Finnur gleðina í litlu hlutunum

Katrín Óladóttir fæddist á Hnappavöllum í Öræfasveit árið 1953, ein sex systkina, og segir dálítið sérstakt að hugsa til þess að hún hafi fæðst í burstabæ, þótt ekki sé svo langt síðan. „Nei, það var nú ekki moldargólf í bænum og ekki svo frumstætt,“ segir Katrín og hlær þegar blaðamaður ber upp spurninguna hvort svo hafi verið. „En það er von að þú spyrjir. Þetta var viðarþiljaður burstabær. Burstabærinn var myndarlegt hús með rafmagni, því það var snemma byrjað að virkja litlar heimastöðvar. Ég bjó í þessum burstabæ fyrstu æviárin en svo fluttum við í steinhús sem foreldrar mínir byggðu og bjuggum þar í nokkur ár. Það hús stendur enn og mér þykir vænt um að það sé nú í eigu frændfólks míns.“

Katrín nýtur lífsins eftir að hún hætti að vinna og segir endalaus tækifæri til samveru með vinum og ættingjum hafa skapast í kjölfarið.

Katrín segist ekki hafa verið mikið fyrir sveitalífið og hana hafi dreymt um að flytja til Reykjavíkur sem hún sá í hyllingum. „Stundum hef ég sagt í gríni að ef ég vissi það ekki fyrir víst að ég hefði fæðst í burstabænum þarna um árið þá hefði ég haldið að ég hefði verið tekin í misgripum á fæðingardeildinni í Reykjavík,“ segir hún og hlær létt. „Lífið í Öræfunum var samt gott, það voru krakkar á næstu bæjum og á sumrin kom frændfólk að sunnan og börn til sumardvalar, svo það var fullt að gera og gaman í minningunni. Svo var maður með Hvannadalshnúk næstum því í bakgarðinum og sumarkvöldin voru nýtt í skemmtilega leiki. Sjálfur veturinn var kannski tilbreytingaminni. Ég hef oft dáðst að þolinmæðinni í mömmu heitinni því þegar ég fór með henni í fjósið á kvöldin á veturna fór ég í hlutverk gestkomandi á bænum og spurði endalaust út í beljurnar og lífið í sveitinni. En svona bara fann maður sér leið til að skapa og finna sér eitthvað að gera. Svo er dálítið fyndið að segja frá því að ein aðalafþreying mín í miðri viku var að hlusta á jarðarfarirnar en þeim var útvarpað í þá daga og ég söng hástöfum með sálmunum. Þetta var bara ein afþreyingin og auðvitað mjög lausnamiðuð hugsun; að finna gleðina í litlu hlutunum.“

Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur þegar Katrín var ellefu ára og þar með rættist langþráður draumur hennar. „Ég veit að fyrir mér var þetta ekki eins erfið breyting og fyrir marga aðra í kringum mig því ég hafði auðvitað séð Reykjavík í hyllingum. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem ég áttaði mig á því hvað þetta var í raun ofboðslega stór ákvörðun fyrir mömmu og pabba; að rífa okkur upp og flytja burt frá ættingjunum og lífinu í sveitinni.“

Ólýsanlegt að fljúga yfir Reykjavík

Hvernig var svo að koma loks til Reykjavíkur?

„Það var alveg jafn spennandi og ég hafði séð fyrir mér og ólýsanleg tilfinning að fljúga yfir Reykjavík og sjá rafmagnsljósin lýsa upp göturnar, setjast svo inn í bíl og keyra á malbikaðri götu inn í Hlíðar þar sem mamma og pabbi höfðu keypt íbúð. Ég hef ferðast víða um heim og það er alveg sama hvar ég hef komið, ég hef aldrei upplifað svona tilfinningu aftur.“

Katrín settist á skólabekk í Hlíðaskóla og gekk vel í námi. Hún segist hafa verið hvött af kennaranum sínum þar að halda áfram námi og fara í Kvennaskólann í Reykjavik, sem þá var einungis fyrir stúlkur. „Ég var svo heppin með minn yndislegan kennara í Hlíðaskóla sem hafði sjálf stundað nám í Kvennaskólanum og dætur hennar líka og hún vissi að skólinn myndi henta mér vel. Það var auðvitað ekkert sérlega auðvelt þar sem skólavistin var dýr, og auk þess var ekki auðvelt að komast inn í skólann þar sem einungis þær stúlkur sem fengu hæstu einkunn út úr barnaskóla fengu þar skólavist. Ég verð þeim eilíflega þakklát sem hjálpuðu mér að láta þann draum rætast að fara í Kvennaskólann.“

Að námi loknu í Kvennaskólanum starfaði Katrín við skrifstofustörf, fyrst hjá Eimskip þar sem hún vann í sjö ár og svo hjá Málningu í fimm ár. „Þetta var auðvitað rosalegt karlaveldi í forystusveit fyrirtækjanna og fáar konur gegndu stjórnunarstöðum á þessum tíma,“ svarar hún aðspurð um stöðu kvenna í fyrirtækjum á þessum árum. „Við stelpurnar vorum meira í  almennum skrifstofu-, bókhalds- og gjalderastörfum og á þessum tímum voru einkaritarar í flestum fyrirtækjum. Þetta var þó frábær tími, bæði hjá Eimskip og Málningu, en eftir tólf ár á vinnumarkaðinum langaði mig að sigla á ný mið. Ég ákvað að leggja inn umsókn hjá Hagvangi, sem var leiðandi á sviði ráðgjafar og ráðninga á þessum tíma og eftir eins mánaðar reynslutíma var mér boðið fast starf 1. apríl 1983. Alla tíð síðan þá hafa ráðningar og mannauðsmál átt hug minn og hjarta.“

Árið 1986, þremur árum síðar, var Hagvangur til sölu og buðu þrír samstarfsfélagar Katrínar, Gunnar Maack, Reynir Kristinsson og Þórir Þorvarðarson henni að ganga inn í kaupin ásamt þeim. Þeir höfðu allir starfað lengur hjá fyrirtækinu en hluthafar höfðu ekki starfað í fyrirtækinu, utan eins þeirra, og  varð Gunnar Maack framkvæmdastjóri. „Ég hugsaði oft eftir á hvað Gunnar, Reynir og Þórir voru frábærir að treysta mér í þessa vegferð með þeim. Það var ekki sjálfgefið að konu byðist svona tækifæri á þessum tíma. Þeir treystu mér fullkomlega og litu á mig sem sinn jafningja. Þetta var hreint ævintýri að byggja upp framtíð öflugs fyrirtækis sem hefur ávallt haft það að markmiði að styrkja og styðja fyrirtæki í að efla mannauð sinn og rekstur af krafti.“

Á ferðalagi í Skotlandi fyrir 20 árum.

Upplifði margar breytingar

Katrín starfaði hjá Hagvangi í  fjóra áratugi; varð framkvæmdastjóri þess árið 2002 og upplifði margar breytingar frá því hún hóf ung störf hjá Hagvangi. „Til dæmis bara viðhorfið og samsetning fjölskyldunnar; hjónaskilnuðum fjölgaði, fjöldi einstæðra mæðra varð áberandi á vinnumarkaðinum, auðvitað voru þar einstæðir feður líka en þeir voru kannski minna áberandi en einstæðu mæðurnar. Það var ekki endilega fagnaðarefni hvernig sumum mæðranna var tekið í atvinnuleitinni vegna ábyrgðar þeirra á börnum og heimilishaldi þess tíma en viðhorfið til þeirra breyttist hægt og bítandi til hins betra. Miklar breytingar áttu sér líka stað á störfunum sjálfum; flóknari störfum fjölgaði, störfin kröfðust meiri menntunar og nýjar starfsgreinar urðu til, enda tóku fyrirtækin sjálft að eflast og stækka, fjölskyldufyrirtækin breyttust og meiri samruni fyrirtækja varð í hagræðingarskyni. Tækninni fleygði fram sem og annarri þekkingu. Á þessum tíma sóttu konur í aukna menntun, háskólamenntun jókst og laun kvenna fóru að síga upp á við. Ráðningum kvenna í millistjórnunarstöður fjölgaði og í dag eru þær orðnar verulega áberandi í ábyrgðarstöðum bæði hjá hinu opinbera og hjá einkafyrirtækjum. Jafnræði hefur við aukist á milli kynja hvað varðar ábyrgð og tækifæri. Í dag er ekki verið að pæla í því af hvaða kyni fólk er, heldur er verið að horfa á hvað viðkomandi hefur gert, hvaða árangri (hann) hefur náð og hver er hæfastur í starfið. En betur má ef duga skal og því er þörf umræða um jafnréttismál og samvinnu enn nauðsynleg.“

Katrín segir að þótt þessi mál hafi breyst til batnaðar sé umræðan um jafnvægi í kynjahlutföllum hjá fyrirtækjum alltaf nauðsynleg til að fólk gleymi sér ekki. En hvað með aldur starfsfólks? Skyldi Katrín hafa fundið fyrir einhverjum aldursfordómum gagnvart fólki sem komið er á og yfir miðjan aldur þegar hún sinnti ráðningum?

„Umræða um aldur hefur alltaf verið viðkvæm og jákvæðar breytingar hafa átt sér stað í þeim efnum.  Nú eru umsóknir skoðaðar meira með tilliti til þess hvað viðkomandi hefur lagt að baki í starfi, hvernig viðkomandi hefur þroskað sig í starfi og árangurinn er mældur. Þegar fyrirtækin voru hvað mest að breytast þótti þörf á að yngja verulega upp til að opna á nýja menntun og þekkingu. Oft var því borið við að fólki væri sagt upp störfum sem hafði náð sterkum réttindum í lífeyrissjóði, veikindarétti og orlofsrétti. En svo var aldursdreifing innan fyrirtækjanna ekki mikil því fólk var ekki mikið að skipta um starf sem er breytt í dag. Í dag fylgist eldra fólk líka vel með og uppfærir sína þekkingu í takt við tímann. Svo spyrja stjórnendur fyrirtækja sig kannski hvort þau vilji taka áhættur eða tryggja að það sé einhver endurnýjun því það gerist stundum að heilt lag af fólki fer af vinnumarkaðnum vegna þess að það er komið á aldur. Þar kemur jafnvægið aftur inn í, fyrirtæki eru kannski að horfa á aldurinn til að hafa jafnvægi í blöndunni. Það þarf að hafa ungt fólk, miðaldra fólk og fullorðið fólk og þar sem þessi blöndun hefur tekist vel er langmesta starfsánægjan.“

Mikilvægt að breyta til

Hún segir að sá sem beri ábyrgðina þurfi að vera vakandi fyrir því að hafa alltaf ákveðna endurnýjun í gangi. „Mér finnst líka mikilvægt að fólk átti sig á því að það þarf stundum að breyta til; það er allt í lagi að taka skref til baka og skipta um stefnu, finna kannski þægilegra starf sem hentar betur í stað þess að svekkja sig á því að fá höfnun þegar sótt er um störf sem maður sótti um fyrir tuttugu árum. Það er svo margt sem breytist og ekki endilega það sama sem hentar manni þegar maður er orðinn sextugur og þegar maður var fertugur.“

Þú lést af störfum fyrir tveimur árum siðan, voru það mikil viðbrigði eftir að hafa sinnt annasömu starfi sem framkvæmdastjóri?

„Í hreinskilni var það kærkomin breyting að hætta formlegu starfi eftir að hafa starfað óslitið á vinnumarkaði frá 16 ára aldri og orðin 70 ára sem er býsna langur tími. Ég fann mikla gleði-og frelsistilfinningu þegar ég þurfti ekki lengur að æða af stað út í umferðina og löng og ströng dagskrá fram undan. Ég gat loksins ráðið mínum tíma algjörlega sjálf. Ég fann reyndar svolítið fyrir því að fólk hélt að ég væri að forðast að horfa á raunveruleikann en það var fjarri mér. Ég veit að þetta stafaði eingöngu af umhyggju fyrir mér, sem alltaf hafði verið að stjórna öðrum, en ég tók  þessum breytingum fagnandi og hef reyndar aldrei hræðst breytingar. Ég hef talsverða reynslu af samtölum við fólk sem hefur staðið á sambærilegum tímamótum og séð að fólk er eins misjafnt og það er margt, þegar breytingar eiga sér stað. Jákvæð hugsun, góð heilsa og bjartsýni fyrir nýjum tækifærum hefur mikið að segja. Ég er sátt þegar ég horfi til baka og mjög sátt við að vera laus úr ábyrgðinni og streitunni.“

Blómstrar í nýja lífinu 

Aðspurð hvað hún hafi verið að bardúsa eftir að hún hætti að vinna, svarar Katrín að fyrst hafi hún notið þess að hvíla sig og njóta augnabliksins betur. „Ég var svo heppin að vera umvafin fólki sem hélt að ég myndi aldrei geta hætt að vinna en ég  kom því á óvart með þvi að sýna að ég bara blómstra í nýja lífinu. Það skapast endalaus tækifæri til að búa til gleðistundir og ég er heppin með mitt stóra tengslanet vina og ættingja. Ég áttaði mig fljótt á því að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að mér myndi leiðast. Nú gefst meiri tími til að fylgjast með samfélagsmálum í gegnum alls konar miðlun efnis; þjóðmálin skipta alltaf  sannarlega máli svo það er bara brjálað að gera. Svo er ég enn í nokkrum verkefnum til að tengja mig við gamla lífið en það er allt tímabundið. Mér leiðist því aldrei. Undanfarið hef ég verið duglegri  að sækja ýmsa viðburði, ferðast og eyði góðum tíma í bústaðnum sem hefur verið í breytingarferli og það hefur tekið sinn tíma.  Þar eigum við fjölskyldan dýrmætan tíma og tæplega þriggja ára langömmustrákurinn minn, Veigar Elí, nýtur sín vel og svo fæddist annar langömmustrákur fæddist í lok júlí sl. sumar svo fjölskyldan stækkar enn. Ég þakka fyrir hvern dag og nýt því lífsins.

Þegar þú lítur til baka er eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi í lífinu?

„Yfirleitt dvel ég ekki lengi við fortíðina, þú færð litlu breytt eftir. Ég hef reynt að læra af mistökum og gera ekki of mikið úr málunum og hef verið svo lánsöm að vinna með fólki sem  hefur frekar bætt mig og styrkt svo margt hefur gengið afar vel. Að stjórna fyrirtæki á ýmsum tímum, erfiðum sem góðum, hefur verið ærið verkefni og mikil reynsla og ekkert tekst án þess að hafa með sér úrvalsfólk. Mér hefur alltaf þótt vænt um fólk, lagt áherslu á góð samskipti,  traust og þakklæti og  fengið það endurgoldið margfalt, svo ég er þakklát og sátt við það liðna.“

„Ef þú gætir gefið ungu Katrínu, sem var að ljúka námi í Kvennaskólanum og væri að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði, eitthvað heilræði, hvert væri það?“

„Katrín mín!  Fyrsta starfið skiptir máli og er vísir að farsælli framtíð. Góð umsögn um vönduð vinnubrögð, dugnað, frumkvæði og ekki síst samskiptafærni er lykillinn að framtíðinni ásamt menntun sem gefur þér tækifæri til að standast samkeppni.“

Guðrún Óla Jónsdóttir blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.