Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi
Þegar ég opnaði tölvupóstinn minn áðan fékk ég skilaboð frá Póstinum. Your package CG0029633035IS is on the way. Ég var minnt á að ég þyrfti ekki að svara. Það var eins gott, því stundum á ég það til að vera nokkuð hvöss í tilsvörum! Við vorum að koma frá því að koma jólapakka af stað til Noregs. Tíminn þegar ömmubörnin eru skólanum hefur verið nýttur þrjá daga í röð. Fyrsti morguninn fór í að kaupa jólagjafirnar með tilheyrandi valkvíða. Dagurinn í gær fór í að pakka inn, standa í 2 metra biðröð hjá Póstinu, með grímur og kaupa kassa númer 5. Norðmaðurinn ætlaði svo að klára verkefnið og koma pakkanum í póst á meðan við vorum að bíða eftir því að yngsti maður væri búinn í Frístund. Hann kom aftur út, eldrauður í framan, með pakkann. Röðin er endalaus, var skýringin. Þá var sú stóiska ákvörðun tekin um að ljúka ferlinu kl. 10.00 í dag um leið og pósthúsið opnaði. Við stóðum við dyrnar á mínútunni í hálku og myrkri.
Grímuklædd stúlka vísaði okkur á tölvu úti í horni og bað okkur um að fylla út eyðublöðin. Þá byrjaði ballið. Ég tek það fram að ég vinn daglega við tölvu. En þarna gekk ég á vegg. Það eina sem ég þurfti ekki að fylla út var hæð og þyngd viðtakanda. Ég fyllti út box og var spurð aftur og aftur um sömu upplýsingar. Ef ég ýtti á rauðan takka í horninu á skjánum var mér boðin fagleg netaðstoð. Ég var engu nær og að lokum þurfti ég að fá aðstoð í þrígang frá grímuklæddu afgreiðslustúlkunni sem notaði bjartan þolinmæðistón á gamalmennin. Þegar þessu lauk bauð hún okkur elskulega að koma að hennar borði til þess að borga og klára dæmið. Sennilega hefur hún áttað sig á því að það væri eina leiðin til þess að koma okkur út.
Í bílnum á leiðinni heim var mér tilkynnt að þetta væri í síðasta sinn sem norska fjölskyldan fengi jólapakka. Ég var líka látin lofa því að vara aðra við að leggja út í svona vegferð með jólapakka. Nú hef ég efnt loforðið. Á meðan þetta er skrifað hlusta ég á Baggalút með lagið Er ég að verða vitlaus eða hvað? á nýjum diski með textum Káins. Reyndar nokkuð góð spurning.