Fyrir alllöngu rakst ég á stórskemmtilegar glæpasögur eftir John Dunning um bókamanninn Cliff Janeway. Þessi fyrrum lögga og nú fornbókasali flæktist alltaf reglulega í erfið morðmál sem oftar en ekki tengdust líka aðaláhugamáli hans gömlum bókum. Ég hef verið ansi fíkin í leynilögreglusögur allt frá því ég byrjaði að lesa Agöthu Christie, þrettán ára gömul en hinn frábæri snúningur á fléttunni í sögum John Dunning var gersamlega ómótstæðilegur að mínu mati því ég er ekki síður fíkin í bækur almennt en morðgátur.
Ég er alin upp við að bækur séu dýrmætar, ekki bara vegna þess að innihaldið sé stórkostlegt heldur einnig vegna þess að þær eru lyklar að nýjum heimi þekkingar, skemmtunar og valds. Orð hafa áhrif og mennt er máttur. Á mínu æskuheimili voru þetta viðtekin sannindi og ekkert síður á sveitabænum þar sem mamma ólst upp. Þar var til stórt bókasafn sem ég lá í öll sumur æsku minnar og hlustaði auk þess á skyldfólk mitt tala um sögupersónur eins og þær væru sveitungar þeirra. Ófáar umræður um hvers vegna einhver sögupersóna sagði og gerði einmitt það sem stóð skrifað í bókinni áttu sér stað yfir matarborðinu eða kaffibollanum.
Það þótti líka sjálfsagt að vitna í ljóð eða spakmæli máli sínu til stuðnings og venjulega gerði það út um allar rökræður ef nægilega virt skáld hafði haft sömu skoðun og maður sjálfur. Okkur var líka kennt að meðhöndla bækur af virðingu. Fara vel með þær og passa að þær færu úr höndum okkar óskemmdar. Ég man eftir að hafa grátið þegar mér varð það á að rífa blaðsíðu í einni af mínum uppáhaldsbókum. Ég hélt lengi framan af ævi að svona væri þetta alls staðar en með aldri og þroska komst ég að því að bókum er ekki alls staðar tyllt á sama stall og sumar bækur eiga alls ekki skilið á hljóta neinn virðingarsess.
Tölvuskjár í stað leðurbands
Nú á dögum eru bækur neysluvara og ekki þykir þörf á að umgangast þær öðruvísi en kjöthakk eða snyrtivörur. Þær er keyptar, lesnar og jafnvel fleygt. Að safna bókum eða endurselja gamlar bækur er hugsanlega að verða úrelt iðja. Fyrir skömmu var ég á námskeiði með ungri konu sem naut þess að lesa bækur, þótti vænt um innihaldið en fannst engin nauðsyn að safna umbúðunum. Hún sótti flestar sínar bækur á bókasöfn og var að hugsa um að kaupa sér „kyndil“ eða „kindil“, ég veit ekki hvor stafsetningin er réttari.
Sífellt fleira bókafólk í kunningjahópi mínum festir núna kaupa á þessum skemmtilegu rafrænu bókasöfnum. Bækur í hillu á heimili eru ekki lengur öruggt merki um að þar búi bókmennta- og menningarfólk. Hversu miklu magni af bókum hefur verið hlaðið inn í kyndilinn á borðinu er betri vísbending. Hluti af mér fagnar því að með þessu léttir vonandi álagi af skógum heimsins en stærri partur finnur til saknaðar vegna þess að hvað er hlýlegra og fallegra en kilir bóka í hillum.
Ég man alltaf þá öryggiskennd sem fylgdi því að vita að ég átti enn nokkrar bækur ólesnar í bókaskápum heimilisins. Sumar var ég að treina mér. Ég vissi að þær voru skemmtilegar en hafði ákveðið að geyma það besta þar til síðast svona eins og þegar maður borðaði fyrst það sem manni þótti síðra á matardisknum til að geta notið þess að smjatta á hinu gómsætasta undir lok máltíðar. Einhvern veginn sé ég ekki að tölvuskjár geti fært mér sömu tilhlökkun jafnvel þó ég sæi litla íkona með forsíðum þeirra bóka sem ég á ólesnar í tækinu.
Bók er best vina
Gömlu vínylplöturnar sem við strukum rykið svo varlega af heima í gamla daga til að verja þær rispum hafa þegar hlotið þau örlög að úreldast og fá uppreisn æru. Nú gefa æ fleiri tónlistarmenn út vínylplötur og margir safnarar halda lifandi neistum í glæðum sem gætu hvenær sem er orðið að báli. Geisladiskurinn er hins vegar meðal útdauðra tegunda nú um stundir enda kaupa ungmenni sína tónlist á Netinu, og hlaða henni beint í ipad, síma, úr og tölvur.
Mér hrýs hugur við því að barnabörnin mín eigi hugsanlega eftir að telja bækur sniðugt en gamaldags dót. Hugsanlega munu þau ekki geta notið þess að lesa um bókamanninn Cliff Janeway vegna þess að í þeirra huga er óhugsandi að gamlar, sjaldgæfar skræður geti kallað fram nægilega ágirnd eða ástríðu til að menn myrði fyrir þær sakir. Bók er að mínu mati best vina. Sá vinur sem leita má til í veikindum, í leiðindum og í ráðaleysi og hingað til hefur hann aldrei brugðist mér. Tölvuskjár er bara ekki alveg eins hlýr og notalegur.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.