Tengdar greinar

Ertu fullkomin?

Vangaveltur um fullkomleikann er heiti á bloggfærslu sem Ragna Kristín Jónsdóttir skrifaði fyrir margt löngu og leyfði Lifðu núna að birta.

Ég hef verið á góðu og skemmtilegu námskeiði þar sem maður skoðar sig aðeins innávið. Í því sambandi hef ég verið að velta fyrir mér einni af spurningunum sem þar kom fram:  „Ætlastu til eða býstu við að vera fullkomin?“   Ég hef aldrei velt þessu  sérstaklega fyrir mér, en hefði átt að gera það fyrir mörgum áratugum. Það er nefnilega sorglegt en satt þegar ég fer að hugsa um það, að ég hef verið að eltast við þennan fullkomleika stóran hluta ævinnar – allt of stóran hluta.

Ég var alin upp við að það ætti alltaf að standa sig vel og vera fullkominn og mér hefur alltaf fundist það sjálfsögð krafa.  Þegar ég hugsa um þennan fullkomleika, sem auðvitað er víðsfjarri að ég hafi komist neitt nálægt, þó ævin sé orðin löng og ég hafi reynt mitt besta, þá sé ég nú hvað það hefur farið mikil orka og kannski lífshamingja í það að vera alltaf að keppast við að ná þessum fullkomleika.  Hver er líka fullkominn???

Mér fannst reyndar systir mín, sem var sjö árum eldri en ég  alltaf vera fullkomin. Hún var fyrirmyndin, sem lék í leikritum í skólanum, var flink að teikna, var í kór , var í A-bekk en ég fór í B-bekk þegar ég byrjaði í skóla. Mér fannst ég aldrei komast í hjálfkvisti við hana. Ég var svo feimin sem barn og minnist þess þegar verið var að velja í leikrit í skólanum, í upplestur eða annað sem átti að gera á sviði, þá bað ég þess í hljóði að ég yrði ósýnileg svo ég yrði ekki valin til þess að gera neitt, hjartað hamaðist og mér varð illt í maganum af ótta. Aðal hugsunin var sú að ég myndi örugglega klúðra öllu, yrði ekki eins góð og aðrir og verða mér til skammar.  Þegar ég hugsa til baka þá man ég reyndar ekki eftir öðru en að það hafi samt gengið ágætlega, þau fáu skipti sem ég náði ekki að verða ósýnileg og var valin til þess að koma fram. Ég var alltaf með kvíðahnút í maganum á þessum tíma og sífellt að leita að þessum fullkomleika, sem mér fannst allir aðrir en ég hafa til að bera.

Nú er ég búin að fara yfir líf mitt í huganum og sé hvað ég gerði alltaf lítið úr sjálfri mér og fannst ég aldrei standast samanburð við aðra og ég verð að viðurkenna að enn kemur fyrir að þetta hrjái mig. Það kom svo glögglega fram á þessu námskeiði hvernig maður lítur á sjálfan sig. Leiðbeinandinn byrjaði á að spyrja mig að því hvernig ég liti á sjálfa mig? Spurningin kom mér á óvart og það eina sem mér datt í hug var að ég væri örugglega of mikið fyrir að gefa öðrum ráð og talaði líklega of mikið.  Eitthvað mér til hróss gat ég ekki fundið til að segja. Svo heyrði ég svör þeirra sem á eftir komu sem tíndu til allt mögulegt sér til hróss og þá mundi ég líka eftir ýmsu sem ég hefði getað sagt, en mér hefur alltaf þótt rosalega erfitt að taka við hrósi og einhvern veginn  fundist ég ekki eiga það skilið – bara eitthvað sem væri sjálfsagður hlutur og óþarfi að hrósa fyrir.

Eftir þennan námskeiðsdag fór ég að hugsa um þetta og sá heildarmyndina allt frá barnæsku og viti menn,  ég hef gert ýmislegt í gegnum tíðina sem ég get viðurkennt að ég á skilið hrós fyrir. Ég vildi bara óska þess að ég hefði áttað mig á því fyrr og leyft mér að njóta þess að ég var pinkulítið fullkomin eins og aðrir.

Ragna Kristín hélt úti bloggi um árabil og þar lýsti hún meðal annars brúðkaupinu sínu fyrir  næstum 60 árum og vakti færslan sem birtist einnig á Lifðu núna síðunni mikla athygli, enda eyddu brúðhjónin brúðkaupsnóttinni í gömlu flugstöðinni í Keflavík. Sjá hér.

 

Ritstjórn júní 20, 2022 07:00