Nú eru margir búnir að elda og snæða margar kjötmáltíðir og þá er gott að fá eina fiskmáltíð. Hér endurbirtum við uppskrift að dýrlegri sósu með hvíta fiskinum sem er ekki bara bragðgóð heldur líka ótrúlega falleg. Hana má útbúa með fyrirvara, t.d. daginn áður og geyma í kæli og þá er mjög þægilegt að búa til kartöflumúsina samdægurs og steikja svo fiskinn rétt áður en sest er að borðum. Verði ykkur að góðu!
Fyrir fjóra:
600 g léttsaltaðir þorskhnakkar
2 dósir niðursoðnir kirsuberjatómatar
1 rauðlaukur, smátt skorinn
ansjósur eftir smekk, má sleppa
3 msk. sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
10 ólífur
2 hvítlauksrif, marin
1 chilialdin, smátt saxað
klettakál til að dreifa yfir í lokin
Látið laukinn og ansjósur malla í olíu í potti í nokkrar mínútur. Hellið tómötunum úr dósinni út í og látið hitna með. Látið síðan annað hráefni saman við og látið malla í a.m.k. eina klukkustund. Þá er sósan tilbúin. Steikið fiskinn í 3 mínútur á hvorri hlið í sneiðum á vel heitri pönnu þegar búið er að pipra hann með ferskmöluðum svörtum pipar.
Kartöflumús:
500 g nýjar íslenskar kartöflur, soðnar
olía eða smjör
2 msk. parmesan ostur, rifinn
salt og pipar
mjólk eða olía til að þynna kartöflumúsina
Merjið kartöflurnar létt og bætið olíu eða smjöri saman við. Hrærið parmesanostinum, saltinu og piparnum líka saman við. Þynnið með mjólk eða olíu en ekki hræra of lengi því þá getur kartöflumúsin orðið seig.