Íslendingar hætta almennt að vinna 67 ára og geta þá sótt um ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, eins og kveðið er á um í lögum um almannatryggingar. Menn geta unnið lengur en til 67 ára í einkageiranum og gera það, en fá að hámarki að vinna hjá hinu opinbera þar til þeir verða sjötugir.
Ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins er núna rúmar 266.000 krónur á mánuði. Þeir sem búa einir fá til viðbótar greidda svokallaða heimilisuppbót, þar sem það er dýrara fyrir einn að reka heimili, en fyrir tvo, sem hafa samanlagt helmingi hærri tekjur en sá sem býr einn. Heimilisuppbót er rúmar 67.000 krónur á mánuði og þannig er heildargreiðslan frá TR í tilviki einstaklings sem býr einn 333.000 krónur á mánuði. Greiðslurnar sem menn fá frá TR eru tekjutengdar.
Þeir sem eru með rúmlega 616.100 krónur í tekjur á mánuði eiga ekki rétt á neinum greiðslum frá Tryggingastofnun. Ef fólk hefur lægri tekjur en það, á það rétt á greiðslum frá TR. Þeir sem hafa engar aðrar tekjur fá fullan lífeyri eða rúmar 266.000 krónur á mánuði, en hafi menn tekjur af atvinnu, úr lífeyrissjóði eða fjármagnstekjur, lækka greiðslurnar sem þeir fá frá TR eftir ákveðnum reglum. Meirihluti eldra fólks hefur í dag einhverjar lífeyristekjur.
Á vef Tryggingastofnunar er reiknivél þar sem hægt er að slá inn tekjurnar sínar og sjá hversu háar greiðslur þeir fá frá stofnuninni. Sjá reiknivélina hér. Það er líka ástæða fyrir fólk að líta inná mínar síður, en þar er meðal annars sótt um ellilífeyri, þegar þar að kemur. Sú nýbreytni hefur verið tekin þar upp, að menn geta inná mínum síðum fylgst með því hvað líður afgreiðslu umsókna þeirra í kerfinu.
Næstum 36.900 manns fengu greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun í maímánuði. Það eru fleiri konur en karlar sem fá greiðslur frá TR, eða rúmlega 20.000 konur á móti 16.500 körlum. Samanlagt fékk þessi hópur greidda 7,4 milljarða króna í maí.