Við byrjuðum í Suðurveri hjá Báru árið 1967 og vissum ekkert hvað við vorum að fara útí, segir Kolbrún Björnsdóttir sem enn, næstum 50 árum síðar er í leikfimitímum hjá JSB. Hún fer á hverjum virkum morgni í tíma, nema eitthvað alveg sérstakt beri til, svo sem eins og að hún fari eitthvað í burtu í frí. Kolbrún er grönn og spengileg, alveg í toppformi. Þegar hún sagðist vera orðin áttræð, varð blaðamaður hálf hvumsa, því það hafði honum hreint ekki dottið í hug.
Lykillinn að góðri heilsu
Kolbrún fór upphaflega til Báru í Suðurveri ásamt þremur vinkonum sínum, en það var stór hópur sem þá hóf leikfimiiðkun. „Við hugsuðum bara að þetta væri gott fyrir okkur“, segir Kolbrún. Hún hefur alla tíð verið hraust og þakkar það líkamsræktinni, sem hún segir að sé góð bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu. Líkamsræktin sé lykillinn að því að halda heilsu og félagslega hliðin sé líka skemmtileg. Það myndist hópar og stundum fari þær saman í kaffi.
Kennararnir frábærir
Henni finnst ekki að líkamsræktin hafi tekið miklum breytingum þau ár sem hún hefur verið hjá Báru og segist enn geta gert allar æfingarnar. Að vísu sé það þannig, ef hraðinn er mikill, að þá sé hún orðin svolítið hægari. Bára hafi verið sú fyrsta sem bauð leikfimi fyrir konur og kennararnir hjá henni séu alveg frábærir. Þeir eru ólíkir og með ólíkan bakgrunn. Kolbrún viðurkenndi þó, að á tímabili hefði sér ekki líkað alveg tónlistin hjá ungu konunum. „En mér finnst þetta skemmtilegt og aðalartiðið er að maður hefur gott af þessu og líður vel á eftir“, segir hún.
Saknar ekki Landspítalans
Kolbrún vann sem læknaritari á Landsspítalanum í 3o ár. Fyrst á slysadeild í 15 ár og síðan á krabbameinsdeild. En hún saknar þess ekki „Ekki eins og ástandið er“. Hún segir að sér hafi alltaf þótt skemmtilegt í vinnunni. Kolbrún á 4 börn, 10 barnabörn og 4 langömmubörn. Hún segist stundum hjálpa til með börnin og það sé yndislegt að geta það. Svo spili hún Canasta tvo eftirmiðdaga og hafi verið á Íslendingasagnanámskeiði hjá Félagi eldri borgara. Hún hafi alltaf nóg að gera“ Það er alltaf verið að kvarta yfir að það sé ekkert gert fyrir gamla fólkið, en það er nú öðru nær“, segir hún.
Fáránleg tala sem mér er sögð
Líkamsræktin gefur henni ótrúlega mikið. „ Ég þakka Guði fyrir hvern dag sem ég get verið hér. Ég finn ekki fyrir því að ég sé að eldast, finnst fáránleg þessi tala sem mér er sögð, en ég er svo ótrúlega heppin að vera svona frísk“ , segir hún að lokum.