Fimm sinnum hringveginn með Guðrúnu frá Lundi

Það er ótrúlega gaman á löngum akstri á hlusta á vel lesnar sögur. Boðið er uppá hljóðbækur sem passa í geislaspilara í bílum og úrvalið er orðið verulega gott.

  1. Ein vinsælasta bókin er Góði dátinn Sveijk, en hún tekur um 16 klukkustundir í lestri og lestur Gísla Halldórssonar er hreint út sagt frábær. Ætla má að það taki einmitt um 16 klukkustundir að fara allan hringveginn.
  2. Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi er komið út sem hljóðbækur í fimm bindum. Stysta bindið er átta klukkustundir í lestri, en sá lestur endist í bílnum um það bil milli Egilsstaða og Reykjavíkur. Lengsta bindið er hins vegar 22 klukkustundir og samanlagt tekur um 82 klukkustundir að lesa öll fimm bindin. Þannig má aka hringveginn fimm sinnum undir lestri um ástir og örlög fólksins í Dalalífi.
  3. Nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar Skuggasund er einnig komin út á bók og tekur 9 klukkustundir í lestri. Þar segir frá ungri konu sem fannst myrt á bak við Þjóðleikhúsið á stríðsárunum.
  4. Ef barnabörnin eru með í för, má fá ævintýrabókina Tímakistuna eftir Andra Snæ Magnason á hljóðbók og spila fyrir þau í bílnum, en börnin vilja stundum verða pirruð á að sitja lengi í bíl.
  5. Fyrir þau allra yngstu er hægt að fá Kardemommubæinn og fleiri barnaleikrit á CD diski, til að stytta þeim stundir í bílnum.

Hér eru einungis nefndar örfáar hljóðbækur, en úrvalið af þeim er er stöðugt að aukast. Algengt verð á hljóðbókum er frá tæplega 2000 krónum og upp í tæpar 4000 krónur.

 

Ritstjórn júní 27, 2014 16:00