Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambands eldri borgara skrifaði nýlega grein í Morgunblaðið og gagnrýndi að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að leiðrétta skuldastöðu heimilanna, næðu ekki til þeirra sem eru hættir á vinnumarkaði. Aðgerðirnar eru eingöngu ætlaðar þeim sem eru enn að vinnaog geta aflað sér lífeyrissparnaðar á árunum 2014-2017. Í greininni segir orðrétt.
Við óskuðum eindregið eftir því að breytingar yrðu gerðar á frumvarpinu þannig að þeir sem eiga séreignalífeyrissparnað ónýttan, en vilja nýta hann til lækkunar húsnæðisskulda geti það jafnt og þeir sem eru á vinnumarkaði. Við töluðum fyrir því í efnahags-og viðskiptanefnd og lögðum inn ítarlega umsögn frá Landssambandinu. Við í Landssambandi eldri borgara teljum það gróft mannréttindabrot að mismuna fólki þannig eftir aldri og stöðu á vinnumarkaði.
Jóna Valgerður vitnaði í greininni í ummæli fjármálaráðherra á Alþingi þar sem hann sagði um réttinn til að nota lífeyrissparnaðinn í þessu skyni að þetta væri almennur réttur sem allir ættu, bæði þeir sem hefðu fram til þessa lagt fyrir séreignasparnað og þeir sem ekki hefðu lagt fyrir séreignasparnað en sæju núna hvata til að gera það. Þessi ummæli hefði Landssamaband eldri borgara túlkað þannig að þeir sem ættu séreignasparnað gætu nýtt þessi úrræði. Það ætti einmitt við ýmsa sem væru að hætta eða hættir á vinnumarkaði að þeir ættu fjármuni í séreignasjóði og gætu nýtt þá til lækkunar húsnæðisskulda sinna. Margir eldri borgarar væru í þeirri stöðu að hafa nýlega fjárfest í húsnæði. Jóna Valgerður lýkur greininni þannig.
Þeim kæmi það vel að geta lækkað húsnæðisskuldir sínar með inneign sinni í séreignalífeyrissjóði. En ekki er útlit fyrir það að gæta eigi jafnræðis samkvæmt breytingartillögum og nefndaráliti meirihlutans á Alþingi í þessu frumvarpi sem þ.12.júní er að fara í 2. umræðu í þinginu. Nei, það á ekki að láta eldri borgara sitja við sama borð og aðra. Okkur er mismunað gróflega. Landssamband eldri borgara lýsir yfir mikilli óánægju með þessar tillögur eins og þær liggja fyrir núna og hvetur þingmenn til að skoða málið vel á milli umræðna og koma að leiðréttingu fyrir lokaafgreiðslu málsins.