskattur sé 10% af heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna við andlát þess sem lætur eftir sig arf. Frá þeirri upphæð eru dregnar skuldir og útfararkostnaður. Síðan segir.
Af dánarbúum sem stofnuðust fyrir 1. janúar 2021 greiðist ekki erfðafjárskattur af fyrstu 1.500.000 krónur en af dánarbúum, sem stofnuðust eftir þann dag, greiðist ekki erfðafjárskattur af fyrstu 5.000.000 krónum. Skattleysismörkin eiga ekki við þegar um fyrirframgreiddan arf er að ræða.
Við lok einkaskipta á dánarbúi þarf að greiða 12.000 krónur skiptagjald í ríkissjóð samhliða greiðslu erfðafjárskatts. Ekki þarf að greiða skiptagjald ef fjárhæð arfsins er undir skattleysismörkunum eða ef um er að ræða fyrirframgreiddan arf.
Makar þurfa ekki að greiða erfðafjárskatt. Sama gildir um sambýlisfólk sem erfir maka sinn samkvæmt erfðaskrá.
Það er rétt að árétta að 5 milljóna skattleysismörkin miðast við heildarverðmæti dánarbúsins, en ekki við hlut hvers og eins erfingja. Og skattleysismörkin fylgja vísitölu neysluverðs og hækka árlega í samræmi við hana. Oftast eru það íbúðir sem fólk lætur eftir sig, innbú og stundum bíll. Verðmæti fasteignar er miðað við fasteignamat þegar dánarbú er gert upp og það er gjarnan miðað við að verðmæti innbús sé 500.000 krónur. Um greiðslu erfðafjárskattsins segir á island.is
Sýslumaður fer yfir erfðafjárskýrsluna og reiknar út erfðafjárskattinn. Erfingjum er síðan tilkynnt um arfinn og þeim gert að borga erfðafjárskatt af upphæðinni. Gefinn er 10 daga greiðslufrestur. Vextir leggjast á skattinn 30 dögum eftir að greiðslufrestur rennur út.
Skattinn má borga á skrifstofu sýslumanna eða með því að millifæra en greiðsluseðill kemur ekki í heimabanka erfingja.
Velji fólk að millifæra er það oftast gert í einu lagi af kennitölu hins látna/arfláta. Velji erfingjar að millifæra hvert fyrir sig af eigin reikningum er mikilvægt að kennitala hins látna/arfláta komi fram í skýringu með millifærslunni.