Lengi hefur fólk í yfirþyngd kvartað undan því að heilbrigðisstarfsfólk hlusti ekki á það þegar það leitar til þess vegna heilsubrests. Öll einkenni eru skrifuð á þyngdina og nauðsynlegar rannsóknir ýmist ekki gerðar eða illa lesið úr niðurstöðum.
Vegna þessa treystir fólk í yfirþyngd ekki læknum sínum til að meta heilsufar þeirra rétt og rannsóknir virðast sýna að þetta vantraust á rétt á sér. Læknar eru líklegri til að líta framhjá einkennum hjá sjúklingum með BMI yfir 30% og veita þeim minni þjónustu en öðrum. Breskir vísindamenn fóru yfir hljóðskrár 208 sjúklinga hjá 38 læknum í opinbera heilbrigðiskerfinu þar í landi og komumst að því að þeir sýndu minni samlíðan og skilning þegar þeir töluðu við sjúklinga í yfirþyngd en þeir gerðu gagnvart grönnu fólki.
Fleiri rannsóknir hafa staðfest að oft vantar mikið á að fólk í ofþyngd mæti skilningi og samúð þegar það leitar til heilbrigðisstarfsmanna og það er iðulega sent heim með fyrirmæli um að laga mataræði og hreyfa sig meira. Þetta leiðir til þess að fólk í ofþyngd fær sjaldnar rétta greiningu og þær rannsóknir sem það þarf, eins forðast margir sem þannig er ástatt um að fara til læknis því þeir telja sig mæta óvinsamlegu viðhorfi. Þegar það gerist ná alvarlegir sjúkdómar að ganga lengra og verða erfiðari viðureignar. Til að sporna gegn þessu hefur farið af stað hreyfing undir yfirskriftinni: Heilsa í öllum stærðum eða Health in every size.
Hvað er heilsa í öllum stærðum?
Flestir nútímalæknar telja að grannvaxið fólk sé alla jafna hraustari en þeir sem eru yfir kjörþyngd og telja oft að það sé gefi til kynna heilbrigðari lífsstíl en það er hins vegar ekki alltaf raunin. Health at Every Size er hreyfing sem vill að horft sé öðruvísi á heilsufar og þyngd eða kílóafjöldi sé ekki látinn ráða þegar kemur að því að meta heilbrigði. Víða er fólk látið stíga á vigtina áður en læknir hefur almenna heilsufarsskoðun og þyngdin notuð sem mælikvarði þegar kemur að því að meti hreysti einstaklingsins.
Health at Every Size á rætur að rekja til líkamsvirðingahreyfinga og þær fengu öflugan liðsmann í Lindo Bacon, Ph.D. en hann hefur sérhæft sig í rannsóknum á líkamsþyngd og næringarfræði. Hann starfar við Kaliforníuháskóla og skrifaði bókina Health At Every Size: The Surprising Truth About Your Weight árið 2010. Hann heldur úti vefsíðunni: www.haescommunity.com.
Þar segir hann að um sé að ræða hreyfingu sem vilji að tillit sé til allra aðstæðna fólks, erfða, kynþátta, uppruna, kyns, skerðinga, þyngdar og kynhneigðar þegar heilsufar sé metið og ákvarðað hvernig læknisþjónustu fólk þurfi. Hreyfingin hefur leitast við að breyta viðhorfi lækna til sjúklinga og hvatt þá til að líta á aðra þætti en þyngd við mat á almennu heilsufari líffræðilega þætti eins og blóðþrýsting og kólesteról í blóði, félagslega þætti á borð við streitu, fjárhag og vinnuálag og einnig umhverfisþætti á borð við reykingar, áfengisneyslu, mengun og húsnæðisaðstæður.
Í stað þess að gera ráð fyrir að þú sért feitur og latur og þar af leiðandi ekki meðvitaður um að rækta heilsuna spyr læknir sem hefur kynnt sér HAES-hugmyndafræðina þig um daglegar venjur þínar, ábyrgð, álag og gildismat áður en hann gerir ráð fyrir að þú stundir ekki líkamsrækt og gefir þér ekki tima til að elda og neyta hollrar fæðu. Hann leitar síðan lausna með þér til að bæta lífsvenjur ef þörf er á. Meðal annars með tilliti til þess hvort þú átt hægt eða erfitt með að fara í líkamsrækt, hversu auðvelt aðgengi þitt er að hollum mat, er hann til dæmis of dýr fyrir þinn fjárhag eða þarftu að fara um langan veg til að nálgast hollustufæði, eða skortir þig þekkingu á að matbúa slíkan mat? Að teknu tilliti til þessara þátta ráðleggur hann breytingar sem auðvelt er að gera eða vísar áfram á sérfræðinga sem geta hjálpað.
Þyngdartap ekki grundvöllurinn
Þetta þýðir ekki að læknir sem hefur kynnt sér HAES-hugmyndafræðina ráðleggi ekki þyngdartap eða leiðir til að stuðla að því heldur frekar að hann gerir ekki ráð fyrir að þyngdin sé þér endilega fjötur um fót og hann gerir sér grein fyrir að þyngdartap er ekki alltaf markmið sem hægt er að ná eða æskilegt að ná. Það er ekki endilega ávísun á heilsubrest að vera of þungur og manneskja í ofþyngd sem tileinkar sér lífsvenjur sem stuðla að heilbrigði er ekki í meiri lífshættu en grönn manneskja eða óhraustari. Góð heilsa er ekki háð fatastærð eða kílóafjölda. Það eru margar leiðir aðrar til að bæta heilsu en að grenna sig.
21% sjúklinga í yfirþyngd í Bretlandi og Kanada álitu að þeir hefðu verið dæmdir eftir útliti og þyngd fremur en þeim einkennum sem þeir lýstu þegar þeir leituðu læknis.
Nýjar rannsóknir sýna að tengslin milli góðrar heilsu og þyngdar eru mun óskýrari og flóknari en menn héldu áður.
Rannsókn sem gerð var á 12.000 fullorðnum einstaklingum sýnir að lífsvenjur eru mun betri mælikvarði á lífslengd og lífsgæði en þyngd. Dagleg hreyfing, reykleysi og lítil áfengisdrykkja eru meðal þátta sem vega þungt þegar það er metið.
Líkamar okkar eru einfaldlega byggðir til að halda í þyngd hafi hún safnast á þá. Langtímaáhrif megrunarkúra eða lífsstílsbreytinga verða því sjaldnast varanlegar. Rannsóknir sýna að fólk léttist oft verulega fyrsta árið, stendur oft í stað eftir það og eftir fimm ár tekur líkaminn að safna á sig þyngd aftur.
Líkamsþyngd getur vissulega haft áhrif á hvort fólk þróar með sér sjúkdóma á borð við sykursýki og hjartasjúkdóma en ekki hefur verið hægt að sýna fram á að aukin líkamsþyngd valdi slíkum sjúkdómum. Aðrar ástæður vega þar oft þyngra.
Fitan getur verið góð í sumum tilfellum. Grannt fólk er í mun meiri hættu á að fá beinþynningu en þeir sem þyngri eru og ákveðnar tegundir krabbameina. Hjartasjúklingar með hærri líkamsþyngdarstuðull en kjörþyngd eru oftast fljótari að ná sér eftir skurðaðgerðir en þeir grennri. Hærri líkamsþyngd á efri árum getur einnig hjálpað fólki að yfirvinna erfiða sjúkdóma samkvæmt rannsókn frá árinu 2005 á vegum the Centers for Disease Control.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.