Fljóð og fossar í Anarkíu

Jóhanna V. Þórhallsdóttir tónlistar- og myndlistarmaður.

Jóhanna V. Þórhallsdóttir tónlistar- og myndlistarmaður.

Jóhanna V. Þórhallsdóttir er líklega þekktust fyrir söng og kórstjórn. Hún er nú hætt að stjórna kórum en syngur enn og málar myndir út í eitt. „Þetta er ekki gamall draumur að verða listmálari langt í frá. Þetta gerðist nú bara þannig að vinkona mín var að fara í málaratíma. Ég hugsaði með mér að það væri best að ég færa bara líka og dreif mig. Ég byrjaði í tímum hjá  Söru Vilbergsdóttur og síðar fór ég í tíma hjá Bjarna Sigurbjörnssyni og þau kveiktu svo sannarlega í mér, síðan eru liðin sjö ár,“ segir Jóhanna. Hún er nú að fara að opna þriðju einkasýningu sína á laugardaginn í salarkynnum Anarkíu í Hamraborg 3 í Kópavogi. Anarkía er hópur myndlistarmanna sem leigir tvo sýningarsali og þar geta myndlistarmenn leigt sér sýningaraðstöðu.

„Ég er búin að vera í myndlistarnámi í Akademie für Bildende Künste í  Kolbermoor í suður Þýskalandi undanfarið ár. Búin með fyrra árið af tveimur. Þar hef ég verið í læri hjá Markus Lüpertz stórkostlegum listamanni. Hann er einn af þeim stóru í  sínu heimalandi. Ég hef lært gríðarlega mikið af honum, hann er svona stór karakter sem þorir að vera öðruvísi. Afraksturinn af því sem ég hef lært í Þýskalandi verður á sýningunni sem kallast Fljóð og fossar. Það er eitthvað svo spennandi við rennandi vatn, krafturinn og þessi síbreytileiki. Það sama má segja um konur, þær eru kröftugar og síbreytilegar. Þetta er ógurlega gaman að leyfa sér að vera maður sjálfur og finna kraftinn við að skella málningunni á strigann. Maður gerir eitt verk. Stundum gengur það upp og stundum ekki en maður verður að halda áfram. Það þarf kjark til þess.“

Jóhanna er á leið til Þýskalands á ný í byrjun september. Hún segist fara út annan hvern mánuð. „Mér finnst ofboðslega gaman úti þó mesta fjörið sé nú heima. En úti kynnist maður allskonar fólki. Með mér í skólanum eru menntaðir myndlistarmenn sem eru í endurmenntun. Svo er þýskan á uppleið. Þegar ég fór út fyrst var þýskan mín ekki beysin. Maður henti sér út í djúpu laugina. Ég var skíthrædd þegar ég byrjaði en svo lét ég vaða og nýt þess svo sannarlega sem ég er að gera í dag.“

Ritstjórn september 1, 2016 11:00