Trausti Valsson arkitekt og skipulagsfræðingur hefur víða og oft lagt gott til umræðu um skipulagsmál og fagurfræði nánasta umhverfis okkar. Hann menntaði sig í Vestur-Berlín á hippaárunum og vann heimkominn við borgarskipulag Reykjavíkur. Það nægði þó ekki til að svala þekkingarlöngun hans svo hann hóf doktorsnám í hönnunarfræðum 1980 í Berkeley í Kaliforníu. Að því loknu réðist hann til Háskóla Íslands til að kenna skipulagsfræði. Hann er núna prófessor emerítus við Háskólann. Trausti hefur skrifað fimmtán bækur og sú nýjasta List & hönnun varpar einstöku ljósi á hve mikils virði það er að umhverfi gleðji, næri og ögri skynfærunum.
Hvaða máli finnst höfundi það skipta fyrir fólk að hafa fegurð í kringum sig, upplifa list og fallegt samræmi í umhverfi sínu?
„Eins og kemur fram í bókinni,“ segir Trausti, „þá er ég að hluta til að benda á leiðir til að auka þessar tilfinningalegu víddir í hönnun og fegurðina. Við lifum á öld sem stundum kennd er við fúnksjónalisma og þá er alltaf í fyrsta sæti að allt fúnkeri, en það hefur dálítið gleymst að umhverfi fólks hefur mikil áhrif á vellíðan þess. Margir hlú mjög vel að sínu nærumhverfi til að tryggja að sér líði vel og ákveðin hverfi ýta undir það líka. Ég er af gamla skólanum og mér finnast gömlu hverfin í bæði Reykjavík og Hafnarfirði falleg. Byggingar þar voru mikið byggðar af smiðum svo handverkið kemur alltaf sterkt fram þannig að t.d. gluggaumbúnaður, ufsir og dyraumbúnaður eru oft hreinustu listaverk.
Nú er allt slíkt keypt frá lítt þróuðum löndum, í stöðluðum stærðum og oft sléttar plötur. Einnig eru komnar mjög hentugar veðurkápur, blikkplötur, og þær eru sléttar og dauðar einhvern veginn. Svo er einhver tíska í dag, sem mér finnst vera galli, að allt þarf helst að vera litlaust, grátt, hvítt og svart meðan mörg hús í gamla miðbænum í Reykjavík eru máluð í skærum litum og skærir litir gleðja. Inn í þetta kemur líka falleg garðhönnun. Til dæmis má nefna Bergstaðastrætið, þar eru hús stök og garðarnir koma út að götunni þannig að gróðurinn teygir sig jafnvel yfir gangstéttina. Í dag eru göturnar fremur hannaðar eftir línustrikuðum línum, allt beint. Annað sem er mikið til horfið, en er víða erlendis þar sem er að finna fallega bæi, eru sveigðar götur. Oft er landslagið þannig að það verður að sveigja göturnar eftir því, en þetta skákborðsmynstur gatna, sem er ráðandi í dag, er voðalega sterílt, kalt og vélrænt.“

Í bókinni er fjallað um grunngerðir forma sem vísa til merkingar hreyfinga: Lóðrétt=andlegt, hlutlaust=venjulegt og lárétt=jarðbundið. Hvernig þetta birtist í arkitektúr sést á myndinni
Hvar eru blómin, útsýnið og birtan?
Trausti fékk tólf aðila úr listum og hönnun til að lesa yfir bókina áður en hann lauk við hana til útgáfu og þær umsagnir eru birtar aftast í henni. Þar grípur Þóra Bergný Guðmundsdóttir arkitekt á Seyðisfirði einmitt þessar hugmyndir sem hann talar um og segir: „Af hverju er allt svona einsleitt og grátt? Hvar eru blómin, útsýnið, birtan og hið gjöfula rými milli húsanna? Höfum við fórnað fegurðinni á altari meintrar hagkvæmni?“ Í bókinni leitast Trausti einmitt við að opna huga manna fyrir ákveðnum sammannlegum tilfinningum fyrir fegurð. Hann er margfróður um efnið og hefur til stuðnings í umfjöllun sinni vísindakenningar, listfræði, skipulagsfræði og sálfræði.
„Ég vil aðstoða við að koma þarna aftur inn tilfinningavíddinni, en til hennar telst fegurðin, hlýleikinn og líka það að kunna að fara með symbólísk gildi. Hús og borgir voru í gamla daga hlaðin symbólískum gildum. Það hefur dálítið mikið tapast í dag svo ég legg töluverða áherslu á það hvernig maður getur komð þessu aftur inn í hönnunina.“
Kominn af ætt listmanna
En öðrum þræði er bókin sjálfsævisöguleg. Trausti er komin af listfengu fólki og fremst er ættartala er sýnir fram tengsl hans við frumkvöðla í íslenskri málara- og höggmyndalist. Sjálfur hefur hann ástundað margskonar list allt frá bernsku.
„Ég er af Jötuætt úr Hrunamannahreppi,“ segir hann. „Í henni er fjöldi þekktra listamanna. Einnig snjallir hönnuðir og handverksfólk, sem er minna þekkt. Á ofanverðri nítjándu öld voru systkini í Unnarholti í Hrunamannahreppi. Það var langamma mín, Guðfinna og Jón, faðir Einars frá Galtafelli sem og Valgerður, hún er amma Nínu Tryggvadóttur, síðan einnig Helgi, sem var langafi Alfreðs Flóka. Ásgrímur Jónsson og Eiríkur Smith eru líka af Jötuætt, en Unnarholtsættin er undirgrein hennar. Í þessum ættum er líka fjöldi arkitekta m.a. Hörður Bjarnason. Hann var húsmeistari ríkisins, listrænn maður og mér finnst til dæmis kirkjurnar sem hann teiknaði allar mjög fallegar, Skálholtskirkja, Langholtskirkja og Kópavogskirkja.
Í dag er arkitektúrinn orðinn meira og minna einhverjir kassar, allt eins! Mér finnst það ráðast mikið af því að byggingafélögin bregðast þannig við þegar arkitektar koma með teikningar og segja: „Jah, þetta kostar aukalega við höfum ekki efni á því. Þak á húsum, nei, nei, nei, við setjum bara pappa á þetta og hann verður endurnýjaður á okkurra áratuga fresti, skyggni yfir dyrum, nei, nei ekki heldur.“ Þau eru auðvitað að reyna að kreista eins mikinn hagnað út úr byggingum og hægt er og það er allt á kostnað fegurðarinnar. Þau hafa mikil tök á sveitarfélögunum og ég veit að margir á skipulagsskrifstofunum eru metnaðarfullir en þeir ráða bara ekkert við þetta.“

Trausti Valsson, mynd Spessi.
Göturýmið alltaf í skugga
Nú hefur líka verið mikil áhersla á þéttingu byggðar. Oft er vísað til þess að byggingamagn í Reykjavík sé minna en í miðborgum stórborga erlendis, m.a. Kaupmannahöfn og London, en þegar þessar borgir, sem eru byggjast upp á miðöldum, voru þær í grunninn þéttar virkisborgir.
„Já og göturnar því sumar varla nema tveggja metra breiðar,“ segir Trausti. „Miðbærinn í Kaupmannahöfn í kringum Strikið er; út af þessu nær allur orðiðnn göngusvæði. En ástæðan fyrir þéttingunni hér í Reykjavík er sú að það á að koma Borgarlína, og til þess að hún fái næga farþega þarf að byggja nógu þétt og hátt, einkum í kringum brautarstöðvarnar, sem svo má kalla, því Borgarlínan samsvarar járnbraut, en á gúmmíhjólum. Henni er t.d. ætlað að renna eftir allri Suðurlandsbraut og því er nú verið að byggja mjög há hús allt frá Hilton og uppeftir, þau eru sjö og allt að níu hæðir. Mikill galli er að þau standa öll sunnan göturnar. En reglan á að vera, eins og Guðmundur Hannesson minnti á í sínu fræga riti, Skipulag bæja, sem kom út 1916, að svona háar byggingar eiga að standan norðan megin við götur og lágar byggingar hins vegar, sunnan megin. Með þessu móti kemst sól ofan í göturýmið. Í skuggagöturými Suðurlandsbrautar láta menn sig þó dreyma um að komi búðir og annað, en það verður svo óaðlaðandi, sérstaklega á Íslandi, þar sem rishorn sólar er lágt og lítil sól norðan við háar byggingar.

Á rýmisviðinu eru þrjár „Zónur“ mannheima, þ.e. Undirheimar, Miðheimar og Uppheimar. Sálfræðingurinn Carl Jung, fjallaði um þessa þrjá heima í sálarlífi fólks og benti á að þetta eigi sér samsvörun í tilfinningum sem tengjast kjallara, hæð og risi í húsi. Húsagerð sem virðir þetta ekki er tilfinningalega fátæk.
En til að vera ekki bara neikvæður má benda á að byggð hafa verið mjög flott hverfi í borginni. Meðal annars hverfið milli Borgarspítalans og kirkjugarðsins. Það hefur verið kallað út af því „milli lífs og dauða”, og er mjög fallegt. Valdís Bjarnadóttir var aðalarkitektinn að því. Svo er annað hverfi í Kolbeinsstaðamýrinni, þegar maður er nær alveg kominn út að Seltjarnarnesi, sem er mjög fallegt svæði þannig að vel hefur tekist til öðru hvoru.“

Leirhaus eftir Trausta.
Fékk tíma til listiðkunar eftir starfslok
Þegar Trausti fór á eftirlaun 2016, gafst honum færi á að sinna listinni meira og þá gerði hann t.d. leirhausa og málaði ornament á leirdiska, en hann málar einnig og teiknar.
„Móðir mín hreifst af verkum frændfólks síns og lét ramma inn eftirprentanir af verkum þeirra til að hafa á veggjum svo ég var umkringdur list frá unga aldri. Í menntaskólanum var ég fenginn til að teikna myndir í Faunu og Skólablaðið og ég vann leiktjöld fyrir Herranótt. Ég hafði svo mikið að gera í myndlistinni að ég hafði lítinn tíma fyrir námið.“
Hann hlær við en segir jafnframt að listiðkunin hafi leitt til þess að hann ákvað að halda út til Vestur-Berlínar í nám í arkitektúr.
„Þetta var á hippaárunum og þá þótti ekki lengur við hæfi að arkitektar teiknuðu fyrir borgarastéttina. Á veggjum skólans hékk uppi slagorðið: „Arkitekt ekki teikna, hugsaðu!!!“ svo ég sneri mér meira að skipulagi og vann við það í sjö ár eftir að ég kom heim. Síðan hélt ég til framhaldsnáms í Berkeley í Kaliforníu og bauðst eftir það að kenna við verkfræðideild Háskólans.“

Myndin sýnir liti og merkingu þeirra: Rautt=Hætta, Gult=Varúð og Grænt=Öryggi. Er þetta t.d. notað í umferðarljósum. Athyglisvert er að fyrstu og síðustu pörin eru gagnkvæmt styrkjandi pör (complementary pairs).
Trausti bætir við að hann hafi notið sín í kennslunni og náð góðu sambandi við nemendur.
Það er hins vegar auðheyrt á öllu að húsagerðarlist, skipulag, hönnun og listir eru Trausta ástríða og nauðsyn. Með bókum sínum hefur hann leitast við að ýta undir að fegurðin verði ekki síðri mælikvarði á umhverfi en hagkvæmni. Hvort sem mýktin verður ofan á í húsagerð og skipulagi, eða áfram verði ríkjandi tíska skákborðsskipulags og sálarlausra háhýsa, þá er List & hönnun hvalreki fyrir alla sem áhuga hafa á fagurfræði og list. Margir hafa líka áhuga á, og vilja til að spreyta sig á listiðju, og í bókinni er margt til leiðbeiningar í þeim efnum. Hún er ríkulega myndskreytt bæði ljósmyndum og skematískum myndum, sem skýra óneitanlega viðfangsefnið og líklegt að ný sýn opnist, og lesandinn fari að hugsa um marga hluti á annan hátt. Fyrri bækurnar Trausta fjölluðu mest um skipulag, og er hægt að lesa þær ókeypis á: https://tv.hi.is/
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







